Morgunblaðið - 04.12.2018, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 04.12.2018, Blaðsíða 23
MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 4. DESEMBER 2018 ✝ BenediktGabríel Valgarður Gunn- arsson, listmálari og fyrrum dósent í myndlist við KHÍ, fæddist 14. júlí 1929 á Suðureyri við Súgandafjörð. Hann lést á líknar- deild Landspítalans í Kópavogi 22. nóv- ember 2018. Foreldrar Benedikts voru Gunnar Halldórsson verka- maður, f. 1898, d. 1964, og Sig- rún Benediktsdóttir húsmóðir, f. 1891, d. 1982. Systkini Benedikts eru Hall- dór Ágúst, húsvörður, f. 1921, d. 1997; Jóhanna, húsmóðir, f. 1922; Elí, málarameistari og listmálari, f. 1923, d. 1997; Steinþór Marinó, málarameistari og listmálari, f. 1925; Veturliði, listmálari, f. 1926, d. 2004; Guðbjartur, kenn- ari, f. 1928; Gunnar Kristinn, fyrrv. útibússtjóri og landsliðs- maður í knattspyrnu og skák, f. 1933. Hálfsystkini, sammæðra: Anna Sólveig Veturliðadóttir húsmóðir, f. 1911, d. 1980; Helga Veturliðadóttir, f. 1912, d. 1915; Jón Veturliðason matreiðslu- meistari, f. 1914, d. 1999; Helga Jóhannesdóttir húsmóðir, f. 1915, d. 1941. við Kennaraháskóla Íslands frá 1965. Kenndi myndlist við Lista- félag MR 1965-1966 og Lista- félag VR 1985-1987. Benedikt hélt á þriðja tug einkasýninga hérlendis og eina í París. Hann tók þátt í tuttugu og þremur samsýningum víða um heim, m.a. á öllum Norðurlönd- unum, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Rússlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Bretlandi og í Ástralíu og fjölda samsýninga á Íslandi. Málverk eftir Benedikt eru m.a. í Listasafni Íslands, Lista- safni Kópavogs, bæjarlistasöfn- um og í einkasöfnum og stofn- unum. Verk í erlendum söfnum, m.a. í Kanada, Bandaríkjunum, Sviss, Þýskalandi, Mexíkó, Kól- umbíu, Danmörku, Svíþjóð og í Ísrael. Hann hefur gert veggmyndir og steinda glugga í nokkrar opinberar byggingar hérlendis, s.s. í Grunnskólann á Hofsósi og Vík í Mýrdal, í Héraðsskólann að Skógum, Keflavíkurkirkju, Há- bæjarkirkju í Þykkvabæ, Fá- skrúðarbakkakirkju, Suður- eyrarkirkju og í Háteigskirkju. Benedikt sat í stjórn FÍM, í stjórn Norræna listbandalagsins 1958-60 og í sýningarnefnd FÍM 1965-72. Var prófdómari við MHÍ 1975-77. Myndskreytti og gerði kápur á fjölda bóka og tímarita, m.a. listtímaritið Birt- ing. Heiðurslistamaður Kópa- vogs 2002. Útför Benedikts fer fram frá Háteigskirkju í dag, 4. desember 2018, klukkan 15. Benedikt kvænt- ist 16.8. 1959 Ásdísi Óskarsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 8.6. 1933, d. 13.3. 2016. Hún var dóttir Óskars Jónssonar, skrifstofu- og alþm., f. 1899, d. 1969, og Katrínar Ingibergs- dóttur húsmóður, f. 1908, d. 2004. Benedikt og Ás- dís eignuðust tvö börn. 1) Val- gerður, vinnur við bókaútgáfu, f. 1965, maki Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur, f. 1960. Börn þeirra eru Gunnar og Sóley. 2) Gunnar Óskar, f. 1968, d. 1984. Benedikt stundaði nám við Handíða- og myndlistarskólann í Reykjavík 1945-48, við Listahá- skólann í Kaupmannahöfn og teikniskóla P. Rostrup Bøyesens á Statens museum for kunst í Kaupmannahöfn 1948-50, var við nám í París 1950-53, m.a. við Académie de la Grande Chau- miére, og í Madríd 1953-54. Myndlistarkennarapróf frá Myndlista- og handíðaskóla Ís- lands 1964. Kennari við Myndlistarskóla Vestmannaeyja 1958-59, Gagn- fræðaskólann við Lindargötu í Reykjavík 1960-62, Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1959-68 og Ég bjó svo vel að eiga afa og ömmu í næstu götu. Heimsóknir til þeirra voru fastur hluti af dag- legu lífi og alltaf