Breiðfirðingur - 01.04.2016, Page 101
BREIÐFIRÐINGUR 101
tíma í Bolungavík við Djúp og síðan alllengi tómthúsfólk í Kjaransvík
á Hornströndum. Þaðan komu þau yfir Hlöðuvíkurskarð með börnin
sjö vorið 1919 og hófu búskap á Steinólfsstöðum í Jökulfjörðum.
Bústofninn var ein kýr og fimmtán sauðkindur.
Á jólaföstunni 1920 áttu þessi örsnauðu hjón von á sínu áttunda barni
en það náði ekki að lifa. Einni viku fyrir jól dó móðirin af barnsförum.
Þorbjörn var síðasti ábúandinn á Steinólfsstöðum og á árunum 1919
og 1920 voru hann og fjölskylda hans eina fólkið í öllum hinum stóra
Veiðileysufirði. Hinar jarðirnar þar voru þá þegar fallnar í eyði. Frá
Steinólfsstöðum var því um ærinn veg að fara til næstu manna, undir
lok ársins 1920, að Kvíum eða Hesteyri, ellegar norður að Búðum í
Hlöðuvík. Þegar leið á árið 1921 settist Þorbjörn að í Hnífsdal. Þangað
hafði hann með sér fjögur barna sinna og börnunum fylgdi tengdamóðir
hans, Guðríður Torfadóttir, fædd 1855. Elstu börnin gátu þá þegar unnið
fyrir sér en hinum var komið í fóstur á árunum 1921 til 1923. Öll þessi
sjö börn komust upp og er gerð grein fyrir þeim í ritinu Vestfirskar ættir.
Í hauströkkrinu 1924 stóð Þorbjörn við bæjardyrnar á Svínanesseli,
albúinn þess að hefja nýtt líf og fjölga mannkyninu enn frekar. En það
var þröngt í búi og ekki á vísan að róa um bjargræði.
Lokaþáttur
Árið 1926 fór allt fólkið á Svínanesseli burt þaðan. Séra Árelíus segir
að er hér var komið sögu hafi Guðrún og Þorbjörn liðið skort og
hrakist út í Svefneyjar. Vera má að hreppsnefndin hafi haft forgöngu
um þá búferlaflutninga. Gamli maðurinn, hann Kitti, var þá kominn á
áttræðisaldur og fór nú að Svínanesi til hjónanna Halldórs Sveinssonar
og Guðrúnar Þórðardóttur. Þar átti hann sín síðustu ár og dó úr slagi
á Svínanesi, 28. september 1932, orðinn blindur og örvasa. Skömmu
síðar var hann jarðsettur á Skálmarnesmúla en á þeim forna kirkjustað
var þá engin kirkja. Hún hafði fokið í stórviðri.
Í sóknarmannatali frá nóvember 1926 eru Þorbjörn og Guðrún sögð
vera tómthúsfólk í Svefneyjum. Hjá þeim voru þá tvö börn, Albert
sonur þeirra á öðru ári, og Sigríður Kristrún Guðjónsdóttir, systurdóttir
Gunnu, sú yngri systranna tveggja sem alist höfðu upp hjá afa sínum á
REYKHÓLASVEIT