Morgunblaðið - 30.11.2018, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 30.11.2018, Blaðsíða 23
23 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 30. NÓVEMBER 2018 Fyrir ári hófu Framsóknar- flokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin – grænt framboð stjórnarsamstarf. Formlegar stjórnarmyndunarviðræður höfðu staðið yfir í rúmar tvær vikur í kjöl- far óvæntra kosninga þegar stjórn- arsáttmáli var undirritaður í Lista- safni Íslands. Flokkarnir þrír höfðu um margt að ræða enda fulltrúar ólíkra enda og miðju á hinu pólitíska litrófi. Frá upphafi var stefnan tekin á að flýta sér hægt og vanda til verka, ræða mikilvæg mál og stefn- ur í þaula og leita samráðs og sér- fræðiþekkingar. Það er nefnilega svo að gott sam- starf og samráð tekur tíma. En er ekki of flókið að mynda slíka stjórn, þar sem innanborðs eru flokkar sem eru ekki náttúrulegir bandamenn í stjórnmálum? – fengum við oft að heyra. Jú, það var flókið – en flókið þarf ekki endilega að vera slæmt. Í öllum málum þarf að gæta vel að ólíkum sjónarhornum og samráð er lykilatriði. Fyrir vikið eru mál unnin í meiri pólitískri sátt og því vonandi þannig úr garði gerð að þau geti staðist tímans tönn – og sviptingar í pólitík. Íslenskt efnahagslíf hefur náð undraverðum bata á þeim tíu árum sem liðin eru frá hruni. Við höfum búið við samfelldan hagvöxt og batn- andi kaupmátt og lífskjör. Ytri að- stæður hafa verið okkur hagfelldar. Vel tókst að greiða úr eftirmálum falls bankanna og í kjölfarið hafa skuldir ríkissjóðs verið lækkaðar markvisst og búið í haginn fyrir framtíðina. Eitt af þeim verkefnum sem þessi ríkisstjórn einsetti sér að ráðast í var að skila hagsældinni sem hér hefur ríkt til alls samfélags- ins og gæta þess að komandi kyn- slóðir njóti hennar líka. Það hefur verið gert með því að ráðast í upp- byggingu innviða. Þá verður komið á fót Þjóðarsjóði sem er ætlað að draga úr áhrifum meiriháttar efna- hagslegra áfalla. Við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur á þessu fyrsta starfsári. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tvenn fjárlög og aukið framlög til samfélagslegra verkefna og inn- viða verulega, eða samtals um 90 milljarða króna. Við höfum lagt fram frumvarp til að lækka trygg- ingagjald, nýtt dómstig hefur tekið til starfa og hagsmunagæsla vegna EES-samstarfsins verið styrkt. Mikilvæg skref hafa verið tekin til að innleiða stafræna stjórnsýslu til að auka aðgengi og bæta þjónustu við almenning og nýta almannafé betur. Metnaðarfull aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hefur verið kynnt og unnið er að fyrstu skrefunum; orku- skiptum í samgöngum og aukinni kolefnisbindingu. Skóflustunga hefur verið tekin að meðferðarkjarna nýs Landspítala og áhersla lögð á að styrkja heilsu- gæslur um allt land. Fyrstu skref hafa verið tekin í að draga úr kostn- aði fólks við að sækja sér lækn- isþjónustu og þeirri vinnu verður haldið áfram út kjörtímabilið. Fram- lög til menntamála hafa stóraukist og nú stendur yfir vinna við gerð menntastefnu. Istanbúl-sáttmálinn um forvarnir og baráttu gegn of- beldi gegn konum var fullgiltur, að- gerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota fullfjármögnuð og stýrihópur um heildstæðar úrbætur gegn kynferðislegu ofbeldi tók til starfa. Stuðningur við nýsköpun og rann- sóknir hefur enn verið efldur, nú