tóku þau vel á móti mér. Þarna var um einstak- lega góðhjartað fólk að ræða sem ég elskaði af öllum mínum lífs- og sálarkröftum. Ég áttaði mig snemma á forréttindunum sem fólust í að eiga þau að – slíkt er alls ekki sjálfgefið. Ekkert varir að eilífu. Dag einn myndi ég ekki eiga þau að. Þetta viðhorf varð til þess að ég leit alltaf til baka á leið minni heim frá þeim. Ég varð að sjá þau einu sinni enn. Það merkilega var að í hvert einasta skipti sem ég leit við sá ég afa standa úti við handriðið. Hann stóð brosandi, veifaði og horfði á eftir mér ganga á brott. Svona voru allar okkar kveðjustundir. Dag einn í framtíðinni mun ég stofna mína eigin fjölskyldu. Þá mun ég standa á pallinum fyrir framan sumarbústaðinn í Vík í Mýrdal, þar sem áður var ómál- aður strigi en er nú iðandi af rauðu lyngi, grænu grasi og bláum blómum. Ég mun halla mér fram á handriðið og fylgjast með henni leika sér á sólríkum júlímorgni. Hún mun setjast nið- ur hjá lækjarseytlunni og rifja upp söguna af því þegar nafna hennar hitti unga, óvenjulega listamanninn skammt frá Skóga- fossi. Hún mun hlusta á lögin sem fuglarnir sungu þegar þau giftu sig á Spönginni. Ferðalög þeirra um þá fallegu, fjölbreyttu, hrjóstrugu en viðkvæmu reiki- stjörnu leynast handan sjón- deildarhringsins og munu fylla hana ævintýraþrá. Hún mun fara á söfn þar sem óendanlegur sköpunarkraftur langafa Valla tekur blíðlega á móti henni. Hún mun læra að þrátt fyrir erfið- leika, sorg og mótlæti eigi alltaf að taka lífinu af bjartsýni, æðru- leysi og umhyggju gagnvart þeim sem minna mega sín. Hún mun læra að hlæja og gráta og elska og treysta, standa óhrædd við skoðanir sínar og leggja sitt af mörkum við að gera jörðina að örlítið betri stað handa öllu því sem á henni býr. Þakka þér fyrir að hjálpa mér að dafna og þroskast, elsku afi minn. Takk fyrir að horfa á eftir mér ganga út á lífsins braut. Takk fyrir að draga fram litina á öllu því sem þú snertir. Ég sé núna að kveðjustundir okkar forðum voru einungis undanfarar þess að við hittumst aftur. En nú hefur þó orðið sú breyting að þú stendur ekki lengur við handrið- ið. Í stað þess stendur þú eilífa vakt við hliðina á öllum þeim góðu lífsins gildum sem þið amma kennduð mér og ég mun ávallt sækja aftur heim. Bless afi. Sjáumst. Komdu sæll. Það er gott að eiga þig alltaf að. Komdu, ég ætla að sýna þér hvað lífið er fallegt. Gunnar Grímsson. Elsku afi minn. Takk fyrir að hafa verið besti vinur minn, kennari um lífið og dásamlegur ferðafélagi um allan heim. Takk fyrir að hafa hlegið með mér á hverjum degi og kennt mér að brosa framan í lífið, og takk fyrir að hafa getað talað við mig um allt og ekkert, hvar og hvenær sem er. Takk fyrir all- ar stundirnar inni í vinnustofu þar sem þú kenndir mér að teikna, kenndir mér allt um hlut- föll, kolavinnu og litafræði. Takk fyrir að hafa verið minn mesti stuðningsmaður. Takk fyrir að hafa verið yndislegur, góður og skemmtilegur. Takk fyrir allt. Ég elska þig. Þín Sóley Grímsdóttir. Hönd er stirð, og hjartað slær ei meir. Harpan þögnuð, brostinn strengur hver. Í týndan grafreit lík mitt lögðu þeir. Ljóð mitt skildi ég eftir handa þér. Úr fortíðinni, minni gleymdu gröf, af gulum blöðum flýgur kveðja mín á vængjum tímans yfir aldahöf, og einhvern tíma kemur hún til þín. (Gunnar Dal) Anna og Baldur. Ég hef sennilega verið 10 ára þegar ég fór á námskeið með vin- konum mínum í Handíða- og myndlistarskólanum. Við mætt- um glaðbeittar og hávaðasamar beint úr Kópavogsstrætó og stormuðum upp á 4. hæð í Skip- holtinu. Grannvaxinn og fölleitur maður tók alúðlega