Breiðfirðingur - 01.04.2016, Page 42
BREIÐFIRÐINGUR42
handa um að ferma skipin. Þau voru sett það langt niður að þau gætu
flotið upp um flóð því að jafnaði voru skipin fermd á þurru. Hlaðið
var í fremsta og aftasta rúmið, jafnt í skut og barka. Til þess að halda
við farminn var rám, svonefndum borðstikum, rennt niður með síðum
bátsins með nokkru millibili. Stóðu þær upp fyrir borðstokkinn og
hölluðust svolítið út á við. Svo var hlaðið að borðstikunum og var það
kallað að brjóta út. Það sem var ofan við borðstokkinn, ofar söxum (sax
er efsti hluti skipsstefnis), kallaðist stakkur og var aðeins breiðari en
skipið.
Misjafnt var hve mikið skipin voru hlaðin en mikilvægt var að eiga
borð fyrir báru því ekki var hægt að treysta á gott veður og sjólag þó
farið væri af stað í blíðuveðri. Gamla konan, en svo kölluðu sjómenn
Látraröstina stundum, gat verið úfin og illskeytt á stundum þótt sjólag
væri gott að öðru leyti. Vitnað er í Snæbjörn Kristjánsson frá Hergilsey,
sem var mikill sjógarpur og reyndur formaður á Brunnum. Hann kvaðst
ekki vilja fara með SvefneyjaFönix hlaðnari en svo frá Brunnum að
sjór væri í saumfari á þriðja borði. Fönix var stærsta opna skipið á
Breiðaflóa á síðari hluta 19. aldar en svo var Breiðafjörðurinn gjarnan
nefndur af Breiðfirðingum hér á árum áður. Þegar látin höfðu verið í
hann 8000 pund voru enn fjögur borð upp úr sjó.
Ef svo bar við að veður breyttist eftir að búið var að hlaða skipið
þurfti að bera af því ofan að söxum að minnsta kosti og ekki varð af ferð
í það skiptið. Lagt var af stað þegar lítið var fallið út þannig að skipið
rétt flaut. Þá var komið suðurfall austan Bjargtanga og meðstreymi. Í
mótstreymi var ógerlegt að komast leiðar sinnar. Straumur er svo harður
inn með Bjarginu „að svo gengur sem siglt sé, ef straumur er með, en
sex menn undir árum gera tæpast betur en halda við í mótstraum, í
fullhörðu falli og stórstraum.“46
Erfiðast var að komast að Siglunesi en meðstreymi entist þangað
ef logn var eða meðbyr. Stundum var tekin hvíld í Skor. Þegar komið
var að Siglunesi töldu menn sig vera komna heim þó taldar væru sex
vikur sjávar þaðan til Flateyjar en á leiðinni voru margar lendingar
þegar komið var inn í Eyjar. Væri austanvindur þá þokuðust bátarnir