Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Blaðsíða 15
15Ljósmæðrablaðið - júlí 2015
og meltingarkerfum. Misjafnt er milli kynslóða og menningarheima
hvernig konur takast á við meðgöngukvilla en í flestum vestrænum
ríkjum eru þeir taldir óvinsælir, valda vanlíðan og auka streitu
(Grigg, 2006). Barnshafandi konur kjósa að nota viðbótarmeðferðir
til að draga úr þessum aukaverkunum vegna góðrar reynslu af þeim
fyrir þungun en einnig vegna ábendinga frá ljósmæðrum (Kalder,
Knoblauch, Hrgovic og Münstedt, 2011). Verðandi mæður virðast
upplifa aukna stjórn á eigin heilsu og ófædds barns síns þegar
viðbótarmeðferðum er beitt en tilfinning fyrir stjórn getur stuðlað að
aukinni ánægju (Green og Baston, 2003).
Viðbótarmeðferðir eru fjölþættur hópur úrræða sem ekki tilheyra
hinum hefðbundnu lækningum (Hall, McKenna og Griffiths, 2012a).
Meðferðirnar eru jafnólíkar og þær eru margar og hefðir og menning
stjórna því að einhverju leyti hvaða meðferðir eru notaðar og hve
mikil notkunin er í hverju landi (Hall, Griffihts og McKenna, 2011).
Náttúrulyf og bætiefni teljast til viðbótarmeðferða og svo virðist
sem barnshafandi konur ráðfæri sig ekki við heilbrigðisstarfsfólk
varðandi notkun slíkra meðferða þar sem þær álíta þessi efni
náttúruleg og skaðlaus (Adams, Sibritt og Lui, 2011). Niðurstöður
íslenskrar rannsóknar frá 2006 sýna fram á aukningu í notkun
viðbótarmeðferða hér á landi. Þar er bent á mikilvægi þess að
heilbrigðisstarfsmenn séu í stakk búnir til að mæta þessari þróun en
innan heilbrigðisstofnana á Íslandi skortir leiðbeiningar varðandi
notkun viðbótarmeðferða (Björg Helgadóttir, Rúnar Vilhjálmsson og
Þóra Jenný Gunnarsdóttir, 2010).
Niðurstöður lokaverkefnis í ljósmóðurfræði þar sem þekking
og viðhorf ljósmæðra til verkjameðferðar í eðlilegri fæðingu voru
skoðuð benda til þess að ljósmæður telji að fræðslu til barnshafandi
kvenna um notkun viðbótarmeðferða sé ábótavant (Signý Dóra
Harðardóttir og Elísabet Ósk Vigfúsdóttir, 2012). Því má álykta að
aukin þörf sé á samræmdri kennslu og þjálfun í viðbótarmeðferðum
fyrir þá sem koma að þjónustu við barnshafandi konur. Ákjósanlegt er
að fræðslan byggist á gagnreyndri þekkingu þar sem sýnt hefur verið
fram á árangur og skaðleysi (Adams, Lui, Sibbritt, Broom, Wardle
og Homer, 2009). Rannsóknir benda til þess að áhugi ljósmæðra á
notkun viðbótarmeðferða sé mikill en mismunandi skoðanir eru á
hvort notkun þeirra eigi heima í ljósmæðraþjónustu vegna vöntunar
á klínískum rannsóknum á áhrifum og skaðleysi meðferðanna (Hall
o.fl., 2012a). Sú vöntun hefur verið akkilesarhæll þegar kemur að
áreiðanleika þeirra og þar með innleiðingu í heilbrigðisþjónustu
(Ritenbaugh o.fl., 2011). Hér á landi hefur notkun viðbótarmeðferða
á meðgöngu og í fæðingu meðal kvenna lítið verið skoðuð og ekki
eru til upplýsingar um hvaðan konur fá hvatningu um notkun og
ráðleggingar varðandi slíkar meðferðir.
Bakgrunnur
Almennt nota konur frekar viðbótarmeðferðir en karlmenn
(Murphy, 1998; Adams, Sibritt, Easthope og Young, 2003) og
því kemur ekki á óvart að á bilinu 30‒70% þungaðra kvenna noti
slíkar meðferðir á meðgöngu samkvæmt niðurstöðum frá Ástralíu,
Ísrael, Bretlandi og Noregi (Adams o.fl., 2011; Bishop, Northstone,
Green og Thompson, 2011; Nordeng, Bayne, Havnen og Paulsen,
2011; Skouteris o.fl., 2008). Algengustu viðbótarmeðferðirnar
sem notaðar eru á meðgöngu og í fæðingu eru nálastungur, nudd,
svæðameðferð, ilmolíumeðferð, smáskammtalækningar, shiatsu-
nudd, jóga, náttúrulyf og dáleiðsla. Talið er að meðferðartegundirnar
skipti hundruðum en hefðir og menning stjórna því hvaða meðferðir
eru notaðar (Hall o.fl., 2011; Tiran, 2011). Í Þýskalandi eru til
dæmis nálastungur, ilmkjarnaolíur og smáskammtalækningar
mest notuðu meðferðirnar á meðgöngu og í fæðingu en í Ástralíu
er algengast að barnshafandi konur fari í nudd og jóga (Münstedt,
Schröter, Brüggmann, Tinneberg og von Georgi, 2009; Skouteris
o.fl., 2008). Önnur áströlsk rannsókn sýndi að 73% þungaðra kvenna
hafði nýtt sér viðbótarmeðferðir fyrir þungun og 40% þeirra héldu
áfram notkun á meðgöngu en aðeins 6% notaði ávísuð lyf frá lækni.