á móti okkur. Á svipstundu dró hann okkur úr skarkala heimsins inn í framandi ævintýraveröld. Við sátum í hópi í kringum hann í rökkvaðri stof- unni þar sem hann með litlu log- andi kerti hóf kennsluna með því að sýna okkur samspil ljóss og skugga. Röddin var svo þýð og hljómfögur, augun svo brún og blíð og við, undurstillt og hug- fangin, sátum heilluð. Þetta voru fyrstu kynni mín af Benedikt og alltaf átti hann eftir að hafa sömu áhrif á mig þegar ég hitti hann. Hann fór hægar en aðrir, sá lengra, skynjaði betur, talaði meira og einhvern veginn hægði tíminn á sér í návist hans. Leiðir okkar hafa legið saman á Kársnesinu í meira en hálfa öld. Þegar við sömu vinkonurnar gengum ári síðar yfir kirkjuholt- ið eftir fyrsta klarínetttímann í Skólahljómsveit Kópavogs kom hann svífandi út úr hálfbyggðu húsi í Kastalagerði og fékk að skoða þessi fínu hljóðfæri. Við undirleik steypuhrærivélar og hamarshögga lékum við fyrir þennan áhugasama áheyranda Góða mamma í moll, enda vorum við ekki búnar að læra h. Oft átti þessi einlægi áhugi hans eftir að vekja mér áræði og þor og alltaf var jafn gefandi að syngja eða spila fyrir Benedikt. Hann og Ásdís urðu aðdáendur barnakóranna í Kársnesskóla og eftir að börnin mín litu dagsins ljós fengu þau einnig að kynnast elskusemi þeirra. Kisurnar okk- ar, Picasso og Stravinsky, komu úr Kastalagerðinu og það gerðu líka alls konar ljósmyndir, af- mæliskort, teikningar, úrklippur og fallegar hugrenningar sem hann færði okkur á gleðistund- um. Og líka þegar á mæddi. Okkur lærðist fjölskyldunni að stilla okkur inn á nýja vídd þegar við hittum hann á förnum vegi eða þegar hann kom óvænt í heimsókn. Þá var enginn að drífa sig neitt, enginn að flýta sér, haska sér eða hespa hlutina af. Á augabragði svifu þær samrýndu systur tónlistin og myndlistin um sálartetrið og okkur fannst við alltaf svolítið betri manneskjur þegar hann var farinn. Benedikt varð hluti af tilver- unni okkar á Kársnesinu. Ekkert var því eðlilegra en að Grímur, bróðir minn, og Valgerður, dóttir hans, skyldu síðar falla kylliflöt hvort fyrir öðru á kóræfingu hjá Dómkórnum og við tengdumst loksins alvörufjölskylduböndum. Það gustaði meira um litlu fjöl- skylduna í holtinu við að tengjast stórfjölskyldunni á Kópavogs- brautinni. Ekki síst eftir að Gunnar og Sóley höfðu bæst í hópinn og Jón frændi, æringi vestan af fjörðum, sá um óvænt skemmtiatriði í jólaboðum og fjölskylduhátíðum. Mikið lifandis skelfing var gaman að heyra þau Benedikt og Ásdísi hlæja. Alltaf allt svo græskulaust og gott í kringum þessi sómahjón. Mikið á ég eftir að sakna þeirra. Guð blessi minningu Benedikts og Ásdísar og styrki Valgerði mína, Grím, Gunnar og Sóleyju. Þórunn Björnsdóttir. Benedikt Gunnarsson listmál- ari var gagnmenntaður og skap- andi myndlistarmaður, hugsuður og hugsjónamaður, fagurkeri og frábær kennari. Benedikt starfaði samhliða listsköpun sinni sem myndlistar- og myndmenntarkennari við Myndlistarskóla Vestmannaeyja, Gagnfræðaskólann við Lindar- götu í Reykjavík, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og víðar á sjötta, sjöunda, áttunda og ní- unda áratug síðustu aldar. Þá kenndi hann verðandi kennurum í Kennaraskóla Íslands myndlist og myndmennt í ríflega áratug áður en þeim skóla var formlega breytt með lögum frá Alþingi í kennaraháskóla árið 1971. Bene- dikt var ráðinn lektor í myndlist og myndmennt við nýlega stofn- aðan Kennaraháskóla Íslands og varð dósent við Kennaraháskól- ann frá 1998. Benedikt var ótrúlega mikil- virkur myndlistarmaður en lagði jafnframt mikla alúð og vand- virkni