síð- ast með tvöföldun hámarksupphæða endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarverkefna fyrirtækja. Sömu- leiðis er unnið að nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem er lykilatriði fyrir framtíð samfélagsins og fjölbreytt- ari stoðir efnahagslífsins. Unnið er að endurskoðun á starfsumhverfi vísinda og rannsókna og von á frum- varpi um heilindi í vísindarann- sóknum. Sérstök áhersla hefur verið lögð á samráð við aðila vinnumarkaðarins um ýmis málefni. Í skattabreyting- um hefur verið lögð aukin áhersla á jöfnuð og í þeim fjárlögum sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi er lagt til að barnabætur hækki um 16% á milli ára en þar með fjölgar þeim um rúmlega 2.200 sem eiga rétt á barna- bótum. Löggæsla hefur verið styrkt og í fjármálaáætlun til næstu fimm ára er gert ráð fyrir endurnýjun þyrlukosts Landhelgisgæslunnar. Sérstakt átak í vegamálum er hafið og framlög til nýframkvæmda og viðhalds hafa verið aukin til að mæta uppsafnaðri þörf í vegakerfinu. Á árinu hefur áhersla verið lögð á málefni barna, umhverfi barna- verndar verður endurskoðað og á næsta ári verður í fyrsta sinn haldið Barnaþing með þátttöku barna hvaðanæva af landinu. Máltækni- áætlun er nú loksins fjármögnuð enda eitt mikilvægasta tækið til að styðja við íslenska tungu á tækniöld. Listinn er miklu lengri og hér er stiklað á stóru. Það er svo að ein helsta gagnrýni sem höfð hefur verið uppi á þessa ríkisstjórn hefur ekki snúist um verk hennar heldur að hún hafi verið mynduð og vissulega er það svo að slíkt stjórnarmynstur er óvenjulegt. En um leið er það svo að það að vinna með þeim sem eru manni ósammála gerir mann stærri. Þetta er vert að hafa í huga þegar sjá má öfga- og lýðskrumsflokka og stjórn- málamenn sækja í sig veðrið víða um heim. Markmið þeirra er gjarnan að sundra og grafa undan þeim lýðræð- islegu gildum sem hafa tryggt stór- stígar framfarir í mannréttinda- málum, hagsæld og öryggi. Sjaldan hefur það verið mikilvægara að sýna fram á að það er hægt að taka tillit til ólíkra sjónarmiða, miðla málum og vinna samhent að sameiginlegum markmiðum, þvert á flokka, sam- félaginu öllu til heilla. Eftir Katrínu Jakobsdóttur, Bjarna Benediktsson og Sigurð Inga Jóhannsson » Sjaldan hefur það verið mikilvægara að sýna fram á að það er hægt að taka tillit til ólíkra sjónarmiða, miðla málum og vinna sam- hent að sameiginlegum markmiðum, þvert á flokka, samfélaginu öllu til heilla. Katrín er forsætisráðherra. Bjarni er fjármála- og efnahagsráðherra. Sig- urður Ingi er samgöngu- og sveitar- stjórnarráðherra. Stjórnarsamstarf í eitt ár Morgunblaðið/Eggert Samstarf „Gott samstarf og samráð tekur tíma... Frá upphafi var stefnan tekin á að flýta sér hægt og vanda til verka, ræða mikilvæg mál og stefnur í þaula og leita samráðs og sérfræðiþekkingar.“ Fullveldisumræður á árinu 2018, aldar- afmælisári fullveldis- ins, eru líflegar. Þær tóku óvænta stefnu vegna ágreinings um svonefndan 3. orku- pakka ESB. Árið 2014 samþykktu þing- nefndir að hann félli að EES-samningnum og bryti ekki gegn full- veldinu. Þess er beðið að hann verði innleiddur hér á landi. Fullveldisdeilur vegna EES- aðildarinnar hófust áður en þingið samþykkti hana. Þá töldu sumir lögfræðingar EES-samninginn brjóta gegn stjórnarskránni. Ríkis- stjórn Davíðs Oddssonar leitaði álits fjögurra lögfræðinga. Sam- eiginlega