Jökull - 01.01.2015, Blaðsíða 114
á árinu 2013. Í stað þess að taka beinan þátt í vorferð
og útvega stóran snjóbíl, leggur LV fram styrk sam-
kæmt samningi serm félagið síðan nýtir til að gera
vorferðir sem best úr garði og til annarra verkefna
sem tengjast jöklunum. Gengið var frá þriggja ára
samningi (2014–2016) milli félagsins og Landsvirkj-
unar. Styrkir LV félagið um 1,8 milljónir á ári til að
sinna jöklarannsóknum og viðhalda jöklahúsum. Á
móti hafi starfsmenn rannsóknadeildar LV aðgang að
skálum félagsins og gögnum sem félagið safnar, s.s.
varðandi sporða- og afkomumælingar auk mælinga á
vatnshæð lóna sem safnað er í vorferðum.
ÁRSHÁTÍÐ
Eins og í fyrra fór Árshátíð JÖRFÍ fram í Húnabúð í
Skeifunni þann 15. nóvember eftir fordrykk á Veður-
stofu Íslands. Árshátíðin fór vel fram en þátttakendur
voru rúmlega 50.
SPORÐAKÖST - SPORÐAMÆLINGAVEFUR
JÖRFÍ
Á nýliðnu ári var smíðaður og opnaður nýr sporða-
mælingavefur Jöklarannsóknafélags Íslands. Vefurinn
er aðgengilegur á: http://spordakost.jorfi.is/ og geym-
ir ýmsan fróðleik tengdan sporðamælingum félagsins.
Á vefnum er m.a. yfirlit yfir sporðamælingar JÖRFÍ
frá upphafi auk ljósmynda frá sporðunum, línurit yfir
hop og framgang einstakra sporða auk þess að hægt er
að nálgast mæligögnin sjálf.
GRÍMSVATNAGRALLARI
Á árinu var endurútgefinn Grímsvatnagrallarinn, kver
með mörgum söngtextum Sigurðar Þórarinssonar,
ekki síst textum hans um jöklaferðir og ýmislegt bras
á vegum JÖRFÍ á fyrsta aldarfjórðungi starfseminn-
ar. Grallarinn var fyrst gefinn út í tilefni af 25 ára af-
mæli félagsins 1975. Sigurður taldi að hann ætti lítið
erindi út fyrir félagið og verður sú ákvörðun heiðruð
varðandi endurútgáfuna. Grallarinn er því aðeins til
sölu innan JÖRFÍ og fer ekki í almennar bókabúð-
ir. Í Grímsvatnagrallaranum eru mörg þeirra ljóða
sem jöklafólk syngur gjarnan í ferðum auk merkra
söguljóða eins og Gvendarkarga, sem er hetjuljóð í
stíl Gunnarshólma Jónasar og fjallar ekki um ómerk-
ari örlög – glímu Guðmundar Jónassonar og Sigurjóns
Rists við kargann á Tungnárjökli og örlög jöklabílsins
Gusa. Þessa litlu bók þurfa allir félagsmenn að eiga
og kynnast þannig sögu brautryðjendanna á Vatnajökli
gegnum smellin og húmorísk ljóð Sigurðar.
Magnús Tumi Guðmundsson
Gosstöðvarnar frá 2011 í suðvesturhorni Grímsvatna, horft austur með Grímsfjalli. The 2011 eruption site in
the southwest corner of the Grímsvötn caldera. Ljósmynd/Photo. Sjöfn Sigsteinsdóttir.
114 JÖKULL No. 65, 2015