í allt sem hann gerði. Mál- verk eftir hann eru í mörgum opinberum söfnum og stofnunum og í eigu fjölda einstaklinga. Ennfremur eru verk hans í er- lendum söfnum víða um heim. Þá gerði hann stórar veggmyndir og steinda glugga í skóla og kirkjur, t.d. í Háteigskirkju í Reykjavík, Fáskrúðarbakkakirkju á Snæ- fellsnesi og Suðureyrarkirkju. Benedikt var í hópi þeirra kennara við Kennaraháskóla Ís- lands sem unnu að því að efla grunn- og endurmenntun grunn- skólakennara á áttunda og ní- unda áratugnum og færa hana formlega á háskólastig. Fyrir 1971, þegar Kennaraháskóli Ís- lands var stofnaður á grunni hins gamla Kennaraskóla sem hafði starfað frá 1908, var aðeins einn háskóli í landinu – Háskóli Ís- lands. Það var ögrandi verkefni að endurskoða kennaranámið og byggja það upp að hluta til á nýj- um grunni, efla rannsóknir í upp- eldis- og menntunarfræðum og öllum kennslugreinum grunn- skólans. Ekki síst var þetta krefjandi verkefni á sviðum list- og verkgreina, eins og t.d. í myndmennt, tónmennt og hand- mennt, þar sem minna var um fyrirmyndir hér á landi en á svið- um náttúruvísinda, hugvísinda og félagsvísinda. Þar starfaði Benedikt í hópi annarra frum- kvöðla sem lögðu grunninn að sérmenntun þeirra kennaranema sem stefndu á kennslustörf í list- og verkgreinum í grunnskólum landsins. Benedikt kenndi ekki nem- endum sínum einungis vinnu- brögð og vandvirkni. Hann var sjálfur gagnrýninn hugsuður sem hafði einstakt lag á að fá nemendur sína til að sjá sam- hengi hugmynda og hluta í leit að kjarnanum. Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands voru sameinaðir fyrir tíu árum – árið 2008 – og myndaði Kennaraháskólinn þá kjarnann í menntavísindasviði – einu af fimm fræðasviðum hins sameinaða Háskóla Íslands. Við sem kynntumst Benedikt Gunnarssyni á vettvangi kenn- aramenntunar innan Kennarahá- skóla Íslands, bæði nemendur og samstarfsfólk, minnumst hans með virðingu og hlýhug. Ólafur Proppé, fyrrverandi rektor Kennaraháskóla Íslands. Tvær gamlar konur ættaðar af Snæfellsnesi leiddu lista- manninn Benedikt Gunnarsson inn í Fáskrúðarbakkakirkju í Miklaholtshreppi fyrir tæpum aldarfjórðungi. Erindið var að biðja hann um að gera steinda glugga í kirkjuna við veginn en þær ætluðu að gefa þá til minn- ingar um foreldra sína og tvo látna bræður. Benedikt gekk inn í kirkjuna með miklum eftir- væntingarsvip og skoðaði sig um. Settist á einn bekkinn og horfði vökulum og viðkvæmum augum á altaristöfluna sem geymir minni af atburði frá þorpinu Emmaus en þar mættu tveir lærisveina Jesú honum upprisnum. Á stall altaristöfl- unnar er letraður texti úr guð- spjalli Lúkasar, kafla 24.29: „Vertu hjá okkur því að kvölda tekur og degi hallar.“ Hann sat lengi og íhugaði, stóð upp og horfði hátt og lágt um kirkjuna alla. Fór upp í turn og velti fyrir sér litlum hringlaga glugga. Í engu fór hann sér óðslega held- ur gekk um gólf hægum og ró- legum skrefum. Eins og hann væri að draga að sér anda þess- arar sveitakirkju við þjóðbraut- ina. Síðan hófst hann handa og kom nokkrum sinnum vestur til að kynna hugmyndir sínar og ræða við fólk. Það var mikill skóli að kynnast honum. Hann sagði nákvæmlega frá hug- myndum sínum og tók marga eftirminnilega listasögulega spretti. Röddin var mjúk og hógvær, hann grannur og virk- aði á stundum sem afskaplega brothættur. Hver gluggi – en alls eru þeir fjórtán – var þaul- hugsaður með fornum og sígild- um táknum kristninnar með sterkar skírskotanir til helstu atburða í sögu hennar. Litir valdir af miklu listfengi og næmni. Glerið sömuleiðis valið af mikilli