Breiðfirðingur - 01.04.1995, Page 135
MINNINGARBROT UM EYFA BJARNA
133
þegið þar góðgerðir var haldið af stað. Nokkuð suður af þess-
ari eyju var allstórt sker, sem selir lágu oft á á þessum tíma árs
og sóluðu sig í hækkandi sól á líðandi vetri.
En um leið og við förum frá eyjunni segir Eyfi við mig að
hann hafi hug á að koma við á Hádegisskeri, en svo hét skerið
og skuli ég halda þangað. Það var austan gola og sléttur sjór.
Við höldum þannig að skerinu að vindurinn stendur af því og
komurn að því að norðvestanverðu, enda vitað að ef selur væri
þar lægi hann á því að sunnanverðu.
Vélin í bátnum var mjög lágvær, sem var einkenni í Kelvin-
vélum, en samt var betra að fara varlega. Eyfi segir mér að
hægja á vélinni í tíma og stoppa hana áður en við lendum og
láta bátinn skríða hægt að.
Hann fer síðan upp með vopnið góða og segir mér að passa
bátinn. Ég sé að hann leggst niður og skríður upp á skerið þar
til hann sér suður yfir það, þá stoppar hann og leggur riffilinn
á og er ábyggilega að miða. Ég held næstum því niðri í mér
andanum af veiðihug og spenningi. Svo ríður skotið af, ég
heyri brölt og buslugang hinumegin við skerið. Eyfi stendur
upp og gengur suður á skerið. Hann kallar síðan til mín og
segir mér að koma með bátinn að skerinu þeim megin. Þar gaf
að líta stóran brimil liggjandi í blóði sínu. Hann hafði fengið
kúlu úr Gunnarsnaut í höfuðið. Við veltum honum niður í
bátinn og héldum heim.
Þegar við fluttum úr Fagurey 1936, fór Eyfi að búa þar með
foreldrum sínum. Hann bjó þar aðeins eitt ár og flutti þá upp í
Stykkishólm. Þess má geta að vorið 1937 flutti þangað bóndi
úr Bjarneyjum Ingólfur Pétursson. Stuttu seinna sama vorið,
brann bærinn í Fagurey. Eyjan fór þá í eyði og hefur ekki
verið byggð síðan. Eyfi verður því að teljast síðasti bóndinn í
þessari að mörgu leyti sögufrægu eyju.
Hann dvaldi síðan í Stykkishólmi mestan hluta ævi sinnar
eða þar til hann fór á dvalarheimili austur í Rangárvallasýslu.
Hann bjó lengi einn í Settuhöll (Egilshúsi í Stykkishólmi).
Hann giftist ekki og mér er ekki kunnugt um að hann hafi
eignast afkomendur. Samferðamönnunum verður hann lengi