færðu þeir rök fyrir því árið 1992 að samningurinn fæli „ekki í sér verulegt valdframsal sem talið verði íþyngjandi í ríkum mæli“. Stjórnarskráin rúmaði aðild að honum. Af 100 ára fullveldissögu hefur Ísland í 25 ár verið aðili að EES-samningnum. Lífskjör hafa aldrei verið betri en á þessum tíma. Vegna 100 ára fullveldisafmælis- ins gaf Sögufélag á dögunum út rit- gerðasafnið Frjálst og fullvalda ríki, undir ritstjórn Guðmundar Jónssonar prófessors. Þar rita 13 höfundar 10 ritgerðir um efnið. Skúli Magnússon héraðsdómari skrifar um fullveldishugtakið í ís- lenskum rétti frá 1918 til samtím- ans. Hann bendir réttilega á að við- mið „fjórmenninganefndarinnar“ séu „matskennd, einkum spurn- ingin um hvort framsal valds telst verulegt eða íþyngjandi“. Álit fræðimanna Í áranna rás hafa vaknað spurningar um stöðu einstakra EES- ákvarðana gagnvart stjórnarskránni. Lagaprófessorar hafa þess vegna ritað álits- gerðir og orðið sam- mála um meginsjónar- mið sem hafa beri í huga við mat á þessu. Skúli vekur athygli á ólíkum skoðunum um hvort til sé orðin stjórnskipunarvenja um framsal ríkisvalds sem megi telja hliðsetta skráðri reglu stjórnarskrárinnar eða hvort mótast hafi venjuhelguð regla um hvernig skýra eigi stjórnar- skrána þar sem reyni á samspil margra þátta. Skúli Magnússon segir: „Þau atriði sem íslenskir fræði- menn hafa vísað til eiga sér raunar öll samsvörun í texta erlendra stjórnarskrárákvæða, þar sem fram- sal valds er heimilað berum orðum, eða þá fræðilegri umfjöllun um túlk- un slíkra ákvæða. Að öllu verulegu leyti eru því, að íslenskum rétti, lögð til grundvallar sömu efnislegu við- mið við mat á lögmæti framsals heimilda og í ríkjum þar sem slíkt framsal er heimilað berum orðum, sbr. t.d. 20. gr. dönsku stjórnar- skrárinnar og 115. gr. þeirrar norsku. Andstætt þessum ákvæðum gera íslensk stjórnlög hins vegar ekki kröfu um vandaðri málsmeðferð við töku ákvörðunar um framsal valdheimilda, t.d. með áskilnaði um samþykki aukins meirihluta Alþingis eða þjóðaratkvæðagreiðslu við viss- ar aðstæður. Af þessum sökum hefur ítrekað verið bent á þörfina á því að sett verði sérstakt stjórnarskrár- ákvæði um framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu.“ Tvær stoðir Verði ekki tekið af skarið í stjórn- arskránni um valdframsal vegna al- þjóðasamstarfs leita þingmenn áfram í smiðju til einstakra lögfræð- inga við mat um þetta efni. Þó má ætla þörfin fyrir slíka ráðgjöf frá sérfræðingum utan alþingis og stjórnarráðsins minnki vegna fjölg- unar fordæma. Við skilgreiningu á fullveldi ber að hafa í huga að alþjóðastofnun geti ekki bundið ríki nema það eigi aðild að henni. Þess vegna skiptir tveggja stoða kerfið svonefnda svo miklu máli í EES-samstarfinu. Þar kemur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í stað framkvæmdastjórnar ESB og EFTA-dómstóllinn í stað ESB- dómstólsins. EFTA/EES-ríkin (Ís- land, Noregur og Liechtenstein) lúta þannig eigin eftirlitsstofnun og dóm- stóli. Innan ESB hefur vald fram- kvæmdastjórnarinnar markvisst verið framselt til undirstofnana sem eru sérhæfðar til eftirlits með fram- kvæmd settra laga á einstökum svið- um. Þetta er gert í nafni valddreif- ingar og til að auðvelda sýn yfir einstaka málaflokka og þróun þeirra. Íslensk stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á að þessi þróun innan ESB verði ekki