Ljósmæðrablaðið - 01.07.2010, Side 26
26 Ljósmæðrablaðið - júlí 2010
Í janúar 2010 fórum við tvær galvaskar
norðlenskar ljósmæður á vit ævintýra á
Grænlandi. Stefnan var tekin á Nuuk þar
sem við unnum við ljósmæðrastörf. Nuuk
er höfuðstaður Grænlands og þar búa u.þ.b.
15 þús. manns og fæðingar eru um 400 á
ári. Ástæðan fyrir því að við fórum í þetta
ævintýri er sú að dönsk ljósmóðir sem önnur
okkar, þ.e. Málfríður (Malla) vann með í
Færeyjum sumarið 2009 hafði samband
þar sem mikill tímabundinn skortur var
á ljósmæðrum í Nuuk. Í fyrstu fórum við
að grínast með þetta, fannst það hálf fjar-
lægt að við yrðum ljósmæður á Grænlandi í
janúar kaldasta mánuði ársins, en svo létum
við slag standa og ákváðum að láta ekki
þetta tækifæri úr greipum okkar ganga. Þar
sem við vorum með danskt og sænskt ljós-
mæðraleyfi var umsóknarferlið auðvelt og
gekk hratt fyrir sig. Við sendum pappíra út
og stuttu seinna var allt frágengið s.s. flug,
húsnæði, hótel o.s.frv.
Þar sem flugsamgöngur eru frekar erfiðar
yfir veturinn neyddumst við til að fljúga fyrst
til Kaupmannahafnar og þaðan til Græn-
lands. Alls þurftum við að taka fjórar flug-
vélar til að komast á leiðarenda. Ferðalagið
gekk mjög vel og allt gekk að óskum.
Þegar við vorum búnar að koma okkur
fyrir í íbúðinni, sem var hin huggulegasta,
þurftum við að fylla á ísskápinn. Við vorum
búnar að undirbúa okkur fyrir það að hlut-
irnir væru öðruvísi en á Íslandi en bjuggumst
hins vegar ekki við því að ganga inn í nánast
tómar matvöruverslanir. Við fengum síðar að
vita að ekki hafði komið skip frá Danmörku
síðan fyrir jól og þar af leiðandi allt uppselt.
Þess vegna voru matarinnkaupin frekar
fátækleg í fyrstu - ekki til smjör, mjólk, ostur,
grænmeti eða ávextir. Tveim dögum síðar
kom skip og allt varð yfirfullt af vörum.
Við vorum ráðnar á fæðingadeild þar sem
tvær fullkomnar fæðingastofur voru til staðar.
Fyrstu tvo dagana fengum við aðlögun en
síðan tók alvaran við. Að taka á móti barni
er eins hvar sem er í heiminum þannig að
mesta púðrið fór í að koma okkur inn í skrán-
ingu, tölvu og pappírsmál svo og almenna
starfsemi sjúkrahússins. Það má segja að
deildin sé eins konar göngu- og dagdeild,
þ.e. ljósmæður eru einungis í húsinu frá
kl. 8- 16 alla virka daga en eftir það eru
bakvaktir. Á deildinni störfuðu að jafnaði 8
ljósmæður. Þrjár þeirra voru grænlenskar en
hinar danskar. Við vorum í nánu samstarfi
við deild sem kölluð er K3. Sú deild líkist að
miklu leyti gömlu kvennadeild FSA, þegar
allt sem snéri að konum var á sömu deild-
inni: sængurlega, meðganga svo og almenn
kvensjúkdómadeild. Á K3 störfuðu eingöngu
hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar, þannig að
ef t.d. þurfti að setja konu í monitor eða meta
á einhvern hátt vorum við kallaðar til, á nóttu
sem degi. Við fengum sinn vaktsímann hvor
því að við vorum mikið á sólahringsvöktum.
Einnig fengum við leigubílakort þar sem
við notuðum leigubíla aðallega á kvöldin og
næturnar. Við vorum mjög glaðar með að fá
þetta leigubílakort þar sem okkur fannst ekki
spennandi tilhugsun að þurfa að rölta einar
á spítalann í myrkrinu. Maður gat lent í því
að mæta fólki í misgóðu ástandi á rölti um
nætur.
Áður en við komum til Grænlands vissum
við að mikið væri um alls kyns félagsleg
vandamál. Samt sem áður höfðum við ekki
gert okkur grein fyrir því að stærsta heil-
brigðisvandamálið og jafnframt það kostn-
aðarsamasta væru fóstureyðingar. Á Græn-
landi er öðru hverju fóstri er eytt. Það var
ekki óalgengt að hitta konur sem höfðu farið
fjórum til sex sinnum í fóstureyðingu. Það
sem kom okkur samt mest á óvart í þessu
sambandi var að öll lyf og getnaðarvarnir
eru fríar. Mikið er um kynsjúkdóma af
ýmsu tagi og töluverð hassneysla jafnvel
á meðgöngu og þar af leiðandi ofbeldi og
misnotkun algeng. Ófrískar konur fengu oft
þvagfærasýkingar af einhverjum ástæðum.
Félagsleg staða var oft mjög slæm t.d. bjuggu
heilu kynslóðirnar saman í lítilli blokkaríbúð
og allt að þriggja ára bið var eftir leiguíbúð.
Þeir sem voru atvinnulausir voru nánast upp
á ættingja eða vini komnir vegna mjög lágra
atvinnuleysisbóta. Til dæmis tók önnur okkar
á móti barni hjá 44 ára einstæðri móður
og fór hún heim með barnið til háaldraðra
foreldra sinna sem bjuggu í lítilli blokk-
aríbúð ásamt eldri dóttur konunnar.
Mæðravernd fór fram á sjúkrahúsinu og
var sinnt á deildinni okkar. Við komum ekki
þar nærri vegna tungumálaörðugleika. Gott
aðgengi var að túlk en flestir Grænlend-
ingar í Nuuk tala góða dönsku. Það sama er
hins vegar ekki hægt að segja um fólkið frá
smærri stöðunum, það gat oft verið flókið.
Ekki var boðið upp á hnakkaþykktarmælingu
og voru því legvatnsástungur mjög algengar.
Konum var boðið upp á 16 vikna sónar en
hann var einungis notaður til þess að áætla
meðgöngulengd en ekki fósturrannsókn eða
fósturskimun eins og tíðkast hér á Íslandi.
Grænlendingar eru almennt mjög gott og
vingjarnlegt fólk og ekki þótti okkur erfitt að
sinna grænlenskum fæðandi konum þrátt fyrir
að algengt væri að fæðingarstofan væri full
af ættingjum. Ættingjarnir héldu sér til hlés
og voru rólegir og yfirvegaðir. Við fundum
það fljótt að það eru sterk fjölskyldubönd
á Grænlandi og mikið traust borið til ljós-
mæðra. Önnur okkar var eitt sinn með konu
í fæðingu þar sem maki, foreldrar konunnar
og þrír eldri bræður hennar voru viðstaddir.
Grænlenskt ævintýri
Húsmæðraorlof
Málfríður St. Þórðardóttir og María Egilsdóttir
ljósmæður á fæðingardeild FSA
Höfundar með forláta selskinnshúfur frá grænlenskum hönnuði sem kallar sig Kuka Design.