Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 28

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 28
28 Ljósmæðrablaðið - júlí 2010 Því er ekki að neita að árið 2007 var mér gott. Það var árið sem ég fékk tækifæri til þess að fara til Nairobi í Kenía og starfa sem sjálf- boðaliði á heilsugæslustöðvum í nærliggj- andi fátækrahverfum. Við fórum átta saman; bekkjarsystur úr hjúkrunarnámi við Háskóla Íslands. Á þessum tíma upplifðum við margt sem seint, ef einhvern tímann, verður afgreitt í fáum orðum. Til þess gerðist of margt. Sá dagur sem stendur mér hvað skýrast fyrir hugskotssjónum er án efa dagurinn sem við heimsóttum Pumwani. Dagurinn sem beðið hafði verið eftir Það var að morgni 6. júní sem við vorum sóttar sem fyrr, af bílstjóra sem ætlaði að skutla okkur á spítalann. Dagurinn hafði byrjað fremur óþægilega með fyrirsögnum dagblaða um blóðbað í hverfum sem við höfðum starfað í. Mafían og lögreglan skipt- ust þar á að drepa fólk að því er virtist án nokkurrar ástæðu. Það væri lygi að halda því fram að fyrirsagnir sem þessar hafi ekki komið illa við okkur en svo virtist sem samstarfsmenn okkar hafi valið að tala ekki um ástandið. Því upplifðum við okkur heldur bláeygar þegar þjálfari á líkamsræktarstöð upplýsti okkur um það að ástandið hefði ekki verið svona slæmt í mörg ár. Þessum hugs- unum var þó ýtt til hliðar því dagurinn var runninn upp þar sem við áttum að fá að sjá hærri gæðastuðul en við höfðum áður kynnst í störfum okkar. „Pumwani” var orð sem hljómaði heillandi. „Pumwani –Maternity Hospital”. Ég man að ég lék mér að þessum orðum í huganum á meðan ég sat í sólinni og beið með stelp- unum eftir bílstjóranum. Lengi hafði blundað í mér löngunin til að gegna starfi ljósmóður og mig þyrsti í þekkingu. Hvernig er að fæða barn á flottum fæðingarspítala í Afríku? Við höfðum áður orðið vitni að fæðingu fylgju (rétt misstum af fæðingu barnsins) á heilsugæslustöð einni og blöskrað frágang- urinn. Þar fólu þrif í sér klórslettu á bekk- inn, sem konan hafði örfáum mínútum áður komið í heiminn einstaklingi, sem dreift var úr með kjól nýbakaðrar móðurinnar. Það er skemmst frá því að segja að Íslendingarnir létu hendur standa fram úr ermum og þrifu stofuna, innfæddum til furðu og gamans. Pumwani Aðkoman að spítalanum var góð. Það var malbikað alla leið og húsið reisulegt. Það kannaðist að vísu enginn við okkur þegar við mættum og tók nokkra stund að greiða úr því. Í anddyrinu tók á móti okkur megn hlandlykt og tilhlökkunin í brjósti mér minnkaði eitt augnablik. Yfir mig færðist ótti um að hugs- anlega yrði ég fyrir vonbrigðum. Ég ýtti þeim hugsunum jafn harðan frá mér, brosti og hélt dauðahaldi í tilhlökkunina. Mig þyrsti raunverulega í að sjá eitthvað gott, einhverja von, því tilfinningin um að bera í botnlausan brunn og vera lítils megnugur var farin að ásækja mig. Þegar við vorum búnar að punga út „mzungo-gjaldi” (‚mzungo‘ stendur fyrir hvítan mann eða einhvern sem kemur langt að, m.ö.o. einhvern sem er líklegur til að eiga peninga) var rölt af stað með okkur í halarófu upp á fæðingargang. Á leiðinni rak ég augun í skilti sem sýndi verðskrá: Fæðing 3400 kr, keisaraskurður 6400. Inngangan Að ganga inn á fæðingarganginn er reynsla sem mun aldrei líða mér úr minni. Þetta var nokkuð stórt rými sem var hólfað niður í sex bása. Þegar við gengum inn voru básar á báða bóga. Í hvorum básnum voru sex rúm, þrjú upp við hvern vegg og vaskur innst. Þegar fram hjá þeim básum var komið var sams konar bás á hægri hönd en einhvers konar vakt á þá vinstri. Þar var borð fyrir starfsfólk, nokkrir stólar og barnaborð undir hitalampa. Innst á ganginum var skol á vinstri hönd en á þá hægri aðeins fjögur rúm í bás og tjöld sem huldu að einhverju leyti það sem fyrir innan var. Rúmin voru gamlar járngrindur og í þeim lágu skorpnar dýnur. Lök voru munaður sem áttu ekki heima þarna. Í rúmunum lágu konur, hálf naktar, mis langt komnar í fæðingu og horfðu hvor á aðra í þögulli örvæntingu. Yfir öllu hvíldi undarleg og að mér fannst, þrúgandi þögn. Sársaukagrettur og ankannalegar líkams- stellingar voru það eina sem gaf til kynna hvað væri raunverulega að gerast. Börn voru að fæðast. Færibandið Grænklædd kona, barnshafandi sjálf, gekk á milli kvenna og sprengdi belgi með nál í hettu. Þetta var færiband. Þurrka sköp með klór, sprengja, næsti. Konurnar lágu eftir í legvatni upp fyrir axlir. Nokkrar þeirra höfðu misst hægðir en enginn gerði neitt í því. Enginn talaði við þær eða hughreysti. Ekkert. Það var ekki fyrr en barnið var við það að fæðast sem einhver greip það. Hamingjuóskir? Nei. Konunum voru ekki einu sinni gefin færi á að sjá börn sín áður en þau voru sveipuð í dulur og skutlað inn á vakt. Á einhverjum tímapunkti fæddist fyrirburi og var færður undir hitalampann. Þar skipti sér enginn af honum. Hitalampinn hafði eina virka peru og ég leyfi mér að efast um að nokkurn tímann hafi verið skipt um sog, útlitið á því var þannig. Við hlið borðs- ins á skítugu gólfi lá súrefnisgríma. Það var sama afskiptaleysið þar eins og annars staðar. Vanmátturinn Ég gekk um þessa deild í leiðslu og staðnæmdist í einum básnum. Þar var komin kona sem hafði átt deginum áður en hafði blætt töluvert í kjölfarið. Yfir henni stóð meirihluti starfsliðs og fór grænklædda konan fyrir hópnum. Hún fór hranalega að henni og virtist konan hvekkt. Hún vildi ekki láta skoða sig og fór svo að sú græna gaf henni löðrung. Starfsfólkið stóð brosandi hjá á meðan sú græna jós yfir hana skamm- aryrðum og lamdi á fætur hennar. Ég horfði á þetta og gat ekkert gert. Ég var lömuð. Kökkur í hálsinum var það eina sem gerði þessa stund raunverulega fyrir mér. Ég fór Lilja Þórunn Þorgeirsdóttir ljósmóðurnemi á 2. ári Hakuna Matata? Innsýn bláeygs Íslendings í reynsluheim fæðandi kvenna í Nairobi

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.