Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Page 38
38 Ljósmæðrablaðið - júlí 2015
konurnar stóðu upp og gengu aftur yfir í hitt rýmið með allt dótið
sitt. Þær þurftu nefnilega sjálfar að koma með mat (sem fáar voru
með) og drykk sem var oftast te. Einnig voru þær með dúka sem
notaðir voru sem föt fyrir móðurina, teppi fyrir barnið, lak undir þær
í fæðingunni sjálfri og tvær plastfötur; ein var fyrir óhreint tau og hin
ef þær köstuðu upp. Það var engin gleði í kringum þetta ferli, ekkert
bros, engin tilkynning hvort strákur eða stelpa væri fædd/fæddur né
hamingjuóskir. Ef fæðandi konan öskraði mikið þá var hún slegin í
lærið eða í andlitið. Ég veit ekki hvort þessir siðir og venjur eru vegna
trúarbragða, lífshörkunnar eða lítillar vonar um gott líf. Matarpásur
voru einnig sérstakar, aldrei sást neinn borða en annað slagið fá sér
að drekka. Í fyrstu vikunni fékk ég mér samloku eða banana fyrir
utan bygginguna. Þá var mikið horft á mig (reyndar alltaf vegna þess
að ég er með hvíta húð) og eftir nokkra daga fattaði ég að þetta væri
líklega ekki viðeigandi þar sem fólkið átti varla fyrir mat. Á hverjum
degi skutlaði sami 23 ára gamli strákurinn mér og sótti mig í vinnuna
á skellinöðrunni en ég borgaði honum 180 krónur fyrir, sem eru
miklir peningar þar. Hann sagðist vera að safna til þess að geta farið í
skóla. Ótrúlegt en satt þá fannst mér ég vera öruggari hjálmlaus aftan
á hjá honum en að ferðast ein gangandi eða með strætó .
Einn vinnudaginn var kona í fæðingu með um þriggja cm lag af
bjúg á kúlunni og alls staðar var bjúgur. Blóðþrýstingurinn var
160/105 mm Hg, hún fékk blóðþrýstingslækkandi lyf (e. trandate/
labetalol) og saltvatn í æð. Konan var mjög veik af meðgöngueitrun
og erfitt var að ná sambandi við hana. Kviðurinn var svakalega stór
og bjóst ljósmóðirin við tvíburum. Tilkynnt var að það ætti að færa
hana yfir á annað sjúkrahús þar sem hún fengi betri umönnun, en hún
var síðan ekki flutt af einhverjum ástæðum. Þegar konan var búin
að umla í margar klukkustundir án framgangs var samdráttarlyfi (e.
syntocinon) sprautað í saltvatnspokann og hraðað á drippinu. Mér var
falið að taka á móti en yfirljósmóðirin fylgdist náið með og stjórnaði
hverju skrefi fyrir sig. Eftir nokkurn tíma fæddist 2500 gramma sonur
sem grét strax, og lá hitt barnið í höfuðstöðu en hátt uppi. Síðan var
beðið, konan lá í móki og yfirljósmóðirin stóð nokkra metra í burtu
með hendur í kross. Það liðu 15 mínútur og ekkert gerðist. Mér var
sagt að bíða eftir 10 cm útvíkkun og að barnið myndi birtast. Ég náði í
doppler tækið. Ég ætlaði sko ekki að standa þarna og gera ekki neitt og
láta lítið barn deyja á meðan ég beið! Jú, hjartslátturinn var eðlilegur.
