Morgunblaðið - 04.12.2018, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 04.12.2018, Blaðsíða 19
19 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 4. DESEMBER 2018 Fjarðarflug Þessi spræki grámáfur varð á vegi ljósmyndara í Hafnarfirði á dögunum. Eggert Hún mamma var alltaf allt í öllu, ekki síst á aðventunni og um jólin. Hún skreytti, bakaði og eldaði, saumaði og heklaði. Kom fyrir dúkum og kertum. Sparistellið var að sjálfsögðu dregið fram og silfrið fægt. Við mamma bökuðum saman smákökur og piparkökur sem hún leyfði mér að mála og skreyta. Svo leyfði hún mér að föndra mitt eigið jólaskraut sem átti það náttúrlega til að fara allavega. Hún saumaði á mig jóla- sveinabúninga sem ég fór varla úr. Alltaf svo natin og þolinmóð við mig, þessi elska. Blessuð sé minn- ing hennar. Fyrir mér var hún mamma eigin- lega jólin. – Ásamt pabba að sjálf- sögðu sem ég var alla tíð mjög tengdur og naut þess að fara með í útréttingar, sýsla og stússast. Þegar sest var til borðs var jóla- guðspjallið ævinlega lesið, áður en pabbi bað borðbæn og þakkaði Guði fyrir að senda okkur son sinn og bað þess að í hjarta okkar hann mætti koma inn. Man ég að mér fannst bænirnar framan af ævinni svona helst til langar því spenning- urinn fyrir kvöldinu fór vaxandi og því óþreyjan orðin mikil. Önnur ofurkona Tvítugur kvæntist ég síðan sólinni minni sem aldrei dregur fyrir. Komum því ung með blandaðar jóla- hefðir til að leggja í púkkið sem voru þó alls ekki svo ólíkar. Í áratugi söng hún við aftansöng á aðfanga- dagskvöld, oftar en ekki jafnvel einsöng. Það truflaði þó ekki að hún væri klár með stór- fenglegt hátíðarborð á tilsettum tíma. Með þrjá unga drengi, for- eldra mína, móðursystur og jafnvel fleiri frænkur í mat svo allir gátu notið kvöldsins hamingjusamlega afslappaðir og ríkulega mettir. Við eigum þrjá syni sem nú eru uppkomnir en komu jólunum okkar í algjörlega nýjan og dásamlegan búning og farveg, fljótlega vatns- greiddir í svörtum lakkskóm og jafnvel með skyrtuna upp úr áður en kvöldverði lauk. Eftirvæntingin í þá daga var gjarnan mikil eins og jafnan. Og gleðin, þótt vissulega hafi verið álag á heimilinu. Alzheimer Að því kom að við fluttum í sama hús og foreldrar mínir, sem kom sér vel sérstaklega hin síðari ár eft- ir að mamma fékk heilablóðfall ofan í hinn illskeytta sjúkdóm, alz- heimer. Það var mikið áfall fyrir okkur þegar hún tók upp á því að kveikja á öllum aðventukertunum fyrsta sunnudag í aðventu. Pabbi var al- veg eyðilagður. Snemma aðfanga- dags hringdi hann svo niður til okkar alveg miður sín og sagði að hún væri búin að slíta allt skrautið af nýskreyttu jólatrénu. Um kvöld- ið hafði hún slysast til að taka inn svefntöflu áður en hún kom til okk- ar og sofnaði svo bara ofan í for- réttinn, þennan forláta jólagraut. Var gjörsamlega skræld allri virð- ingu og reisn. Það var svo óendan- lega sárt og það á sjálfum jólunum. Af hverju að rifja þetta upp? Og af hverju að vera svo að rifja þetta upp? Af því að svona eru ein- faldlega jólin og svona hafa þau alltaf verið. Kynslóðir koma og kynslóðir fara og þau tengja okkur í gleði og sorg. Og nú eru það barnabörnin sem allt snýst um. Þau veita okkur ómælda gleði og hamingju. Við gætum ekki hugsað okkur lífið án þeirra. Þeirra sem vita bara ekkert um foreldra okkar hjóna. En allt snýst í dag um að gera jólin að til- hlökkunarefni, eftirsóknarverð, spennandi og heilög. Minningarnar lifa En minningarnar lifa, tengja for- tíð við nútíð og framtíð á svo undraverðan og undursamlegan hátt, sem þú sást aldrei fyrir en mátt upplifa, njóta og takast á við hverju sinni, ár eftir ár. Jólin taka nefnilega af okkur síbreytilegar myndir. Þau geyma minningar og myndir sem gera okkur að mann- eskjum. Þau fá okkur til að finna til og elska út af lífinu. Lífinu sem er frelsari allra kynslóða, Jesús Kristur, Guðs sonur, en einnig bróðir okkar allra, samherji og vin- ur sem fann til og þjáðist en var eftir allt saman lífið sjálft. Lífið sjálft sem sameinar okkur í tímans rás og um eilífð. Þannig er nefnilega jólasagan. Hún spannar allt litróf mannlegs lífs. Gleði og hamingju, von og von- brigði, raunir og ótta. Ótta við dauðann. Já, og svo líka bara við lífið. Lífið sjálft sem við munum aldrei ná að höndla í eigin mætti. Við kunnum að sjá auða stóla sem áður voru setnir. Við fyllumst söknuði á heilagri jólanótt sem fær- ir okkur samt ólýsanlega kyrrð og frið, þakklæti og nýtt upphaf. Vegna fæðingar barnsins þar sem reynsla aldanna kemur saman, til- finningar og