Breiðfirðingur - 01.04.2016, Page 44
BREIÐFIRÐINGUR44
hálfhlöðnu skipi, en aðrir ekki. Sýndist mér veður hagstætt, er
sloppið væri fyrir Bjargtanga. En svo reyndist ekki, því að þegar
þangað kom, var sunnan veður á Snæfellsjökul og foráttubrim
undir bjarginu, ómögulegt að koma við segli og engin önnur ráð
en að snúa aftur sem bráðast, áður en straumur harðnaði meira
í Röstinni. Þetta var gert og siglt undanhald norður um tangana
aftur. En sjór gekk aftan á skipið og mig við stýrið, og gat eg ekki
varist, því að straumur var óður á móti. Eg sá óglöggt fram eftir
skipinu, vegna búlkans, en skipaði hásetum að dæla og ausa af
alefli. Enginn tími var til að ryðja fiskinum, enda var skipið ekki
hlaðið.
Hásetarnir dugðu vel, enda var hver öðrum hugprúðari. Veðrið
óx óðum, og varaði þetta því ekki nema tæpa hálfa klukkustund,
unz við náðum norður fyrir Bjargtangahornið, í ládeyðuna. Þá
man eg, að einn háseta sagði, og glotti við: „Nú mátti ekki tæpara
standa“.
Það var annaðhvort þetta sama vor eða hið næsta á eftir, að
við fórum að vestan um Jónsmessu, á fimm eða sex bátum. Veður
brást, er inn um Bjargtanga kom. Við vorum spöl á undan hinum,
og sýndist þeir allir snúa aftur. Veðurstaðan var suðaustan, og því
á móti. Og smáþyngdi. En af því að hásetar voru í röskvara lagi,
náðum við í Skorarvog, þar sem Eggert Ólafsson lenti forðum.
Voru þá engin tiltök að haldast við á voginum fyrir sjávarlöðri.
Við hleyptum því upp í gjá stórgrýtta, er þar var, og naut þess þá,
að hásetar voru harðskeyttir, að við náðum bátnum frá sjó, lítt
skeindum. Þeir voru glaðir, að hafa rent öllum hinum bátunum,
og tjölduðu þar yfir tóftarbrot til kaffihitunar. En af því að eg
neytti ekki þess góðgætis, gekk eg út á svonefndan Söðul, og sé eg
þá einn hinna bátanna, nálega kominn. Eg hleyp óðara til pilta
minna og heiti á þá til hjálpar hinum, ef þeir nái voginum, því að
hvergi annarstaðar var um landtöku að ræða, þótt ilt væri þarna.
Þeir fara í hlífar sínar og bíða litla stund, unz báturinn kemur á
voginn. Formaður vildi reyna að haldast þar við, en sýndist ekki