Breiðfirðingur - 01.04.1985, Síða 48
46
BREIÐFIRÐINGUR
klukkan fimm eins og hún gerði, og fannst ekki mikið til um.
„Svona um hábjargræðistímann", var hennar viðkvæði.
Pessi kona varð 102 ára. Hún dó í næsta húsi við mig hér í
Reykjavík. Þegar gamla konan lést, varð mér að orði eitthvað
á þá leið að ekki hefði dúnvinnan í eyjunum reynst henni neitt
óholl.
Alltaf var það segin saga að húsmóðirin elskuleg kom með
aukakaffi til okkar út í kofa, þegar við vorum við dúnhreins-
unina, eða við þvott og þess háttar. Pönnukökur eða eitthvað
annað gott fylgdi ævinlega með kaffinu. Petta kölluðu þær
konusopann.
Já, ég stikla nú á stóru, því það yrði of langt mál að lýsa öllu
því, sem í eyjunum gerðist.
Og nú var komið að slættinum. Þá voru engar vélar, eða
önnur þægindi, sem létta mönnum vinnuna. Það var aðeins
orfið og hrífan og allt hey bundið í sátur og síðan borið á bak-
inu, bæði á bát og af. Oft var þetta við slæmar aðstæður, eins
og viðgengist hafði frá ómunatíð. Enginn hestur var í eyjun-
um. Það beit oft illa, þegar maóur var að slá á svokölluðum
lundabölum. Lundinn grefur óteljandi holur í jarðveginn. í
þessar holur verpir hann svo. En mikinn sand bar hann upp á
yfirborðið, og var það ekki vel gott fyrir ljáinn. Gras var samt
afbragðsgott á þessum bölum, það gerði áburðurinn frá fuglin-
um. Eyjataðan var dökkgræn og safamikil.
Seinni part ágústmánaðar var farið í kofnafar, sem kallað
var. Aðeins piltarnir unnu við það. Það var óþrifaleg vinna.
Við stúlkurnar unnum svo við reytinguna. Það var alveg
hræðilega leiðinlegt, en varð samt að gerast eins og önnur
verk. Kofan var góður matur, einkum söltuð. Teistukofan var
afbragðsmatur.
Húsmóðir okkar var einhver sú allra besta manneskja, sem
ég hefi kynnst um mína daga, að öllum öðrum ólöstuðum.
Hún hét Magðalena Kristjánsdóttir, ættuð úr Bjarneyjum á
Breiðafirði. Hún dvelur nú á Patreksfirði og er á níræðisaldri.
Magðalena var dagfarsprúð og ávallt glöð í viðmóti. Ætíð
fann hún málsbætur hjá þeim, er eitthvað hafðiorðið á í lífinu.