Breiðfirðingur - 01.04.1985, Page 25
Elínborg Ágústsdóttir frá Mávahlíð
Trýna
Elínborg Ágúsdóttir frá Mávahlíð er lesendum Brciðfirðings að góðu
kunn. Nú bregður hún penna sínum aftur inn á svið ferfætlinganna,
sbr. frásögn hennaraf hestinum Hrotta, sem birtist í ritinu 1982. Eins
og fram kemur í frásögn Elínborgar hér á eftir tala dýrin falslausu
máli tilfinninga sinna. Hún lætur okkur með nærfærnum hætti
skyggnast inn í hugskot þessara mállausu vina sinna. Samskipti
manna og dýra mættu vera oftar á dagskrá í rituðu máli. E. K.
Kötturinn minn, hún Trýna var vitur, hún var góð, og hún
var frábær veiðiköttur. Trýna var fyrsti kötturinn í búskap for-
eldra minna á nýstofnuðu heimili þeirra í Mávahlíð. Ég var
fyrsta barnið. Vorum við Trýna jafngamlar. Urðum við fljótt
góðir vinir. Ég var víst ekki gömul er við fórum að leika okkur
við Trýna. Bundið var bréf á bandspotta, síðan dró ég það um
gólfið. Við það skrjáfaði í bréfinu. Trýna brá þá á leik hljóp á
eftir og reyndi að hremma bréfið. Varð hún æ æstari eftir því
er á leikinn leið. Ég hló dátt að þessum aðförum, og eftir því
sem ég hló meira varð hún kátari. Fór ég sama hringinn aftur
og aftur, varð hún þá alveg ringluð og beit þá einatt í skottið
á sér í staðinn fyrir bréfið, sem hún var að elta. Þetta voru
aðalgleðileikir okkar Trýnu. Allt umbar hún með þolinmæði,
hvernig sem ég druslaðist með hana bæði úti og inni. Það var
oft um það talað hve hún reyndi að hugga mig þegar illa lá á
mér. Ef ég hafði kastað mér grátandi á gólfið, var hún óðara
komin til mín, nuddaði sér upp við migog mjálmaði. Stundum
sleikti hún mig í framan með sinni hrjúfu tungu, en ekki gafst
hún upp fyrr en öll ólund var úr mér rokin. Settist ég þá upp og
kisa settist þá gjarnan hjá mér og fór að mala. Ég klappaði