Morgunblaðið - 08.12.2018, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 08.12.2018, Blaðsíða 6
6 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 8. DESEMBER 2018 Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Hegðun nokkurra þingmanna hef- ur því haft áhrif á trúverðugleika okkar sem boðbera jafnréttis á al- þjóðavettvangi,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), í pistli sem birtur er á heima- síðu félagsins. Drífa er stödd á þingi Alþjóðasambands verkalýðsfélaga í Kaupmannahöfn og segist hún hafa fengið „fjölda spurninga um enn eitt hneykslið í íslenskum stjórnmálum sem ratað hefur í heimsfréttirnar“. Er Drífa þarna að vísa til þeirr- ar umræðu sem átt hefur sér stað vegna Klausturmálsins svonefnda. „Við megum aldrei sætta okkur við niðurlægjandi tal um minni- hlutahópa, slíkt er ofbeldi í sjálfu sér. Þegar hatursfull orðræða líðst gefur það leyfi til mismununar í launum, stigveldi og elur á beinu ofbeldi,“ segir Drífa í pistlinum. Mörg stór nöfn Nokkrir fréttamiðlar erlendis hafa fjallað um Klausturmálið. Eru þetta meðal annars miðlarnir New York Times, breska ríkisútvarpið (BBC), NRK og SVT. Í umfjöllunum þessum eru þingmennirnir sex flest- ir nafngreindir, greint frá ummæl- um þeim sem féllu þetta kvöld og viðbrögðum almennings á Íslandi. Sumir þessara miðla taka Mið- flokksmennina Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Braga Sveinsson sérstaklega fyrir, meðal annars með því að greina frá þeirra fyrri störfum sem ráðherrar í ríkis- stjórn Sigmundar Davíðs. Fær „fjölda fyrirspurna“ vegna Klausturmálsins Skjáskot/New York Times Frétt New York Times fjallar meðal annars um mál þingmannanna.  Fjölmiðla- athygli erlendis Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Aðeins einu sinni í sögu Alþingis hef- ur það gerst að þorri þingmanna hefur tekið sig saman um að snið- ganga ákveðna þingmenn vegna þess að þeim blöskraði framkoma þeirra og viðhorf. Þetta var veturinn 1939 til 1940 þegar stuðningur þriggja þingmanna Sósíalistaflokks- ins við árás Sovétríkjanna á Finn- land í lok nóvember 1939 gekk fram af öllum almenningi hér á landi. Hvort þetta muni endurtaka sig gagnvart þingmönnunum sem ollu hneyksli á Klaustri bar á dögunum er eftir að koma í ljós, en það hefur komið til tals. Mikil samúð með Finnum Litið var á Finna sem bræðraþjóð Íslendinga og breyttust fullveldis- hátíðarhöldin í Reykjavík 1. desem- ber þetta ár í fjölmenna samkomu til stuðnings Finnum. Safnaðist fólk saman við ræðisskrifstofu Finnlands í Hafnarhúsinu. Þegar Alþingi kom saman til fund- ar 4. desember 1939 las forseti sam- einaðs þings, Pétur Ottesen, yfirlýs- ingu frá 42 alþingismönnum af þeim 49 sem á þingi sátu. Þrír þingmenn voru fjarverandi og gátu því ekki undirritað yfirlýsinguna. Í henni sagði: „Vegna þeirrar afstöðu, er kommúnistaflokkurinn, sem hér starfar undir nafninu Sameiningar- flokkur alþýðu – sósíalistaflokkur- inn, þingmenn þess flokks og mál- gögn hafa markað sér til frelsis, réttinda og lýðræðis smáþjóðanna síðustu vikurnar, og alveg sér- staklega viðvíkjandi málefnum Finnlands, lýsa undirritaðir alþing- ismenn yfir því, að þeir telja virð- ingu Alþingis misboðið með þingsetu fulltrúa slíks flokks.“ Forseti sleit síðan fundi. Reknir úr þingmannasambandi Sama dag var haldinn fundur í Ís- landsdeild þingmannasambands Norðurlanda (forvera Norðurlanda- ráðs) og var þar samþykkt að víkja þingmönnum Sósíalistaflokksins úr sambandinu. Næstu vikur og mánuði máttu þingmenn Sósíalistaflokksins, Brynjólfur Bjarnason, Einar Ol- geirsson og Ísleifur Högnason, búa við það að aðrir þingmenn virtu þá ekki viðlits. Ræðum þeirra á þingi var ekki svarað og stundum gengu þingmenn úr þingsal þegar þeir tóku til máls. Í þinginu létu menn eins og þeir væru ekki til. Sósíalistar brugð- ust þá við með því að halda uppi mál- þófi þannig að þingstörfin sóttust seint þennan veturinn. Deilurnar um stuðninginn við Sovétríkin ollu klofningi í Sósíalistaflokknum og m.a. sagði formaðurinn, Héðinn Valdimarsson, sig úr flokknum. Ekki bundið við Ísland Viðbrögðin við stuðningi komm- únista við árásina á Finnland voru ekki bundin við Ísland. Fram kemur í samtímaheimild að í sumum öðrum lýðræðisríkjum hafi