Breiðfirðingur - 01.04.2016, Page 166
BREIÐFIRÐINGUR166
á stofunni, lítill vesturgluggi og stór suðurgluggi, sem alltaf pípti inn
um í sunnanrigningum. Laus veggur úr tréflekum var á milli sviðsins
og samkomusalarins. Á þessum vegg hékk skólataflan og þar voru
landakortin hengd upp. Þeir sem sátu norðan megin við borðið, en það
voru stelpurnar, þurftu þess vegna að snúa sér í hálfhring til að sjá á
töfluna og landakortin. Þannig var nú það. Allir nemendur voru í sama
bekknum. Það hafði þann kost að yngri nemendur gátu fylgst með og
tileinkað sér námsefni þeirra eldri og voru þess vegna oft vel undirbúnir
þegar komið var að þeim.
Engin snyrting var í húsinu né heldur rennandi vatn og enginn kamar
öll árin sem ég var í þessum skóla. Við strákarnir losuðum okkur við
vatnið undir vegg og ef eitthvað meira þurfti að gera fórum við gjarnan
inn í réttina. Stelpurnar hlupu alltaf vestur fyrir og hurfu ofan fyrir
árbakkann, eða notfærðu sér að fara í skjól við útikofa hjá Þórði og
Gunnu. Hugsið ykkur að það skuli hafa verið boðið upp á slíkt. Þetta
var kannski tíðarandinn. Ekki höfðum við heldur vatn úr krana heima
hjá okkur. Vatnið var alltaf sótt í brunn og borið inn í blikkfötum.
Einstaka sinnum var vatn sótt út í læk, sem rann vestan við túnið og
neðar á engjunum, kallaður Síkið.
Klæðnaður: Stelpurnar gengu á þessum árum alltaf í pilsum og
klæddust gjarnan kápum í frekar skærum litum, t.d. rauðum eða grænum.
Mig minnir að peysur hafi verið mjög algengar hjá báðum kynjum.
Ekki man ég hvaða yfirhafnir við notuðum, en þær hafa sjálfsagt verið
úr einhvers konar vefnaði, stundum þéttofnum og einnig mögulega
regnkápur. Á mynd frá þessum árum er ég í einhvers konar jakka og
stuttbuxum úr ullarefni, en Leifur er í matrósafötum með síðum buxum.
Gúmmístígvél voru algeng þegar blautt var um, en þegar þornaði og
kólnaði man ég að við vorum í ökklaháum Iðunnarklossum, sem voru
ágætir, en þeir voru ekki vatnsheldir. Aftur á móti var hægt að skrúfa
neðan á þá skauta þegar svo viðraði. Það kom fyrir að hægt var að setja
á sig skauta heima á Saurum og skauta alveg að skólahúsinu. Svo mikil
ísalög voru ekki óalgeng. Á þessum árum gengu allir í heimagerðurm
ullarnærfötum og ullarsokkum. Húfur voru þann veg gerðar að það
mátti setja þær niður á eyrun til að hlífa þeim í frosti og kulda.