Breiðfirðingur - 01.04.1985, Page 159
BREIÐFIRÐINGUR
157
bjóða til stofu þrátt fyrir auðnina. Og hjá Höskuldi var ekki
um annað að tala en að halda þeim góða sið.
Við áttum þarna saman oft friðsælar stundir í eyjakyrrðinni.
Ritað var í gestabók og rætt um vandamál líðandi stunda, og
hann brá sér þá stundum í hjall suður á eyjunni og kom þaðan
með rikling og rafurbelti úr afla frá liðnu sumri, og þegar sest
var að slíku góðgæti og eitthvað kannske haft með til að skola
því niður, var sannarlega farið að lifa upp forna eyjatíð í
Breiðafjarðareyjum.
Þótt stundum væri viðstaðan stutt, eru þessar minningar úr
stofunni í Sellátri skýrar og koma jafnan upp í hugann þegar
minnst er á Höskuld Pálsson.
Þeim Höskuldi og Kristínu, sem lifir mann sinn og býr í
Stykkishólmi, varð fjögurra barna auðið. Eitt þeirra dó í
bernsku, en hin eru: Jón Breiðfjörð kennari í Kópavogi,
Höskuldur Eyþór vöruflutningabílstjóri og Dagbjört Sigríður
útibússtjóri Tálknafirði. Auk þess ólu þau upp Sigrúnu Breið-
fjörð hárgreiðslukonu sem er búsett í Bandaríkjunum.
Höskuldur var vel á sig kominn líkamlega. Meðalmaður á
hæð, herðamikill og hinn myndarlegasti á velli, sem margir af
hans ættmönnum. Með honum er fallinn í valinn einn af
hinum svipmeiri breiðfirsku eyjamönnum, sem settu mót sitt
á samtíðina og umhverfið.
Hann andaðist á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi28. apríl 1982,
þá nýkominn úr eyjaferð og var jarðsettur frá Stykkishólms-
kirkju 8. næsta mánaðar að viðstöddu fjölmenni.
BjörnÁ. Ingólfsson.
Björn Ármann Ingólfsson var af hinni fjölmennu Svefneyja-
ætt sem mjög var útbreidd í Breiðafjarðareyjum fyrir þremur
til fjórum áratugum, eða meðan þær voru almennt í byggð.
Hann var fimmti ættliður í beinan karllegg frá Eyjólfi Einars-
syni í Svefneyjum, sem af sumum var kallaður Eyjajarl.