Breiðfirðingur - 01.04.1985, Page 143
BREIÐFIRÐINGUR
141
Júlíana í Akureyjum og vísur tvær
Júlíana Jónsdóttir, löngum kennd við Akureyjar, var einn
kunnasti hagyrðingur við Breiðafjörð um sína daga. Hefur
hennar verið minnst áður í Breiðfirðingi í fróðlegri grein eftir
Lúðvík Kristjánsson rithöfund. Birtist hún í ritinu árið 1943.
Gömul kona, er dvaldi síðustu æviár sín á Tindum í Geira-
dal, Guðbjörg Þórarinsdóttir frá Fagradalstungu í Saurbæ, fór
stundum með tvær eftirfarandi vísur. Tilefni fyrri vísunnar
mun hafa verið það, að Júlíana kvaðst á, sem kallað var við
nokkra menn, trúlega einhverja úr eyjunum og aðra af landi.
Þegar hún hafði kveðið þá alla í kútinn, varð einhverjum úr
hópnum þessi vísa á munni:
Nú er ekki á neinu lag,
nær við allir þegjum.
Júlíana bindur brag
bæði landi og eyjum.
Einhverntíma þegar Júlíana hafði verið hresst á góðum
kaffisopa hjá góðvinum, kvað hún:
Kaffibollann mikils met ég
meðan tolli hjörs við stjá.
Fýluskollann frá mér set ég,
fjörið holla veitist þá.
Við Bollatóftir í Sælingsdal
Hallgrímur Jónasson kennari og rithöfundur orkti eftirfarandi
stöku, þegar hann hafði skoðað svonefndar Bollatóftir þar
sem þau dvöldu í seli Guðrún Ósvífursdóttir og Bolli maður
hennar.
Yfir sögu um hrund og hal,
harm og ástarbríma,
sefur gamalt sel í dal,
svipur liðins tíma.