Breiðfirðingur - 01.04.2016, Qupperneq 119
BREIÐFIRÐINGUR 119
Steinólfur hefur þar með fullan rétt til að krefja toll eða gjald af þeim
skipum sem nýta sér hafnaraðstöðuna í Dagverðarnesi. Fleiri heimildir
styðja að höfnin þar hefur verið ein af aðalhöfnum Íslands frá elstu tíð
og fram á hámiðaldir. Til er sambærileg frásögn í Vatnsdæla sögu (kap.
17), þar segir frá Ingimundi gamla, höfðingja í Vatnsdal í tengslum við
skip sem lentu í Húnavatnsósi: „Ingimundr var vanr fyrstr manna til
skips at koma ok taka af varningi slíkt er honum sýndisk”. Þetta er ekki
valdníðsla eða ofbeldi, enda hefði það hefnt sín í sæmdarsamfélaginu,
öllu heldur réttmæt gjaldtaka, því að ferðamenn á skipum voru háðir
margskonar þjónustu í höfnum, það þurfti að lappa upp á segl eða gera
við skipsskrokk með skolpjárni, kaupa lýsi eða reip til viðhalds á reiða,
taka vatn og kost ef halda átti áfram, eða leigja naust og fá hjálp við að
setja upp skip ef liðið var á haust, þannig mætti lengi telja. Sagnirnar
sem varðveittar eru, í Vatnsdælu og í Þorskfirðinga sögu, greina ekki frá
þeim efnahagsaðstæðum sem undir búa, því miðaldaritarar eyða ekki
dýrmætu pergamenti í slíkt hvunndagssnakk. Deilurnar eru varðveittar
því þær snúast um kostgrip, hafnarstjóri krefst þess að fá dýrmætan hlut
í greiðslu, sem hinn farandi neitar að afhenda. Í báðum tilvikum virkar
þetta forna valdatákn, sverðið, sem minnisstuðningur, aides mémoires.
Síðan mætti spyrja hvort við byrjum að greina fleiri útlínur að forsögu
þessa máls. Sé það rétt til getið að nefnd Bjarmalandsför snúist um
langferð ungra vaskra manna við Breiðafjörð til NorðurÍshafsins, þá er
næst að spyrja hvaða umhverfi þar við Breiðafjörðinn var þess umkomið
að gera út slíka för. Hér þurfti þekkingu, tæki og tól og hér beinast
spjótin að því veldi veiðamannaefnahags og þeim skipakosti sem búið
var að byggja upp við Breiðafjörð og á Ströndum: veldi Geirmundar
heljarskinns. Þórir Oddsson og hans félagar tilheyra næstu kynslóð
eftir Geirmund og Steinólf, og það er býsna eðlileg hugsun að ef ungir
menn frá Breiðafirði fara annaðhvort í verslunar eða veiðileiðangur
á norðurslóðir, þá voru þeir háðir því að byggja á þeirri skipa og
veiðimenningu og siglingatækni sem eldri kynslóðir á svæðinu bjuggu
að. Steinólfur, eftir fráfall Geirmundar, er nú orðinn fulltrúi þessa veldis
REYKHÓLASVEIT