Breiðfirðingur - 01.04.1985, Síða 49
BREIÐFIRÐINGUR
47
Hún gat líka séð skoplegu hliðarnar og tekið öllu með léttri
kímni. Hún tók alltaf málstað þeirra, er minni máttar voru.
Daglega tók hún þátt í alls konar gleðskap með heimilisfólk-
inu og jafnvel unglingunum.
Þá var nú hvorki útvarp né sjónvarp og fólkið þurfti sjálft að
hafa fyrir að skemmta sér í fámenninu. Húsbóndinn var líka
afbragðsmaður. Hann var miklu eldri en konan. Hann var
góður sínu fólki. Mér þótti mjög vænt um hann. Hann er nú
löngu látinn.
Eyjarnar voru umgirtar fögrum fjallahring til allra átta.
Engin fjöll byrgðu útsýn, í hvaða átt sem litið var. Þetta virk-
aði þannig á viðkvæman barnshug minn, að hver dagur varð
opinberun.-
Kliður sjófuglanna barst að eyrum okkar úr öllum áttum,
allan liðlangan daginn. Kóparnir spókuðu sig á skerjunum allt
í kringum evjarnar. Á öllum klettasyllum, hvar sem maður
leit, raðaði lundinn sér með sínum spekingssvip, að ég tali nú
ekki um kríuna. Henni var nú stundum bölvað, þegar hún var
að höggva mann í höfuðið, já, stundum svo að blæddi. Þetta
var einkum seinni hluta sumars, þegar verið var að slá. Þá var
hún auðvitað að reyna að passa ungana sína. Reynt var að fara
varlega í kringum hreiðrin, en það var ekki alltaf gott að sjá
litlu hnoðrana í grasinu. Þeir sem slógu urðu að hafa diska í
húfunum sínum þar sem krían var mest.
Já, þetta er nú lítil mynd af eyjalífinu um og eftir 1920-30 en
ótalmargt er ósagt. Ég hefi t. d. ekkert sagt frá heyskapnum og
útlegunum. Á stærstu eyjunni var búið, og hún var nefnd
heimaey, en undir hana lágu ótal smáeyjar, sem voru nytjaðar
með dún, fugl og heyskap. Fyrst var heyjuð heimaeyjan en
síðan var farið að teygja sig í úteyjarnar. Það var mikið að
gera, þegar verið var að útbúa fólkið í útileguna, því margs
þurfti með. Fyrst var það gott tjald, svo rúmfatapokar. Síðan
maturinn og verkfærin. Ekki mátti gleyma prímusnum svo
hægt væri að hella upp á könnuna og hita annað, sem þurfti.
Það var mikið að gera í heimaeldhúsinu, þegar verið var að
koma þessu öllu í kring. Það þurfti að miða við allar birgðir