Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Síða 21

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Síða 21
21Ljósmæðrablaðið - júlí 2015 Alexander K. Smárason og Gestur I. Pálsson, 2014; Reynir T. Geirsson, Gestur Pálsson, Ragnheiður I. Bjarnadóttir og Guðrún Garðarsdóttir, 2001). Rannsóknin sem hér er kynnt fór fram á fæðingardeild á landsbyggðinni á árinu 2010‒2011, við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS). Búið er að loka þeirri skurðstofuþjónustu sem í boði var á HSS og breyta fæðingarstaðnum úr því að vera skilgreindur sem C2 í það að vera D1 fæðingarstaður þar sem konur fæða í umsjá ljósmæðra sem hafa aðgang að þjónustu heilsugæslulækna (Landlæknisembættið, 2007). Lögð var áhersla á að viðhalda ljósmóðurþjónustu í eðlilegum fæðingum á HSS. Reynslan sýnir að konur vilja fæða í sinni heimabyggð. Á fæðingardeild HSS sem nú heitir Ljósmæðravaktin er lögð áhersla á rólegt umhverfi og sem minnsta truflun á eðlilegt ferli. Konur eru hvattar til þess að fæða á náttúrulegan hátt þar án verkjalyfja og er þeim markmiðum mætt með áherslu á undirbúning sem þær geta nýtt sér á meðgöngu. Í boði er meðgöngujóganámskeið og nálastungur frá 36. viku meðgöngunnar, svokallaðar undirbúningsnálar, einu sinni í viku fram að fæðingu. Einnig er í boði foreldrafræðslunámskeið. Rannsóknir gefa til kynna að ljósmæðrarekin eining, yfirseta ljós- móður í fæðingu og samfelld umönnun minnki líkur á lyfjanotkun og inngripum (McLachlan, Forster, Davey, Farell, Gold, Biro, Albers, Flood, og Waldenström, 2012; Freeman, Adair, Timperley og West, 2006). Betri útkoma spangar er á ljósmæðrareknum einingum (Overgaard o.fl., 2011; Bernitz, Rolland, Blix, Jacobsen, Sjøborg og Øian, 2011; Hodnett, Gates, Hofmeyr og Saksl, 2007). Barnsfæðing er eitt af stærstu þroskaverkefnum sem fjölskyldur takast á við. Ef konan fær þjónustu þar sem hún telur sig örugga og líður vel og treystir þeim sem annast hana eru auknar líkur á að fæðingarferlið sem stýrt er af hormónum hafi sinn gang. Margar konur vilja fæða á ljósmæðrareknum stað og fæða á náttúrulegan hátt án verkjalyfja vegna þess að almennt finnst þeim umhverfið vera notalegt (Eide, Nilsen og Rasmussen, 2009) öruggt, hlýtt og án truflunar (Odent, 2011). Erlendar og íslenskar rannsóknir benda til þess að hægt sé að reka örugga barneignaþjónustu við aðstæður eins og eru á Suðurnesjum (Berglind Hálfdánsdóttir, Alexander Kr. Smárason, Ólöf Ásta Ólafsdóttir, Ingegerd Hildingsson og Herdís Sveinsdóttir, 2015; Sigrún Kristjánsdóttir, 2012; Overgaard o.fl., 2011; Hodnett o.fl., 2007). Ljóst er að fæðingarþjónustu á sjúkrahúsum með fullum rekstri skurðstofa verður ekki haldið úti á mörgum stöðum á Íslandi en mikilvægt er þó að áfram verði í boði ákveðin grunn barneigna- og fæðingarþjónusta sem víðast. Til þess að slík fæðingarþjónusta sé raunhæfur valkostur fyrir konur í eðlilegri meðgöngu og fæðingu er mikilvægt að gera rannsóknir sem afla upplýsinga um og þróa örugga og hagkvæma fæðingaþjónustu í heimabyggð, hvort sem um er að ræða fæðingar á ljósmæðrastýrðum einingum eða heimafæðingar og miðla þeim upplýsingum til ljósmæðra og annars fagfólks í barneignaþjónustunni. Nýlega komu út klínískar leiðbeiningar um fæðingarhjálp í Bretlandi sem leggja áherslu á að konur fái fræðslu í meðgönguvernd til þess að auka trú þeirra og getu til þess að fæða eðlilega og án inngripa og að fyrsta val kvenna í eðlilegri meðgöngu sé að geta fætt á sjálfstæðri ljósmæðrastýrðri einingu með samfelldri þjónustu og/ eða hafa val um heimafæðingu (NICE clinical guidelines, 2014). Talið er að konur í eðlilegri meðgöngu og fæðingu