Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.10.2018, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.10.2018, Blaðsíða 8
VETTVANGUR 8 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 7.10. 2018 RAX Það er ótrúlegt að það séu liðin tíu ár frá hruninu.Ekki kannski af því að manni finnist það hafa gerstí gær, eins og margir segja alltaf um alla svona at- burði. Frekar vegna þess að dagarnir sem fylgdu eru manni í fersku minni. Þetta voru erfiðir tímar og mikil óvissa. Maður fann fyrir mikilli reiði og vanmætti og stundum uppgjöf hjá fólki. Aðrir settu undir sig hausinn og byrjuðu að moka. Svo mokuðum við duglega í nokkur ár og það er í raun ótrúlegt hvað okkur hefur tekist að breyta myndinni mik- ið á ekki lengri tíma. Ég var í stórum hópi fólks þegar Geir H. Haarde flutti ávarp sitt til þjóðarinnar. Fólk gerði sér grein fyrir því að þetta væri alvarlegt mál en það var ekki fyrr en hann kvaddi með: „Guð blessi Ísland“ að það rann upp fyrir manni að við værum í raun í verri málum en við hefðum ímyndað okkur. Ég hef meira að segja stundum velt því fyrir mér hvort hann hafi bara bætt þessu við til að tryggja að allir næðu þessu. Svona eins og kennari sem fær athygli nemenda með því að segja að þetta verði pott- þétt í prófinu. Viðbrögð fólks eru mismunandi. Ástkær eiginkona mín lagði saman tvo og tvo og fékk það út að framundan væru gjaldeyrishöft, gengisfellingar og erfið tíð. Það voru því eðlileg viðbrögð að bruna beint út í BYKO að kaupa dýr- asta straujárnið í búðinni. Ég hef stundum hugsað um þessi viðbrögð hennar og ekki alltaf gengið vel að komast að niðurstöðu. Að baki eru einkum tvær ástæður. 1. Ég held að ég hafi aldrei í okkar búskapartíð séð hana strauja nokkurn skapaðan hlut. 2. Við áttum straujárn sem hafði aldrei verið notað nema hugsanlega þegar tengdó kom í heimsókn og fyrir perlulistaverk dætra okkar. (Konan mín heldur því fram að hún hafi orðið að kaupa nýtt straujárn af því að það hafi lent í einhverju perlulistaverksslysi, en sjá lið 1.) Henni fannst þetta fullkomlega rökrétt ákvörðun og var bara frekar stolt af henni. Eins og henni hefði tekist að bjarga málunum á heimilinu og við þyrftum hreint ekki að hafa neinar áhyggjur þótt þessi fínu myntkörfulán okk- ar væru komin í fáránlegt rugl. Á sama tíma og fólk keypti frystikistur og niðursuðuvörur var hún búin að finna lausnina. Straujárn. Það var meira að segja þannig að þetta merkilega straujárn týndist í nokkur ár. Fannst svo uppi í skáp og gott ef það var ekki enn í pakkanum. Í þessari sögu er örugglega einhver lærdómur um hegðun íslensku þjóðar- innar sem mér hefur því miður ekki enn tekist að reikna út. En nú eru sem sagt komnir tímar þar sem þeir svart- sýnustu eru farnir að tala um að það hljóti að fara að koma annað hrun. Allar fréttir eru magnaðar upp. Ef fjór- ir Norðmenn afpanta helgarferð til Reykjavíkur þá túlka sumir það sem algjört hrun í ferðaþjónustu. Ef fyrirtæki fara á hausinn, sem er sennilega ósköp venjulegt, þá eru þeir ekki lengi að teikna upp í huganum að hér sé allt að fara til helvítis og best sé að drífa sig út í búð að kaupa niðursuðuvörur og þurr- mjólk. Sjálfur hef ég lengi tileinkað mér þann lífsstíl að hafa ekki áhyggjur. Ég hef nefnilega komist að því að þær hjálpa manni ekkert sérlega mikið í daglegu lífi. Stundum ætti ég kannski að hafa áhyggjur en þá sel ég sjálfum mér þá speki að hlutir hafi almennt tilhneigingu til að reddast. En kannski ættu menn að hafa það í huga, að ef þeir sjá konuna mína úti í búð að kaupa þriðja straujárnið – þá er sennilega passlega kominn tími til að hafa alvöru- áhyggjur. Þegar konan mín keypti straujárnið ’Í þessari sögu er örugglegaeinhver lærdómur um hegð-un íslensku þjóðarinnar semmér hefur því miður ekki enn tekist að reikna út. Á meðan ég man Logi Bergmann Eiðsson logi@mbl.is

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.