Breiðfirðingur - 01.04.2016, Page 167
BREIÐFIRÐINGUR 167
Samkomuhúsið á Skildi stendur á gömlum árfarvegi Gríshólsár,
sem fyrr á öldum rann inn á Sauraengjarnar og niður þær vestan við
Engjarústina, rétt austan við núverandi þjóðveg, en sameinaðist þá
Saurasíkinu og rann eftir það undir síkisbrúna sem nú er á þjóðveginum
rétt áður en komið er á Vogaskeiðið. Ég hef heyrt að fyrr á öldum hafi
farvegi Gríshólsár verið breytt í það horf sem hún er nú, nema hún
hafi gert það sjálf. Áin þótti spilla mjög beitilöndum, en neðsti hluti
Sauraengja var eign Helgafellsklausturs. Suðvestan undir Arnarhólnum
er kriki sem kallaður er Nátthagi. Þar ætlaði ungmennafélag sveitarinnar
að byggja íþróttaleikvang og voru hafnar framkvæmdir við að þurrka
landið. Tók ég meðal annars þátt í því að grafa þar skurði og girða svæðið.
Ótrúleg bjartsýni hefur það nú verið að reikna með að slíkt gæti orðið
að veruleika. Áhorfendabrekkur frá náttúrunnar hendi, sem þar voru,
hafa sjálfsagt villt mönnum sýn. Vestur frá samkomuhúsinu er allhár
bakki sem notast var við sem áhorfendasvæði og síðan sléttar grundir
allt að ánni. Þarna voru oft haldin héraðsmót Ungmennasambands
Snæfellinga, enda grundirnar sléttar og jarðvegurinn þéttur. Man ég
sérstaklega eftir þátttöku bræðranna frá Borg og Hrísdal. Ekki má
gleyma þeim bræðrum Bjarna og Svanlaugi Lárussonum og Benedikt
Lárussyni, sem síðan spilaði á ballinu, sem alltaf var haldið í lok þessara
íþróttahátíða. Í krika norðan undir Arnarhólnum er fjárrétt sveitarinnar,
að mestu hlaðin úr torfi og grjóti. Þar gat nú verið fjör í fyrstu réttum.
Þá var líka haldið réttarball, sem stundum þótti sukksamt.
Norður frá samkomuhúsinu stóð gamli bærinn á Skildi, byggður úr
torfi og grjóti ásamt útihúsum. Þar var einnig fyrsta þinghús sveitarinnar,
bárujárnsklæddur skúr.
Kristján Jóhannesson, f. á Saurum í Helgafellssveit
1931. Eftir þriggja vetra nám í Reykholti tók við iðnnám
og starf í Reykjavík í nær 19 ár. Kristján stundaði siðan
verslunarstörf til 2004.
SNÆ ELLSNES