fái frekar samfellda þjónustu frá ljósmæðrum sem starfa á litlum fæðingarstað eða heima og með sem minnstum inngripum heldur en á hátæknisjúkrahúsi þar sem eitt inngrip getur leitt af sér önnur og þar með fjölgað keisaraskurðum (McLachlan o.fl., 2012; Barlow, 2008; Fenwick, Butt, Dhaliwal, Hauck og Schmied, 2009; Odent, 2011; Birthplace in England Collaborative group, 2011; NICE clinical guidelines, 2014). Stuðlað er að eðlilegum fæðingum með því að styðja við verkjastillingu í fæðingum án verkjalyfja sem minnkar líkur á inngripum og eykur jákvæða upplifun kvenna af fæðingunni (Overgaard, Møller, Fenge-Grøn, Knudsen, Sandall, 2011, NICE clinical guidelines, 2014). Þessi fræðslugrein segir frá meistararannsókn þar sem tilgangurinn var að afla upplýsinga og styðja við upplýst val kvenna í eðlilegri meðgöngu um að fæða í sinni heimabyggð. Gögnum var safnað um útkomu eðlilegra fæðinga og hvaða áhrif undirbúningur á meðgöngu hefur til að styrkja konur til þess að fara í gegnum eðlilega fæðingu án verkjalyfja. Því voru eftirfarandi rannsóknarspurningar lagðar fram: 1. Hver er útkoma eðlilegra fæðinga við HSS á tímabilinu 1. maí 2010 til 1. maí 2011? 2. Hver eru áhrif undirbúnings á meðgöngu á útkomu fæðingar með tilliti til meðgöngujóga, nálastungna og foreldrafræðslu? 3. Er samband á milli undirbúnings á meðgöngu og verkjastillingar í fæðingu? Eðlilegar fæðingar og fæðingarstaðir Ekki er auðvelt að skilgreina hvað eðlileg fæðing er í nútímasamfélagi. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO leggur áherslu á stuðning við eðlilega fæðingu og lífeðlisfræðilegt ferli. Skilgreining WHO á eðlilegri fæðingu er: Fæðing sem fer sjálfkrafa af stað, kona í eðlilegu ferli á meðgöngu og haldi þannig áfram út fæðinguna. Að barnið fæðist af sjálfu sér í höfuðstöðu milli 37.‒42. viku meðgöngu og að eftir fæðingu séu móðir og barn í góðu ásigkomulagi (WHO, 1996). Samkvæmt Fæðingarskráningunni fyrir árið 2010 yfir fæðingar á Íslandi koma fram gæðavísar um fæðingar þar sem eru skilgreiningar eins og: Fæðing án inngripa og Fæðing án fylgikvilla. (Ragnheiður I. Bjarnadóttir o.fl., 2011). Samkvæmt skilgreiningu Landlæknisembættisins er búið að gefa út leiðbeiningar til að flokka fæðingarstaði miðað við áhættu. D1 er fæðingarstaður þar sem konur fæða í umsjá ljósmæðra sem hafa aðgang að þjónustu heilsugæslulækna og er fyrir hraustar konur í eðlilegri fæðingu, í 37‒42 vikna meðgöngu, í sjálfkrafa sótt, ekki fyrirsjáanleg vandamál í fæðingunni og er fyrirfram ákveðið og upplýst val konunnar (Landlæknisembættið, 2007). Aldrei er eins mikil þörf á að halda utan um og styðja við eðlilegar fæðingar eins og nú. Inngripatíðni er að aukast á tímum tæknivæðingar og breyting hefur orðið á hugtakinu „eðlilegt“. Hvað er eðlileg fæðing? Er það þegar ekki hafa verið nein inngrip eða þegar fæðing hefur átt sér stað um fæðingarveg með gangsetningu eða með notkun utanbastdeyfingar (Page, 2000)? Í lokaverkefni Sigrúnar Huldar Gunnarsdóttur (2014) í ljósmóðurfræðum um viðhorf og skilgreiningu íslenskra ljósmæðra á eðlilegum fæðingum og fæðingarumhverfi kom engin ein skilgreining fram, en áhersla var á sjálfkrafa upphaf og lífeðlisfræðilegt ferli án inngripa og jákvæð upplifun konunnar um að hún væri sigurvegari skipti mestu máli. Mismunandi getur verið hvernig ljósmæður skilgreina eðlilega fæðingu eftir því á hvers konar fæðingarstað þær starfa, til dæmis hvort fæðingin fer fram heima eða á fæðingarstofnunum, og hvaða hópi kvenna þær eru að sinna (Kennedy og Shannon, 2004; Sigrún Huld Gunnarsdóttir, 2014).

x

Ljósmæðrablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.