tár, upplifanir, nýir tímar og þakklæti. Æfing í samskiptum Ævigangan er ekkert annað en æfing í mannlegum samskiptum. Þá ekki síst aðventan og jólin. Því þá speglum við okkur svo skýrt og skilmerkilega í sjálfum okkur og náunganum. Aðventan og jólin taka nefnilega af okkur myndir sem varðveitast í albúmi hugans og mást ekki svo auðveldlega í tímans ranni. Myndir sem verða að minn- ingum sem fylgja okkur ævilangt. Góður Guð varðveiti okkur minn- ingarnar, í Jesú nafni. Í nafni jóla- barnsins sem við fáum að gjöf, ár eftir ár og daglega, og fær okkur til þess að komast af. Jólabarnsins sem fylgir okkur ekki aðeins ævina á enda heldur um alla eilífð. Gleðilega, innihalds- og ham- ingjuríka aðventu, kæru vinir, og jól sem aldrei munu enda. Með kærleiks- og friðarkveðju. Lifi lífið! Eftir Sigurbjörn Þorkelsson » Sofnaði hún svo bara ofan í forréttinn, gjörsamlega skræld allri virðingu og reisn. Það var svo óendanlega sárt og það á sjálfum jólunum. Sigurbjörn Þorkelsson Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins. Jólin eru tímalína Í umræðum um lofts- lagsmálin vill bregða við að talað sé um aukna los- un á Íslandi án þess að það sé sett í hnattrænt samhengi. En þá er hætta á að jarðsambandið tap- ist. Það vill gleymast hjá þjóð sem gengur að endurnýjanlegri orku sem vísri, að veruleikinn er annar á heimsvísu. Rekja má 40% af losun gróður- húsalofttegunda í heiminum til beislunar raforku og er sú losun fyrst og fremst til komin vegna brennslu jarðefnaelds- neytis, orkugjafa á borð við kol, olíu og gas. Til þess að draga úr losun hafa þjóðir heims lagt áherslu á að beisla endurnýj- anlega orku, vatnsafl, jarðvarma, vind og sólarorku. Það er sem sé ekki sama hvaðan orkan kemur. Íslendingar geta því verið stoltir af framlagi sínu í loftslagsmálum. Á undan- förnum árum hefur byggst upp á Íslandi skilvirkt raforkukerfi sem er nánast 100% með endurnýjanlegri orku. Sam- hliða því hefur byggst upp öflugur orku- iðnaður, þar sem kolefnisfótsporið er með því lægsta sem þekkist á heimsvísu. Til marks um það má nefna að álver á Íslandi hafa verið í fararbroddi í að draga úr losun með hugviti, tækniþróun og agaðri kerrekstri og hefur losun á hvert framleitt tonn minnkað um 75% frá árinu 1990. Stöðugt er unnið að því að draga enn frekar úr losun og nær það til allra þátta rekstursins. Í álframleiðslu er mesta losunin á heimsvísu vegna orkuvera sem brenna jarðefnaeldsneyti. Mestur vöxtur hefur verið í álframleiðslu í Kína á undan- förnum áratug og er nú svo komið að yfir helmingur alls áls í heiminum er fram- leiddur þar. Það er varhugavert þegar litið er til þess, að orkan sem nýtt er til álframleiðslunnar í Kína er að langmestu leyti frá kolaorkuverum. Ál sem fram- leitt er á Íslandi er með um 10 sinnum lægra kolefnisfótspor en það sem fram- leitt er með kolaorku í Kína. Álframleiðsla hefur einnig byggst upp í Mið-Austur- löndum á síðustu árum, en þar er að mestu notuð gas- orka. Fyrir vikið losar ál- framleiðsla þar um sjöfalt meira en álframleiðsla á Ís- landi. Þetta skiptir máli í stóra samhenginu. Það er til lítils að draga úr losun á einum stað, ef það þýðir að losunin verður margfalt meiri á öðr- um. Þetta er eina og sama plánetan. Loftslagsvandinn er íslenskur í þeim skilningi, að við deilum vandanum með öðrum þjóðum, en hann er umfram allt hnattrænn. Notkun áls fylgir mikill ábati í lofts- lagsmálum, þar sem það er léttur og sterkur málmur. Til marks um það má nefna að stöðugt meira ál er notað í bíla- framleiðslu til að létta bílaflotann og draga þar með úr losun sem fylgir brennslu eldsneytis. Þá er hátt hlutfall áls í rafbílum á borð við Teslu, þannig komast þeir lengra á hleðslunni. Ál ein- angrar vel og dregur þannig úr orku- notkun bygginga og lengir endingartíma matvæla. Þá má endurvinna það aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum gæðum. Eftir stendur að það er losun frá ál- framleiðslu og hjá því verður ekki kom- ist, þrátt fyrir bestu fáanlegu tækni. En það hefur náðst markverður árangur í að draga úr þeirri losun og þegar heildar- myndin er skoðuð, þá er lágt kolefnis- fótspor álframleiðslu á Íslandi mikilvægt framlag í loftslagsmálum á heimsvísu. Er loftslagsvandinn staðbundinn eða hnattrænn? Eftir Pétur Blöndal » Ál sem framleitt er á Íslandi er með um 10 sinnum lægra kolefnis- fótspor en það sem framleitt er með kolaorku í Kína. Pétur Blöndal Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda. pebl@samal.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.