Morgunblaðið - 30.11.2018, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 30.11.2018, Blaðsíða 38
38 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 30. NÓVEMBER 2018 Hér segir frá því er Guðmundur er 12 ára föðurlaus sonur fátækrar ekkju á Heggsstöðum í Borgarfirði. Á þessum árum var stór tarfur á Hvítárvöllum (kallaðir Vellir í dag- legu tali). Hann var ávallt hafður laus í kúnum og því óvinsæll, enda mann- ýgur. Hann gekk undir nafninu: Spánski boli. Eitt kvöld, snemma sumars, þegar ég var tólf ára, bað mamma mig að sækja kýrnar eftir venju. Ég vissi að þær voru með Vallakúnum vestur á Þrætutungu. Ég tók því brúna meri, sem mamma átti, og var hún bæði fljót og viljug. Svo reið ég af stað. Þegar ég kom að kúnum, gekk greiðlega að skilja þær, og hélt ég heim með mínar kýr. Spánski boli var að venju hjá þeim. Hann horfði á mig, murraði eitthvað og froðan vall út úr honum. En þetta kom svo oft fyrir áð- ur, að svona lá á bola og fannst mér ekkert athugavert við það. Hann stóð líka alltaf á sama stað og gaf mér bara auga. Ekki var ég kominn nema stutt á leið, þegar ég sé að boli tekur undir sig stökk og stefnir á eftir mér. Lét þá illa í honum. Ég herði á kúnum og held, að boli sé fremur að elta þær en mig. Brátt komst ég að því, að svo var ekki. Hann leit ekki við þeim, en stefndi beint á mig. Lét ég þá Brúnku fara það sem hún komst, og dró hún ekki af. Ég fór að verða hálfhræddur um mig, en þó hálfu hræddari um móður mína og litlu systkini mín, ef boli kæmist heim. Varð ég því að finna einhver ráð, en lítill var umhugs- unartíminn. Ég stefndi því beint að fjárhúsunum heima, en sum þeirra voru dálítið frá bænum. Þeim verð ég ögn að lýsa. Yzt á túninu stóðu tvístæð hús, sem sáust ekki frá bænum. Þangað stefndi ég. Við þau var heytóft og rúmlega seilingarháir veggir úr torfi og grjóti umhverfis hana. Mátti ganga úr húsjötu inn í tóftina. Í hús- inu voru mæniásar og stoðir undir, sem stóðu á jötugarðanum. Breiður veggur var þar, sem tóftin og húsið kom saman. Upp á þann vegg var hlaðið hellugrjóti, sem haft var ofan á heyið á haustin. Og nú var ætlun mín að komast í þetta fjárhús. Fyrst í stað dró heldur sundur með mér og bola. En svo fór hann að draga ískyggilega á Brúnku. Hún mæddist fyrr, enda farin að eldast. Þegar ég kom upp að svokölluðu Húsabarði, en það var dálítil melhæð, sem húsin stóðu á, dró fyrir alvöru saman. Herti ég þá á merinni, en hún gat víst lítið meira. Stóð það alveg heima, þegar ég kom að fjárhúsdyr- unum, þá rekur boli hausinn undir Brúnku svo hastarlega og með svo miklu afli, að hún skellur flöt. Féll hún frá dyrunum, en ég að þeim. Kom ég niður á hendur og fætur og var þá ekki lengi að skjótast inn í hús- in. Ekki vannst mér þó tími til að láta aftur hurðina, því hausinn á bola var kominn í fjárhúsdyrnar. Hentist ég þá eins og örskot upp í garða og inn í heytóftina. Og boli kom þrumandi inn eina fjárhúskróna á eftir mér, en nemur staðar við tóftardyrnar. Ég klifra upp eitt tóftarhornið það hátt, að ég þarf ekki annað en kasta mér upp á vegginn. Þar fer ég að herma eftir bola. Ræðst hann þá í dyrnar öskuvondur og ryðst inn í tóftina. En dyrnar voru í þrengsta lagi. Það mun boli hafa séð og því hikað við þær. Þetta var það, sem ég ætlaði honum. Nú hentist ég upp á vegginn og að grjóthrúgunni, sem var öðrum megin við tóftardyrnar, gríp vænar hellur og læt dynja á bola af öllum lífs og sálar kröftum. Og nú var ekki dregið af orkunni, sem til var. Eftir stutta stund var boli orðinn blóðugur á baki og haus, því rend- urnar á hellunum snertu hann fyrst, eða svo var ætlun mín. Virtist hann þá verða óður og trylltur af sársauka. Hann leitaði líka alltaf á að stökkva upp úr tóftinni, en hvort tveggja var, að hún var djúp, og svo fékk hann þá líka alltaf væna hellu í hausinn eða sem næst honum, svo hann hrökk til baka. Ég var víst orðinn jafntrylltur af vígamóði og boli, þegar hann réðist á Brúnku. Ég vissi varla hvað ég gerði. Síðast hentist boli í háalofti fram í tóftardyrnar og ryðst út. Fannst mér þá veggurinn skjálfa og allt húsið, enda tók hann með sér tvær mæni- stoðir í fátinu. Og svo var kastið mik- ið á bola, þegar út kom, að hann fór ekki á götuna, sem lá frá húsinu, heldur stefndi hann beint niður á Húsabarðið og í