Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 27

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 27
27Ljósmæðrablaðið - júlí 2010 Þessi fjöldi manns virtist ekki trufla konuna að neinu leyti heldur virtist vera sjálfsagður og eðlilegur hlutur. Að okkar mati var ekki gerð eins mikil krafa að við værum að „gera eitthvað” fyrir konuna, þær virtust hafa meiri trú á sér og náttúrunni en margar íslenskar konur. Við heyrðum aldrei svona neikvæða frasa eins og “„það er ekkert að gerast” , „á ekki að gera eitthvað fyrir hana”, „þetta gengur ekkert” , „rosalega tekur þetta langan tíma” o.frv. Við sáum fljótt að það sem skildi fæðandi grænlenskar konur og íslenskar að var „þolinmæði”, sennilega er það nú líka almennt samfélagslegt vandamál hér heima fyrir, þ.e. óþolinmæði. Í fyrsta lagi voru konur ekki gangsettar fyrr en eftir fullar 42 vikur jafnvel í 43. viku og þær vissu að það ferli gæti tekið nokkra daga. Þær þurftu ekki að vera búnar að fæða fyrir kl. 16:00. Grænlenskum konum gekk almennt mjög vel að fæða og þurftu litla verkjastillingu. Mænurótardeyfing var ekki í boði en allt annað stóð þeim til boða, eins og bað, hláturgas, nálastungur o.frv. Konur voru almennt komnar langt í fæðingu þegar þær mættu á deildina enda voru þær hvattar til að vera eins lengi heima og mögulegt var. Oft voru þær komnar með 7-8 sm í útvíkkun við komu. Grænlensk börn eru frekar nett þegar þau fæðast er það meðal annars vegna mikilla reykinga kvenna á meðgöngu og svo eru grænlenskar konur frekar smávaxnar enda er þetta sennilega í eina skiptið sem við tvær höfum upplifað okkur hávaxnar (erum báðar 1,60 m). Almennt er lítið um inngrip í fæðingar, t.d. er það talið inngrip að rjúfa belg áður en konan er komin með 6 eða meira í útvíkkun. Syntocinondreypi er lítið notað og þarf sérstakt leyfi fæðingalæknis áður en það er sett upp. Fyrir vikið var það lítið notað. Eingöngu er notast við kíwi klukkur, sem virtist duga þeim vel. Keisaratíðnin er 18-20% og skýrist það m.a. af því að allar áhættukonur eru fluttar til Nuuk. Það sem okkur furðaði mest á var að ekkert er gert fyrir barn sem fætt er fyrir 28. viku meðgöngu nema það sýni mikinn lífs- vilja. Ekkert Tractocyldreypi er notað enda talið of dýrt, Bricanyldreypi er notað og sterar eru gefnir. Við fréttum af barni sem hafði fæðst eftir 27+3 v meðgöngu í nóvember og vóg aðeins 700 gr. við fæðingu. Beðið var í 2 daga eftir því að barnið gæfi upp öndina en þá loksins var því veitt meðferð og barnið útskrifaðist heim 2500 gr. stuttu áður en við fórum heim í febrúar. Aðstæðurnar á Grænlandi eru ekki alls staðar eins góðar og í Nuuk. Á mörgum smærri stöðum eru ljósmæður einar að störfum eða jafnvel engin ljósmóðir heldur sinnir svokallaður „födeassistent,, fæðingum. Samgöngur eru mjög erfiðar - engir vegir eru á Grænlandi og þess vegna koma konur með flugvélum eða þyrlum. Stundum er ekki hægt að fljúga og þá verður konan bara að bíða og vona það besta. Við vorum mikið á sólahringsbakvöktum og vorum mikið til skiptis á þeim. Oft var rólegt framan af degi og sátum við þá við hannyrðir, lestur, sjónvarpsgláp, púsluðum eða skoðuðum nánasta umhverfi. Oft var mjög rólegt hjá okkur þó fæddist eitt barn að jafnaði á dag. Þannig má segja að um hálfgert húsmæðraorlof hafi verið að ræða. Börnin vildu mikið fæðast á næturnar og þá þurftum við ekki að mæta næsta dag á morg- unvakt vegna hvíldarákvæðis. Aðstæðurnar voru hinar bestu hjá okkur og öðru starfsfólki sem við heimsóttum og það er gaman að segja frá því að Íslend- ingar á Grænlandi eru í miklum samskiptum. Mikill fjöldi Íslendinga er á Grænlandi við ýmis störf og láta þeir flestir vel af dvöl- inni þar. Í Nuuk eru aðstæður hinar bestu, fínar verslanir, ný sundlaug, líkamsrækt- arstöðvar, bíó, gott bókasafn, skíðasvæði og gönguskíðabraut er inni í bænum. Þannig að engum á að þurfa að leiðast. Veðrið kom einnig á óvart en snjólaust var í bænum og hiti á bilinu 0-7° C, samt sem áður gengu allir um í skíðagöllum, sem okkur fannst frekar fyndið. Við eru mjög ánægðar með litla ævintýrið okkar og erum sannfærðar um að allar svona ferðir efla og styrkja mann í starfi. Maður öðlast reynslu og víðsýni. Auðvitað fylgir því alltaf álag að fara á nýjan stað og þurfa að pína sig til að setja sig inn í nýjar aðstæður en um leið er það mjög þroskandi og teljum við að öll tilbreyting af hvaða tagi sem er komi í veg fyrir stöðnun og kulnun í starfi. Það er okkar mat að þær ljósmæður sem hafa áhuga og fá tækifæri til að starfa erlendis ættu ekki að láta það fram hjá sér fara. Fæðingarstofan í Nuuk. María og Bolette, sem er grænlensk ljósmóðir, á vaktini. Fiskikar = fæðingarlaug.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.