Sömu niðurstöður hafa komið fram í rannsóknum á Vesturlöndum
(Evans, 2009; Skouteris o.fl., 2008). Þetta gefur vísbendingu
um að barnshafandi konur í ýmsum löndum kjósi frekar að nota
náttúrulegar lausnir til að takast á við einkenni sem valda vanlíðan.
Lítið hefur verið skrifað um notkun viðbótarmeðferða
barnshafandi kvenna hér á landi en íslensk forrannsókn sýndi að
nálastungumeðferð fyrir konur með grindarverki á meðgöngu hafði
jákvæð áhrif á andlega og líkamlega líðan þátttakenda (Stefanía
Guðmundsdóttir og Helga Sigurðardóttir, 2006). Það að eiga kost
á notkun viðbótarmeðferða í meðgönguvernd og fæðingum er talið
auka ánægju bæði þeirra sem veita og þiggja þjónustuna (Hall o.fl.,
2012a) en góð og áreiðanleg upplýsingagjöf um viðbótarmeðferðir
í samskiptum ljósmóður og hinnar barnshafandi konu er því
nauðsynleg. Rannsóknir benda þó til að kunnáttu fæðingarlækna
og ljósmæðra sé ábótavant í einhverjum tilfellum (Tiran, 2006) sem
getur leitt til neikvæðra viðhorfa og verið hindrun í garð innleiðingar
nýrrar þekkingar (Maio og Haddock, 2010; Hessing, Arcand og
Frost, 2004).
Hér á landi hefur lítið verið birt um notkun viðbótarmeðferða
meðal kvenna á meðgöngu en tilgangur þessarar rannsóknar var að
skoða hvers vegna og hvaða viðbótarmeðferðir íslenskar konur nota
á meðgöngu og hvar konur fá hvatningu og ráðleggingar varðandi
slíkar meðferðir. Könnunin sem hér er lýst byggist á eftirfarandi
rannsóknarspurningum:
1. Hvaða viðbótarmeðferð nota íslenskar konur á meðgöngu?
2. Hvaðan fá þær ráðleggingar, hvatningu og upplýsingar varðandi
notkun viðbótarmeðferða?
AÐFERÐAFRÆÐI
Við undirbúning rannsóknarinnar var þróaður og forprófaður
spurningalisti til þess að hægt væri að meta notkun viðbótarmeðferða
á meðgöngu meðal íslenskra kvenna. Upplýsingar um tíðni notkunar
slíkra meðferða á meðgöngu hafa ekki birst hér á landi og því var
ákveðið að notast við lýsandi rannsóknarsnið (e. descriptive).
Sú nálgun er notuð þegar á að lýsa aðstæðum eins og þær koma
fyrir hverju sinni ásamt því að lýsa einkennum einstaklinga eða
hópa þar sem gögnum er safnað samtímis (Polit og Beck, 2012).
Spurningalistakannanir eru ein tegund lýsandi aðferðafræði og
hannaðar til að fá niðurstöður er varða tíðni, dreifingu og tengsl
ákveðinna fyrirbæra hjá þýði (Polit og Beck, 2012). Spurningalistinn
sem var notaður í þessari rannsókn byggist á fræðilegum grunni og
áströlskum spurningalista (Skouteris o.fl., 2008). Þar sem hönnun
spurningalistans var langt komin þegar ástralski spurningalistinn
barst var eingöngu notast við eina spurningu úr þeim lista. Sú
spurning varðar notkun viðbótarmeðferða við undirbúning
fæðingar en miðað var við leiðbeiningar Brynju Örlygsdóttur og
Erlu Kolbrúnar Svavarsdóttur (2005) um þýðingu spurningarinnar.
Þýðingu og staðfærslu verður að vinna með þeim hætti að
upplýsingar sem fást með staðfærðri þýðingu hafi sambærilega
eiginleika og frumútgáfa. Í þessu tilviki voru tveir einstaklingar,
tvítyngdir, fengnir til að gefa álit sitt á þýðingu spurningarinnar og
hún aðlöguð í samræmi við ábendingar þeirra.
Við þróun spurningalistans var leitað til 13 barnshafandi
kvenna sem mynduðu tvo rýnihópa. Konurnar komu frá tveimur
heilsugæslustöðvum og var meðgöngulengd þeirra 32‒39 vikur
(Margrét U. Sigtryggsdóttir, 2013). Við hönnun spurningalista er talið
kostur að notast við rýnihópa til þess að dýpka skilning rannsakanda
á viðfangsefninu (Silverman, 2006). Spurningalistinn var í þremur
hlutum. Fyrst var aflað upplýsinga um bakgrunn þátttakenda, síðan
var spurt um meðgöngukvilla og að lokum var spurt um notkun
viðbótarmeðferða og hvaðan konur fengu upplýsingar um slíkar
meðferðir.
Við gerð listans var stuðst við leiðbeiningar Dillman (2000) og Rea
og Parker (2012). Samkvæmt þeim er það ferli í þremur skrefum, í
þessari rannsókn voru það fyrst tvö rýnihópsviðtöl, síðan yfirferð
rannsakenda og að lokum var 50 mæðrum boðið að svara listanum.
Þróun spurningalistans er nánar lýst í óbirtri meistararitgerð (Margrét
Unnur Sigtryggsdóttir, 2013) en niðurstöður úr spurningalistunum
eru til umfjöllunar í þessari grein.