Breiðfirðingur - 01.04.2016, Page 130
BREIÐFIRÐINGUR130
2013: 287 o.áfr.). Það þýðir að hver maður, á þessum tíma hver höfðingi,
getur farið um svæðið á eigin ábyrgð og slegið eign sinni á þær afurðir
sem hann kemur höndum yfir á þessu svæði; hér var sennilega um bestu
veiðilendur Íslands að ræða. Þá voru gamlir bandamenn Geirmundar,
og þar af leiðandi Steinólfs, víða búsettir á Suðurströndum, við vitum
ekki hverjir hafa ráðið fyrir bæ Geirmundar í Selárdal, en nefna mætti
Önund tréfót aðeins norðar í Kaldbaksvík, Kolbein í Kolbeinsvík, og
Eirík Snöru í Trékyllisvík. Steinólfur gat þannig bæði sótt aðföng og
vináttu til Stranda. Þetta tvennt vó þungt í menningu fornmanna.
Stuttur vegur er milli Stranda og Breiðafjarðar í meira en bókstaflegum
skilningi. Sjá má á ættfræði og eldri sögu þessara svæða að um sama
menningarsvæði er að ræða, ekki síst má skýra það með samvirkandi
efnahag svæðanna. Strandamenn reiddu rekavið upp á klakka langt
fram á miðja 20.öld og létu hesta draga yfir Krossárdal til Breiðafjarðar
(Indriði Sigmundsson, munnleg heimild, 2004). Dæmi um þetta, sem
lifði langt fram á seinni ár er sú staðreynd að kirkjan á Skarði átti allan
reka á Gálmarsströnd á Suðurströndum allt fram á sjöunda áratug
síðustu aldar, þegar Hermann Jónasson loks afnam þessa gömlu skipan,
sem mönnum þótti þá allfurðuleg. Í Eyrbyggja sögu kemur á sama hátt
fram að valdamenn í Breiðafirði gera tilkall til hvalreka í Bitrufirði,
og hefjast deilur af. Ítök Skarðskirkju á Gálmarsströnd er að öllum
líkindum fyrirkomulag þar sem kirkjan hafði tekið yfir skipan sem rekja
má til fyrstu landnámsmanna.
Samantekt
Um er að ræða hliðarrannsókn sem ég vann í tengslum við Den
svarte vikingen, sem kom út í Noregi 2013. Þar styðst ég við
heimildarýnisaðferð sem ég þróa í því riti og kalla raunrýni. Þar mætti í
stuttu máli segja að þó engu sé treyst í blindni frá hendi miðaldamanna,
þá er reynt að rýna í texta þeirra á uppbyggilegri hátt en tíðkast hefur
innan eldri sögugagnrýni „sagakritikk”.
Í þessu sambandi er Þorskfirðinga saga prýðilegt dæmi, þar sem
bæði ritari sögunnar og seinni tíma fræðimenn hafa haft efasemdir um
þann texta sem sögulega heimild. Ekki minnst birtist þetta í aðaldeilum