kostgæfni. Hann var hvort tveggja í senn hraðvirkur og velvirkur og bar ómælda virðingu fyrir andlegum verð- mætum kristninnar og lista- verkum þeim sem prýða guðs- húsin. Sagði gjarnan að enginn spyrði um hve langan tíma verk- ið hefði tekið þegar það væri komið í hús. Nú er ævikvöldið liðið í lífi þessa einstaka listamanns og hann genginn á fund síns upp- risna meistara sem lærisvein- arnir tveir mættu forðum daga í þorpinu Emmaus. Það er við hæfi að benda þeim sem aka vestur um Snæfellsnes á að staldra við í Fáskrúðar- bakkakirkju, gjarnan á sólbjört- um degi, og fá að skoða list- gluggana góðu sem prýða kirkjuna. Þar er og hægt að lesa sér til um hvern og einn glugga. Þegar horft er til kirkjulegra listaverka hans má segja að ekki sé ofmælt að hann hafi verið einn fremsti kirkjulistamaður lands- ins. Eina fegurstu og stórfengleg- ustu altaristöflu landsins er að finna í Háteigskirkju, mósaík- mynd með dulúðugri og trúar- legri dýpt. Frá þeirri fögru kirkju verður hann kvaddur und- ir meistarastykki sínu. Ég minnist Benedikts Gunn- arssonar með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans. Hreinn S. Hákonarson. Benedikt Gunnarsson var mikill listamaður, það er augljóst af verkum hans sem eru á al- mannafæri, en hann var líka mik- ill listamaður í lífi sínu. Hann var einstakt ljúfmenni og umgekkst samferðamenn sína þannig að þeir fengu notið sín. Prúðmennska hans, tillitssemi og ósvikinn áhugi og virðing skóp þetta sérstæða andrúmsloft í ná- vist Benedikts, maður fór alltaf glaðari og jákvæðari af hans fundi. Hann hafði af miklu að miðla, vestfirskur þorpsdrengur úr stórum systkinahópi, hafði farið víða um heim til mennta, til Kaupmannahafnar, Parísar og Madrid og enn víðar til fjöl- margra samsýninga. Öll þessi lífsreynsla mótaði skoðanir hans og lífsviðhorf og sérstaklega naut hann sín í samfélagi við sína fal- legu og gáfuðu konu, Ásdísi Óskarsdóttur. Hún lést fyrir tveimur árum og var öllum harmdauði, en þá var Benedikt þegar tekinn að berjast við þann sjúkdóm sem dró hann sjálfan til dauða. Við hjónin höfðum mest sam- skipti við Ásdísi og Benedikt á Skálholtsárum okkar um síðustu aldamót. Þau kunnu vel að meta kyrrð og helgi staðarins, enda þau list- form þar ráðandi sem hann hafði sinnt sérstaklega, steindir gluggar og stórar veggmyndir. Þau tóku líka virkan þátt í helgi- haldi staðarins og dagskrá og auðguðu okkur með hlýrri nær- veru og uppbyggjandi um- ræðum. Í dag er Benedikt svo kvaddur í Háteigskirkju þar sem list hans umvefur og auðgar alla sem þangað koma, byggð á þeirri djúpu kristnu trú sem honum var innrætt vestur í Súgandafirði og þroskaðist við víðfeðma lífs- reynslu hans. Við þökkum þau forréttindi að hafa átt vináttu Benedikts og fel- um hann góðum Guði sem leiddi hann um lífið allt. Bernharður Guðmundsson Rannveig Sigurbjörnsdóttir. Benedikt Gunnarsson Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og langalangamma, FJÓLA EGGERTSDÓTTIR, Ásbraut 2, Hvammstanga, lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Hvammstanga, laugardaginn 1. desember. Fyrir hönd fjölskyldunnar, Sigga, Bára, Hanna og Dísa Okkar ástkæri sonur, bróðir, mágur og frændi, ÞÓRÐUR ALBERT GUÐMUNDSSON yfirflugvirki, sem lést á Landspítalanum laugardaginn 24. nóvember, verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni miðvikudaginn 5. desember klukkan 13. Þórdís Þórðardóttir Guðmundur Albertsson Áslaug Traustadóttir Ragnhildur Sigurðardóttir Hermann Jónsson Guðrún Helga Magnúsdóttir Steinar Þór Þorfinnsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.