Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Qupperneq 20
20 Ljósmæðrablaðið - júlí 2015
ÚTDRÁTTUR
Á Ljósmæðravakt Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) fara fram
eðlilegar fæðingar í umsjón ljósmæðra. Erlendar rannsóknir sýna að
hægt er að reka slíka þjónustu á hagkvæman og öruggan hátt með
minni líkum á inngripum í eðlilegt barneignarferli. Markmið þessarar
megindlegu rannsóknar með lýsandi afturvirku rannsóknarsniði var
að kanna útkomu fæðinga og undirbúning fyrir fæðingu. Úrtakið eru
145 konur sem fæddu á HSS frá 1. maí 2010 til 1. maí 2011 og af
þeim fengu 66 konur undirbúning fyrir fæðinguna í formi jóga, nála-
stungna og fræðslu.
Helstu niðurstöður voru þær að útkoma spangar var góð. Ein kona
hlaut 3° rifu og engin 4° rifu. Lítil notkun sterkra verkjalyfja er á
deildinni. Flestar konur notuðu baðið sem verkjastillingu eða 67%,
glaðloft var notað í 23% tilfella og pethidín og phenergan voru notuð
í 12% tilfella. Inngrip í fæðingu voru lítil en belgjarof var gert í 23%
tilvika. Notkun syntocinons til örvunar var í 11% tilvika. Í 4% tilvika
þurfti að beita léttri sogklukku í fæðingu. Blæðing meiri en 500 ml
var 5% hjá 8 konum. Meðal Apgar skor barna var 8,5 eftir 1 mínútu
og 9,7 eftir 5 mínútur.
Þær konur sem fóru í meðgöngujóga þurftu síst sterk verkjalyf og
notuðu vatnsbað til verkjastillingar (84%). Marktækur munur (p =
0,003) gefur til kynna að þær konur sem stunduðu meðgöngujóga,
fengu undirbúningsnálar og fóru á foreldrafræðslunámskeið komu
betur undirbúnar fyrir fæðinguna og notuðu frekar vatnsbað sem
verkjastillingu. Þar sem úrtakið var lítið er frekari rannsókna
þörf. Niðurstöðurnar um ljósmæðrarekna þjónustu á HSS hvetja til
upplýsts vals kvenna í eðlilegri meðgöngu og fæðingu um að fæða í
heimabyggð.
Lykilorð: Ljósmæðrarekin þjónusta, samfelld þjónusta, eðlileg
fæðing, útkoma, meðgöngujóga, nálastungur.
INNGANGUR
Val á fæðingarstað, fjölbreytileiki og mismunandi þjónustustig til að
koma til móts við þarfir barnshafandi kvenna og fjölskyldna þeirra
er nauðsynlegur í barneignaþjónustunni (Ljósmæðrafélag Íslands,
2000). Mikilvægt er að fæðingarstaðir verði ekki færri en þeir eru nú,
en þeim hefur fækkað úr 15 niður í 8, auk heimafæðinga, á árunum
2000 til 2013 (Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Guðrún Garðarsdóttir,
Er heimabyggð rétti staðurinn
fyrir konur í eðlilegri fæðingu?
Afturvirk lýsandi rannsókn á útkomu eðlilegra fæðinga á
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
F R Æ Ð S L U G R E I N
RANNSÓKN
Ólöf Ásta Ólafsdóttir,
ljósmóðir PhD. Lektor við námsbraut í
ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild
Háskóla Íslands
Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir M.Sc. á Heilbrigðisstofnun
Suðurnesja