fúamýri, sem þar var fyrir neðan. Í heimsku minni og trylltum hefndarhug tek ég staur, sem lá í húsinu, og hleyp á eftir bola, sem hélt beint strik yfir mýrina. Ekki leið þó á löngu, þar til ég nálgaðist hann með reiddan staurinn, því boli fór að sökkva illa í. Og síðast sökk hann upp að kvið í mýrinni. Þá var markinu náð. Sveiflaði ég nú staurnum af öll- um mætti og lét ganga á bola. Og þar kom, að hann settist að í feni eftir að hafa brotizt mikið um og blásið þung- an. Þótti mér nú nóg komið og henti staurnum. Kýrnar voru komnar heim undir bæ. Ég rak þær á bólið og minntist ekkert á bola við mömmu. Eftir nokkra stund laumast ég svo út að húsunum til að gá að bola. Sé ég þá, að hann er enn í sama stað. Þá loks rann af mér vígahugurinn, því ég hélt, að nú væri boli dauður. Ekki fór ég samt að athuga það. Um þessa hlið málsins hafði ég ekkert hugsað. Svo lallaði ég heim heldur daufur í dálkinn. Ég var lystarlítill um kvöld- ið, en háttaði þó á tilsettum tíma. Þegar allir voru sofnaðir, fór ég á fætur til að gá að bola. Var hann þá horfinn. Þá lofaði ég Guð og létti mik- ið fyrir brjósti. Ég réð mér varla fyrir gleði og fór í hendingskasti heim. Víkur nú sögunni að Völlum. Um nóttina kom boli heim og þótti illa á sig kominn. Andrés hélt spurnum fyrir, hver valdur væri að þessum áverka á honum, en enginn vissi það. Daginn áður benti allt til þess, að boli hefði verið með Heggsstaðakúnum, en ótrúlegt þótti, að hann hefði fengið þessa áverka þar. Allir vissu, að þar voru ekki aðrir til heimilis en móðir mín með yngstu börnin. Tveim dögum síðar kom ég aftur að Völlum. Hitti Andrés mig strax. Hann spurði mig hvort ég hefði nokkra hugmynd um, hver farið hefði svona með bola. Ég varð víst heldur niðurlútur fyrst. En svo herti ég mig upp og sagði Andrési alla söguna. Hann hlustaði á hljóður, en segir svo: „Þessu trúi ég ekki. Það er ómögu- legt, að annar eins andsk … væskill og þú getir verið valdur að þessu.“ „Þú ræður hvort þú trúir því, en ummerkin eru greinileg, ef þú vilt sjá þau.“ „Ja-há. Þau vil ég sjá. Mér er mikil forvitni á að sjá bardagasvæði, þar sem svona ólíkir aðilar hafa háð leik.“ Við Andrés urðum svo samferða upp að fjárhúsunum heima. Þar at- hugaði hann vandlega öll verks- ummerki, því allt var þar eins og þeg- ar við boli skildum við það. Það leyndi sér ekki sparkið eftir hann í heytóft- inni, allar hellurnar og lausu stoð- irnar í húsunum. Þegar Andrés hafði séð þetta, segir hann: „Varst þú ekkert hræddur?“ „Ekki eftir að ég komst upp á vegginn.“ „Datt þér ekki í hug að hlaupa heim, þegar boli var kominn inn í tóftina?“ „Nei, það var óvíst að ég hefði komizt á undan bola og annað verra. Móðir mín eða systkini gátu verið úti og orðið fyrir honum.“ „Þetta er alveg rétt og drengileg hugsun. Þú ert líklega sonur Einars. Ég þekkti hann orðið. En nú á ég eft- ir að sjá fenið, þar sem þú skildir við bola.“ Við löbbuðum svo niður að feninu. Þar sást glöggt hvernig boli hafði brotizt um. Og þar lá staurinn, sem ég barði hann með. „Og þú hljópst hingað á eftir honum?“ „Já.“ „Varst þú ekkert hræddur um að hann réðist á þig?“ „Ég hugsaði ekkert út í það.“ „Ofdirfska – drengur minn,“ mælti Andrés. Svo kvaddi hann mig. Boli gekk með kúnum eins og áður, þar til hann var felldur um haustið. En eftir þetta gerði hann engum mein. Drengur og boli trylltir í vígamóð Theódór Gunnlaugsson á Bjarmalandi skráði ævisögu refaskyttunnar Guðmundar Einarssonar á Brekku á Ingjaldssandi, sem var goðsögn í lifanda lífi. Bókin, Nú brosir nóttin, kom út árið 1960 og var endurútgefin í haust af Bókaútgáfunni Sæmundi á Selfossi með ítarefni um söguhetjuna. Í Ásbyrgi Theodór Gunnlaugsson bókarhöfundur lengst til hægri, þá Guðmundur Einarsson á Brekku á Ingjalds- sandi og lengst til vinstri er þriðja refaskyttan, Sigvaldi E. Kristjánsson í Hafrafellstungu. Skotviss Þekktasta ljósmyndin af Guðmundi Einarssyni refaskyttu. Ljós- myndin er úr eigu fjölskyldu Guðmundar en myndatökumaður er óþekktur. Ljósmynd/Héraðsskjalasafn Þingeyinga á Húsavík) Er bíllinn tilbúinn fyrir jólafríið? TUDOR er hannaður til þess að þola það álag sem kaldar nætur skapa. Forðastu óvæntar uppákomur.              T    !"#    Veldu öruggt start me ð TUDOR

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.