enn harðara verið brugðist við. „Sumstaðar er þeim sagt að þegja, er þeir vilja tala, og annarsstaðar ganga allir þingmenn út, nema þeir, og er þeim lofað að tala aðeins við sjálfa sig,“ segir í blaðagrein í des- ember 1939. Andófið gegn þingmönnum sósíal- ista á Alþingi fjaraði smám saman út. Finnar gáfust upp fyrir ofurefl- inu í mars 1940. Griðasáttmálinn sem Stalín og Hitler gerðu með sér í ágúst 1939 hafði verið grundvöllur innrásarinnar, en þegar Þjóðverjar réðust inn í Rússland sumarið 1941 gerðust Sovétmenn bandamenn lýð- ræðisríkjanna í baráttunni gegn nas- ismanum. Sögðu virðingu Alþingis vera misboðið  Þingmenn Sósíalistaflokksins voru sniðgengnir veturinn 1939-1940 Útifundur Íslendingar sýndu Finn- um mikinn stuðning 1. des. 1939. Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Það er verið að skoða þetta mál í heild sinni hjá Persónuvernd í ljósi þessara nýjustu upplýsinga,“ segir Vigdís Eva Líndal, skrifstofustjóri upplýsingaöryggis hjá Persónu- vernd, í samtali við Morgunblaðið. Vísar hún í máli sínu til Klaustur- málsins svonefnda þar sem hópur sex þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins hittist á knæpu í miðborg Reykjavíkur 20. nóvember síðastliðinn. Fundurinn var hljóðrit- aður án þeirra vitneskju og í kjölfar- ið lekið til fjölmiðla. Sá sem stóð að upptökunni steig í gær fram undir nafni, Bára Halldórsdóttir. „Mér bara brá svo þegar ég heyrði hvernig þingmennirnir töluðu. Satt best að segja trúði ég ekki mínum eigin skilningarvitum. Svo ég byrjaði bara að taka upp, án þess að hugsa það neitt lengra. En því meira sem ég hlustaði, því reiðari varð ég, því þarna voru saman komnir valdamikl- ir menn að spúa hatri yfir minni- hlutahópa á almannavettvangi. Ég held að það hafi verið rétt að upplýsa almenning um það sem þarna fór fram og eftir á að hyggja er ég stolt af því,“ sagði Bára í viðtali sem birt er á heimasíðu Stundarinnar, en fyrst var greint frá Klausturmáli þar sem og nafni uppljóstrarans. Í viðtalinu segist Bára vera öryrki, samkynhneigð og með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm. Þá segist hún hafa verið stödd inni á knæpunni fyrir til- viljun og í þeim tilgangi að fá sér kaffibolla. Skammt frá hennar borði sátu þingmenn flokkanna tveggja. „Mér varð fljótlega ljóst að þetta voru stjórnmálamenn, opinberar persónur. Svo ég ákvað bara að prófa aðeins að kveikja á upptöku- forritinu í símanum mínum,“ sagði Bára sem blöskraði mjög ummæli þingmannanna þetta kvöld. Margir óvissuþættir í málinu Morgunblaðið setti sig í samband við nokkra hæstaréttarlögmenn vegna upptökunnar. Einn þeirra sagði Báru vera að útsetja sig fyrir að þurfa að taka afleiðingum þess að hljóðrita fólk án þess vitundar. Annar sagði upptöku sem þessa, af þjóðþekktum einstaklingum í al- menningi, vera svipaða og að taka ljósmynd af manni úti á götu. Enn annar benti á að uppi væru mjög margir óvissuþættir í málinu og því ekki hægt að slá neinu föstu fyrr en búið væri að dæma í því. Morgunblaðið/Hari Barinn Samtal sex þingmanna tveggja stjórnmálaflokka var hljóðritað í miðborg Reykjavíkur án þeirra vitneskju. Persónuvernd með Klausturmál í skoðun  Bára hljóðritaði samtalið og kom fram undir nafni í gær Mikil vinna á sér nú stað innan Alþingis við að safna nauðsyn- legum gögnum í Klausturmálinu svonefnda sem falið hefur verið siðanefnd Alþingis. Verður mál þingmannanna sex kannað sem mögulegt siðabrotamál. Morgunblaðið setti sig í sam- band við Alþingi í þeim tilgangi að kanna hvort uppljóstrarinn, Bára Halldórsdóttir, yrði kölluð fyrir nefndina nú þegar hún hef- ur stigið fram undir nafni. Feng- ust þær upplýsingar að ekki hefði verið tekin nein afstaða til þess enn. Eitt þeirra atriða sem horfa þarf til í því samhengi er að Bára hefur ekki sjálf lagt fram erindi og er hún því ekki aðili máls í þeim skilningi. Al- mennt er málsmeðferð þannig að ekki sé gert ráð fyrir að fólk komi fyrir siðanefnd Alþingis. Kölluð fyrir siðanefnd? UPPLJÓSTRARINN Klausturmál Jólaskeiðin 2018 Guðlaugur A. Magnússon S. 562 5222, Skólavörðustíg 10 www.GAM.is Verð 18.900 kr. / 17.900 kr. stgr. Skeiðin er úr 925 silfri Hönnuður: Hanna S. Magnúsdóttir Kærleikurinn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.