Breiðfirðingur - 01.04.1985, Page 38
36
BREIÐFIRÐINGUR
Guðbrandur kallar nú menn sína og verður sjálfur fyrstur til
skips. Honum bregður allmikið þegar hann sér hvergi för eftir
mannaferðir umhverfis bátana. Reyndi hann um stund að
greina för, þar sem nýfallin mjöllin gerði sporrækt, eins og fyrr
segir, en einskis varð hann var og sneri þegar heim að sjóbúð-
inni. Mætir hann þá mönnum sínum á leið til bátanna. Guð-
brandur bað þá heim snúa og leggja sig aftur, því ekki myndi
róið þann dag
Við fullbirtuna um morguninn verður Guðbrandi litið út til
veðurs og fram á sjóinn. Sá hann þá 3 báta sigla til miða. - Þeir
bátar lentu aldrei aftur.
Pétur Konráðsson sagðist hafa hætt daglaunavinnu í apríl
sl. (1984). Hann var þá að eigin sögn búinn að vera í 43 ár, ým-
ist á sjó, eða við sjó. Þó samhliða við búskap í 18 ár.
Eins og vænta má kveður hann gífurlegar breytingar hafa
orðið á ýmsum þáttum sjómennsku, ekki síst á allri aðbúð á
sjó. Hann sagði að væri þar borinn saman gamli og nýi tíminn
væri ekki hægt að segja annað en aðbúð á nýju skipunum væri
sem hótelvist borin saman t. d. við skúturnar í gamla daga. -
Á skútunum var allt upp í fimm vikna úthald. Vatn um borð
var aðeins notað til matar og drykkjar, svo eitthvað sé nefnt.
Þá bleyttu menn sjóvettlingana sína í sjó og reyndu að strjúka
það mesta framan úr sér. Slík var snyrtiaðstaðan um borð á
sjónum þá.
Pétur réri á síðustu árabátunum frá Sandi. Hann réri t. d.
eina vertíð á áttæringnum Blika 1926. Formaður á bátnum var
Jón Sigmundsson frá Akureyjum. Nú er árabáturinn Bliki á
byggðasafninu á Hellissandi. Mun aldur hans vera farinn að
nálgast 150 ár.
Hér lýkur þá að sinni frásögn hins breiðfirska sjómanns, Pét-
urs Konráðssonar í Grundarfirði. Hugur hans hefur um stund
lyft tjaldi frá því sviði sjómennsku og þjóðlífshátta, sem er
óðum að lokast yngri kynslóðum í þessu landi.
E. K. skrásetti