Fjörtíu mínútum eftir fyrsta barnið biðum við enn... Ég hlustaði oft
og var létt þegar ég heyrði 120 sl/mín. Tíu mínútum síðar kom annar
2500 gramma drengur en ekki jafn sprækur og bróðir hans. Apgar stig
eftir fimm mínútur var 7. Þá var tími fyrir fylgjurnar, fundus uteri
var við rifbeinin. Ég hugsaði: „Bíddu, getur verið að það sé eitt barn
í viðbót þarna inni?“ Í sömu andrá kom blóðflóð og fylgjurnar komu
(sem betur fer) en áfram hélt að blæða. Ekkert virtist virka, hvorki
syntocinon né nudd, og kallað var í læknana. Hlutirnir gerðust mjög
hægt og starfsfólkið var rólegt. Ég fór strax að mæla púlsinn, sem var
uppúr öllu valdi, og blóðþrýstinginn, sem var lækkandi, og sagði að
það yrði að tæma þvagblöðruna. Það var ekkert hlustað á mig, enda
voru þau búin að taka yfir umönnunina. Eftir um fimmtíu mínútur
var hún færð í sjúkrabílinn, sem var frá áttunda áratugi síðustu aldar
og engan veginn búinn neinum græjum (sjá mynd 4), með ljósmóður
sem framkvæmdi bimanual þrýsting (e. bimanual compression)
og var flutt á annan spítala. Síðar frétti ég að konan hefði lifað af
og fengið blóðgjöf en misst að öllum líkindum 3‒4 lítra af blóði í
fæðingunni. Það var stundum logið að mér, en ég kýs að trúa því að
hún hafi í alvöru lifað af.
Yfirlæknirinn tilkynnti mér að ef mig langaði að styrkja spítalann
þá vantaði kodda fyrir álmuna. Fegin að fá upplýsingar frá honum
keypti ég þrjá kodda til að byrja með. Þeim færði ég þremur
sængurkonum sem ásamt starfsfólkinu glöddust. Þennan dag fór ég
í mæðraverndina þar sem unnið er markvisst að því að konur komi
þrisvar til fjórum sinnum á meðgöngunni í eftirlit. Þar er athugað
með status á HIV, gefnar járntöflur og töflur gegn liðormum og
bólusett gegn berklum. Nýburar eru bólusettir gegn berklum á fyrstu
tveimur dögunum eftir fæðingu og fá A-vítamín í dropaformi.
Á meðgöngu er mæld þyngd í hverri skoðun, blóðþrýstingur og
kúlan. Full meðganga var reiknuð frá fyrsta degi síðustu blæðinga
svona: Dagur plús tíu, mánuður mínus þrír, þannig að ef það er 12.
desember 2014 þá lýkur fjörutíu vikna meðgöngu 22. september
2015. Hvern dag komu um hundrað konur í mæðravernd sem biðu,
stundum í átta klukkustundir, úti í röð á stól eftir að komast að.
Ég fékk það hlutverk að mæla kúluna og spurði einu sinni hve
margar vikur konan væri gengin svo ég hefði smá viðmið. Svarið
var að ég ætti að mæla kúluna og segja þeim hve langt ég héldi að
konan væri gengin og síðan voru þær vikur skráðar niður, vegna þess
að fyrsti dagur síðustu blæðinga var ekki þekktur. Eftir að ég áttaði
mig á því að í mæðraverndinni var mældur blóðþrýstingur hjá aðeins
nokkrum konum á dag, þrátt fyrir að oftast væri hann skráður sem
110/70 eða 100/60 í allar mæðraskrár, ákvað ég að mitt hlutverk
yrði að mæla blóðþrýstinginn hjá öllum konunum sem mættu og
vék ekki frá því hlutverki þá daga sem ég vann við meðgöngueftirlit.
Með tímanum varð ég ákveðnari, fékk meira sjálfstraust og ákvað
að ég myndi ekki gera neitt sem ég teldi ekki siðferðislega rétt.
Manni finnst það vera hinn eðlilegasti hlutur en þarna er svo allt
annar heimur. Sumar ljósmæður vildu ekki ná í lækninn til að gefa
konu Trandate þegar ég mældi blóðþrýstinginn háan, en þá stóð ég
fast á mínu. Það var ekki hægt að treysta mörgum og þess vegna
varð ég ekki róleg fyrr en ég sá að konan fékk lyfið í hendurnar frá
lækninum. Ein kona var nefnilega einu sinni send heim þegar hún
átti að fara á rannsóknarstofuna eftir að ég taldi ástæðu til þess. Það
er skrýtið og erfitt að trúa að það sé logið að manni og ekki sé hægt
að treysta fólkinu en þetta var bara svona.
Í þessari byggingu voru 4 rúm. Bæði inni og fyrir utan voru konur á
forstigi fæðingar. Þegar virkt stig fæðigar byrjaði, gengu þær yfir í
fæðingarálmuna.
Inni í sjúkrabílnum.