Breiðfirðingur - 01.04.1995, Blaðsíða 13
ÁRNAÐARMENN BISKUPSDÓTTUR
11
því hvort það kunni að hafa verið lektaradúkur sem á síðari
tímum hafi verið hafður fyrir altarisklæði.17 Samkvæmt mál-
daga kirkjunnar frá árunum 1570-1579 átti hún þá lektaradúk
auk þriggja altarisklæða;18 honum var þó ekki lýst nánar og í
vísitasíu kirkjunnar frá 1647 er sagt að hann vanti,19 en í
seinni vísitasíum, bæði biskups- og prófastsvísitasíum, er hans
að engu getið.20
Útsaumurinn á klæðinu er, sem fyrr segir, fremur óvandað-
ur og handbragð allt viðvaningslegt. Meðal annars þess vegna
er ekki ástæða til að ætla að Solveig abbadís hafi sjálf saumað
klæðið, þótt svo hafi jafnvel verið talið, en hins vegar kann
það að hafa verið unnið í klaustrinu,21 og gæti verið dæmi um
hannyrðanám ungra stúlkna þar á fyrri hluta 16. aldar.22 En
hvað viðkemur varðveislu þess vestur í Skarðskirkju, fjarri
Reynistað, er þess að geta að Matthías Þórðarson setti, með
öðru, fram þá tilgátu 1914 að það hefði verið saumað í
klaustrinu „máske af Þuríði dóttur Jóns byskups Arasonar,“23
og borist með henni að Skarði.
Þuríður biskupsdóttir
Um Þuríði þessa eru aðeins til óljósar heimildir. í afriti frá
1708 af ættartölubók saminni 1681, segir um Þuríði: „Þuríður
Jónsdóttir, biskups Jóns sjöunda barn, hún var systir í klaustri
á Reyninesstað og lét þar fallerast, meintu menn, hún hafði og
áður látið fallerast og hafði því gengið í klaustrið.“24 I öðru
afriti þessarar bókar, frá lokum 17. aldar, er bætt við „með
nýjari hendi“ athugagrein þess efnis að þetta sé „misskrifað
því að biskup Jón Arason átti ekki þessa Þuríði fyrir dóttur, og
ekki vitnast að hún hafi á Reynistað verið;“ jafnframt er
vitnað í „vísur Olafs Tumássonar“ þar sem sex börn Jóns
biskups eru nefnd, „en fleiri ekki.“25 Má í þessu sambandi
skjóta því inn í hér að samkvæmt afriti frá 1594 af skjali frá
1519, áttu Jón biskup og fylgikona hans, Helga Sigurðardóttir,
saman níu börn.26 Sex þeirra, alkunn af heimildum, eru