Jökull - 01.01.2009, Qupperneq 124
Fjölnir Torfason
austur af dálítilli klettasnös og er þá komið á svokall-
aða Rák. Rákin er mjó skriðurák innarlega í Fellsklett-
unum, nærri einn kílómetra að lengd. Hundrað metra
flug er niður á Bjarnarák þarna neðan við og þar neðan
við tekur annað hamraflug mun hærra sem á þessum
tíma endaði niður á Breiðamerkurjökli. Féð er venju-
lega rekið úr Veðurárdal til byggða þegar smalað er á
haustin eftir Rákinni, fram í Fellskletta og síðan nið-
ur skriðurnar hjá svokölluðum Skógartorfum. Fyrir
miðja 20. öld voru gerðar tilraunir til að reka féð úr
Veðurárdal yfir egg yfir í austanverða Hvítingsdali og
þaðan yfir í Fellsfjall. Nokkrar þessara tilrauna end-
uðu illa og hafa ekki verið reyndar aftur í meira en
hálfa öld. Margir smalamenn hafa farið í böndum eft-
ir Rákinni og dæmi eru um að menn fóru ekki í fjöll
framar eftir að hafa lent í slæmum aðstæðum á þessari
leið. Það kom fyrir að kindur reyndu að troðast fram
úr hver annari á þröngri Rákinni eða að snörp vind-
hviða kom að óvörum, sem gat þá endað með þeim
ósköpum að einhver kindin flaug fram af hengiflug-
inu og þá þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Því
miður hafði þetta komið fyrir og það tók menn lang-
an tíma að jafna sig eftir slík óhöpp. Þegar ég var
unglingur töluðu eldri menn um að þeir hefðu oft átt í
erfiðleikummeð svefn lengi eftir slíka atburði og jafn-
vel vaknað upp með martröð um miðjar nætur löngu
síðar.
En okkur ferðalöngunum tókst að ná takmarki
okkar og komast í björtu niður Einstigið við Hellra-
fjallsnöf og þaðan út á Breiðamerkurjökul. Aldimmt
var orðið löngu áður en við komum að bílnum. Þegar
heim var komið beið okkar vel útilátinn kvöldverður
og hópur fólks sem vildi fá nákvæma lýsingu á ferða-
laginu.
Þegar kvöldverði var lokið fórum við Sigurberg-
ur í fjósverkin, nærri 30 kýr þurfti að mjólka. Mág-
kona mín, Svava Arnórsdóttir sem fyrir tilviljun var
stödd á Hala hafði tekið að sér morgunmjaltirnar, þess
vegna gátum við lagt af stað í myrkri snemma morg-
uns. Ekki veit ég hvernig þessi ferð hefði endað hefð-
um við ekki komist af stað fyrr en eftir morgunmjaltir.
Það var kraftaverki líkast hversu vel hafði gengið, þar
skipti miklu hversu vel ferðin hafði verið skipulögð
áður en lagt var af stað, en einnig hversu hratt okkur
miðaði inn jökulinn í morgunsárið.
Aldrei, fyrr eða síðar hef ég verið jafn uppgefinn
við að mjólka kýrnar eins og þetta kvöld. Við Sig-
urbergur þurftum í raun að taka á öllu því sem við
áttum eftir af orku til að klára mjaltirnar. Við mund-
um það alls ekki fyrir víst morguninn eftir hvort við
hefðum hleypt kúnum út á beit að loknum mjöltum
kvöldið áður. Þessi dagur ævi minnar líður mér aldrei
úr minni.
Allar gömlu sögurnar sem ég ólst upp við leiftr-
uðu fyrir hugskotssjónum á sama tíma og mér auðn-
aðist sjálfum að fara um þessar fáförnu slóðir og
skynja ægivald, fjölbreytileika og undur íslenskrar
náttúru. Með þessari ferð var langþráðu takmarki náð,
að tengja þekkingu áa minna í Suðursveit við helstu
fræðirannsóknir nútímans og síðan við eigin upplif-
un og rannsóknir að ógleymdu því að takast á við þá
miklu ögrun að komast alla leið á okkar eigin hyggju-
viti. Þannig verður lífsins skóli gjarnan ígildi æðri
menntunar.
REFERENCES
Guðmundur Jónsson Hoffell; Skaftfellskar þjóðsögur og
sagnir, Þorsteinn M. Jónsson Akureyri MCMXLVI.
Sveinn Pálsson. Ferðabók Sveins Pálssonar, dagbækur og
ritgerðir 1791–1797, Snælandsútgáfan MCMXLV.
Þorsteinn Guðmundsson, Reynivöllum. Ferð í Innri Veð-
urárdal 10. júní 1928, Sýslunefnd Austur Skaftafells-
sýslu; Skaftfellingur 9. árg. 1993.
Skaftafellssýsla, Sýslu og sóknarlýsingar Hins íslenska
bókmenntafélags 1839–1873, Sögufélag 1997.
124 JÖKULL No. 59, 2009