Breiðfirðingur - 01.04.1985, Page 142
140
BREIÐFIRÐINGUR
Margrét Sigurðardóttir, Saurstöðum, Dal.
Margrét Sigurðardóttir á Saurstöðum í Haukadal í Dalasýslu er ein af þeim
hagyrðingum okkar, er yrkja sér til hugarhægðar en hvorki til lofs né frægðar.
- Breiðfirðingur hefur ekki áður birt vísur hennar né Ijóð. Margrét á skammt
ættir að rekja til þeirra, sem kunnir hafa orðið af hagmælsku, svo sem móður-
ömmu sinnar, Margrétar Sigurðardóttur á Hafursstöðum á Fellsströnd. Fess
má og geta að ömmusystir hennar, Hólmfríður Kristín Sigurðardóttir komst
á bók hjá Nóbelsskáldi okkar í Heimsljósi. Hólmfríður var skáldkonan á fjós-
loftinu í Sviðinsvík.
Mánasilfur
Hér glitrar allt í glöðu mánaskini,
sem geislum stráir yfir mel og hól.
Þótt frostið svíði blöð af björk og hlyni,
þau blómgast aftur þegar hækkar sól.
Grenið stendur grænt á hvítum feldi,
grænt er líka sumarskartið þess,
jafnt þó í ægi sígi seint að kveldi
sól, eða rísi að morgni aftur hress.
Hver getur sofið svona bjartar nætur
í sínum draumum unað hægt og rótt.
Ég hlýt að vaka, hljótt ég stend á fætur
og horfi út í þessa björtu nótt.
Já, hérna glitrar úti jafnt og inni
allt sem máninn sendir geislaflóð.
- Ég út að glugga geng með léttu sinni
því geisladýrðin tendrar innri glóð.