Breiðfirðingur - 01.04.2016, Page 165
BREIÐFIRÐINGUR 165
Nemendur nýttu sér oft matarhléið til að fara í leiki, t.d. slagbolta,
yfir eða fallin spýtan. Ekki man ég hvort við þennan dag nýttum okkur
matarhléið til að fara í leiki úti, sennilega höfum við ærslast eitthvað
í samkomusalnum því mjög hafði bætt í vindinn þótt enn væri ekki
kominn bylur. En um klukkan tvö er skollinn á blindbylur af norðaustri
með miklu roki. Kennarinn ákveður að stytta skóladaginn til þess að
nemendur geti komist heim til sín í dagskímu. Jakob fylgdi þeim fyrst
heim sem voru úr Drápuhlíðarplássinu. Þegar hann hafði lokið því
fór hann með nemendur frá Arnarstöðum, Hofsstöðum og Helgafelli.
Við bræður kusum að freista þess að komast heim sömu leið og við
höfðum farið um morguninn, enda er sú leið mun styttri en ef farið
er niður á Vogaskeiðið. Við börðumst móti veðrinu og þurftum oft að
ganga afturábak til að hlífa andlitunum, svo mikill var veðurofsinn
og ofanhríðin. Heim komumst við um síðir, kaldir og hraktir. Nokkuð
löngu eftir að við komum heim er bankað og úti í bylnum stendur Jakob
kennari, kominn til að fullvissa sig um að við hefðum skilað okkur
heim. Í þessu vonda veðri hefur hann ekki gengið minna þennan dag
en um 30 kílómetra, því eftir að hann kom að Saurum átti hann eftir að
ganga niður að Helgafelli, en þar hélt hann til þennan vetur.
Aðbúnaður í skólahúsinu mundi ekki þykja boðlegur í dag. Kennt
var í þeim hluta hússins, sem kallaður var sviðið, en það mun vera
tveim stigaþrepum hærra en samkomusalurinn. Nemendur gengu upp
tröppur inn um dyr á austurhlið hússins. Fyrst var komið inn í eldhús.
Þar geymdu nemendur yfirhafnir sínar og skófatnað, við mikil þrengsli.
Ekki var óalgengt að fá á sig lús úr fötum þeirra sem voru frá þeim
bæjum þar sem hún var lengst viðloðandi. Ég man eftir að hafa fengið
slíkan óþrifnað tvisvar sinnum. Okkur var fyrirlagt að forðast að hengja
yfirhafnir nálægt fötum þeirra sem álitið var að væru með lús.
Inn af eldhúsinu var svo kennslustofan, löng og mjó, með einu löngu
svartmáluðu borði og fjórum baklausum bekkjum í sama lit. Fyrir
enda borðsins var einn stóll sem kennarinn hafði til umráða. Fyrsta
árið mitt í skóla var stofan hituð upp með kolaofni, en seinna kom
olíuofn, en af honum var oft vond lykt í skólastofunni, einkanlega fyrst
á morgnana eftir að olía hafði verið sett á hann. Tveir gluggar voru
SNÆ ELLSNES