til að raska tveggja stoða kerfinu. Nýtur sú stefna stuðnings ESB og er henni til dæmis fylgt vegna 3. orkupakkans. Skýrt nefndarálit Í áliti stjórnskipunar- og eftirlits- nefndar alþingis frá 27. nóvember 2014 er farið í saumana á stjórnlaga- þætti 3. orkupakkans: Í fyrsta lagi verður mynduð stjórn orkueftirlitsyfirvalda í EFTA- ríkjunum sem tekur ákvarðanir sem binda eftirlitsyfirvöld í þeim ríkjum. „Með þessum hætti eru bindandi ákvarðanir í höndum stofnunar sem EFTA-ríkin eiga aðild að,“ segir þingnefndin. Í öðru lagi taka EFTA-ríkin fullan þátt í stjórn eftirlitsaðila ESB (ACER) með sömu réttindum og skyldum og ESB-ríki en án at- kvæðisréttar. Í þriðja lagi fá EFTA-ríkin áheyrnaraðild að stjórn ACER. Í öllum tilvikum er um eftirlits- hlutverk að ræða en ekki annars konar inngrip. Undir lok álitsins segir nefndin: „Nefndin bendir á að í þessari tillögu er byggt á tveggja stoða kerfi EES- samningsins og að í þeirri útfærslu sem hér er rakin sé verið að leggja til að byggt verði upp kerfi sem feli í sér framsal sem sé vel afmarkað, á takmörkuðu sviði og fyrirsjáanlega ekki verulega íþyngjandi fyrir ís- lenska aðila.“ Þarna er orðalagið sama og hjá „fjórmenninganefnd- inni“ árið 1992. Samfella er í túlkun og afstöðu þingmanna. Fyrir aldarfjórðungi deildu þing- menn hins vegar um hvort þessi skil- greining dygði til varnar fullveldinu. Nú er samstaða um hana á þingi enda sýnir reynslan af EES- aðildinni að hagur þjóðarinnar hefur aldrei verið eins góður og á gildis- tíma samningsins. Þegar sló í bak- seglin viðurkenndu bæði ESA og EFTA-dómstóllinn að heimilt hefði verið að fara á svig við EES-reglur með setningu neyðarlaganna. Í því efni er verðugt að bera saman stöðu Íslands annars vegar og evruríkisins Grikklands hins vegar. Fullveldi fyrir borgarana Á aldarfjórðungi EES-aðildar- innar hefur atvinnu- og efnahagslíf ekki aðeins gjörbreyst til batnaðar heldur hafa réttindi íslenskra ríkis- borgara tekið stakkaskiptum. Í fyrr- nefndu ritgerðasafni segir Davíð Þór Björgvinsson landsréttardómari: „Frá sjónarhóli borgaranna, sem byggja rétt sinn og jafnvel afkomu á að EES-reglurnar virki, skiptir mestu að þeir fái notið réttinda sinna samkvæmt EES-reglum og mega þá vangaveltur lögfræðinga, stjórn- málafræðinga og sagnfræðinga um fullveldi og merkingu þess einu gilda. Krafan um fullveldi íslenska ríkisins sé gerð til að standa vörð um að borgarar þess fái notið sinna rétt- inda. Ef ekki er unnt að finna því stoð innan óbreyttrar stjórnarskrár blasir við að breyta þarf þeirri stjórnarskrá þannig að íslenska rík- inu sé mögulegt að taka fullan þátt í EES-samstarfinu og tryggja með því réttindi eigin borgara.“ Fram hjá þessu kjarnaatriði verð- ur ekki gengið þegar rætt er um full- veldið. Engum dettur líklega í hug brot gegn því þegar rætt er um rétt Íslendinga til að búa á Spáni eða um evrópska styrki til nemendaskipta, rannsókna, vísinda og menningar- starfsemi. Allt er þetta þó hluti af heild sem fullveldisrétturinn gerir okkur kleift að njóta. Þennan rétt ber að verja enn um 100 ár. Eftir Björn Bjarnason » Af 100 ára fullveldis- sögu hefur Ísland í 25 ár verið aðili að EES- samningnum. Lífskjör hafa aldrei verið betri en á þessum tíma. Björn Bjarnason Höfundur er fv. ráðherra. Hagsældarskeið fullveldisaldar með EES-aðild

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.