Morgunblaðið - 31.12.2018, Page 8
8 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12. 2018
Íslenskir knattspyrnuáhugamenn bíða með
öndina í hálsinum eftir því að undankeppni Evr-
ópumóts karla 2020 fari af stað í marsmánuði.
Ísland mætir þá nágrannaþjóðunum Andorra
og Frakklandi á útivöllum og glímir síðan við
Tyrkland, Albaníu og Moldóvu en liðið spilar
alla tíu leiki sína í undankeppninni á árinu 2019.
Beðið er á milli vonar og ótta um hvernig ís-
lenska liðinu muni vegna. Er ævintýrinu lokið?
Er búið að skrifa sögu Íslands á stórmótunum í
karlaflokki með þátttöku landsliðsins á EM í
Frakklandi og HM í Rússlandi? Eða kemur út
nýtt bindi?
Efinn er skiljanlegur. Íslenska liðið stóð sig
ágætlega í Rússlandi. Jafntefli við Argentínu
þar sem Alfreð Finnbogason jafnaði metin í 1:1
og Hannes Þór Halldórsson varði vítaspyrnu
frá Lionel Messi kom Íslandi enn og aftur á for-
síður heimsblaðanna. Leikirnir við Nígeríu og
Króatíu töpuðust en liðið átti von um sæti í 16-
liða úrslitum fram á síðustu mínútu. Það var mál
og mat manna að liðið hefði staðið sig vel í fimm
hálfleikjum af sex en slæmur síðari hálfleikur
gegn Nígeríu gert útslagið um að Ísland komst
ekki áfram úr riðlakeppninni. Sem hefði verið
magnað afrek.
Síðan urðu þjálfaraskipti. Heimir Hall-
grímsson kvaddi eftir hálft sjöunda ár sem að-
stoðarþjálfari og síðan þjálfari. Arftaki hans er
Svíinn Erik Hamrén sem fór beint með liðið í
hörkuleiki í A-deild Þjóðadeildar UEFA. Þar
var niðurstaðan fjórir tapleikir gegn Belgíu og
Sviss, sem í sjálfu sér var ekkert óeðlilegt.
Skellurinn í Sviss í fyrsta leiknum undir stjórn
Eriks Hamréns var þó slæmur svo undan sveið.
Frammistaða íslenska liðsins hefur byggst á
gríðarsterkri liðsheild og því að hafa haldið nán-
ast sama kjarna leikmanna í nokkur ár. Liðið
hefur mátt illa við því að missa lykilmenn í
meiðsli, hvað þá marga í einu eins og gerðist í
haust. Síðan þarf endurnýjunin að eiga sér stað
og þó lykilmenn liðsins séu ekki háaldraðir þá
styttist smám saman þeirra líf sem fótboltamenn
í fremstu röð. Framhaldið mun velta á því
hversu vel gengur að fylla í skörðin þegar þau
fara að myndast. Ekki síður á því hvort Hamrén
takist að ná því sama út úr þessum hópi og
Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck voru
færir um. Horfur eru á því að Ísland verði á
árinu 2019 með sama kjarna leikmanna og lék á
EM í Frakklandi þremur árum áður, þannig að
reynsluna mun í það minnsta ekki skorta. Ungir
leikmenn eru byrjaðir að láta að sér kveða og þar
eru mestar vonir bundnar við Arnór Sigurðsson
og Albert Guðmundsson sem eru líklegir til að
taka talsverðan þátt í komandi undankeppni.
Þarf að viðhalda jarðtengingunni
Þótt íslenska karlalandsliðið hafi flogið með him-
inskautum á undanförnum árum og tekið þátt í
lokakeppnum tveggja stórmóta þarf að gæta
þess að viðhalda jarðtengingunni. Sumir vilja
ekki telja tvo sigurleiki gegn Indónesíu í byrjun
árs með þegar farið er yfir atburði ársins 2018.
Þetta voru vissulega vináttuleikir gegn veikum
andstæðingi og flestir fastamanna Íslands fjarri
góðu gamni, ásamt því að andstæðingarnir þóttu
standa sérkennilega að sínu liðsvali. En mót-
herjinn var eitt af fjölmennustu ríkjum heims,
sem er með landslið af svipuðum styrkleika og
tveir væntanlegir andstæðingar Íslands í næstu
undankeppni Evrópumótsins, Moldóva og An-
dorra, og með íslenska liðinu spiluðu sjö leik-
menn sem fóru á HM í Rússlandi. Alla mótherja
og allar þjóðir ber að virða. Líka þá sem leika
fyrir Íslands hönd hverju sinni.
Ekki síst þar sem þetta voru einu sigurleikir
íslenska liðsins á árinu 2018 sem fer í sögu-
bækurnar sem eitt versta ár landsliðsins ef að-
eins er horft á úrslit leikjanna.
Gleymum því ekki að íslenska landsliðið var
einu sinni á allt öðrum slóðum, og það liðu jafn-
vel mörg ár á milli sigurleikja. Það var lengi vel
eitt af fjórum til fimm lökustu landsliðum Evr-
ópu og fékk einna helst vináttuleiki gegn
áhugamannalandsliðum stóru þjóðanna, ef
leikir við Norðurlandaþjóðirnar voru und-
anskildir. Þá var Ísland í raun á „réttum“ stað,
ef tekið er mið af höfðatölunni margumtöluðu.
Það er ekkert sjálfsagt við það að Ísland sé í
dag talið 37. sterkasta landslið heims, af 211
aðildarþjóðum FIFA, hvað þá að það sé númer
18 í þeirri röð eins og það var um tíma snemma
á árinu 2018.
Einni vítaspyrnu frá HM-umspili
Kvennalandsliðið í fótbolta freistaði þess að
komast á HM í fyrsta skipti og átti raunhæfa
möguleika fram að síðasta leik í undankeppn-
inni í haust. Því mistókst að sigra Tékka á
Laugardalsvellinum og komst fyrir vikið ekki í
umspil, enda þótt það endaði í öðru sæti í sín-
um riðli. Söru Björk Gunnarsdóttur brást
bogalistin af vítapunktinum á örlagastundu.
Sara getur þó horft stolt til ársins 2018 en hún
varð tvöfaldur meistari í Þýskalandi annað árið
í röð og komst í úrslitaleik Meistaradeildar
Evrópu með Wolfsburg, eftir að hafa skorað
afar mikilvæg mörk fyrir liðið í þeirra keppni.
Sara náði með þessu lengra, sem lykilmaður í
sínu félagsliði, en nokkur annar íslenskur
knattspyrnumaður hefur gert.
Bjartsýni eftir ráðningu Guðmundar
Þegar Guðmundur Þ. Guðmundsson var kynnt-
ur til leiks sem nýr þjálfari karlalandsliðs Ís-
lands í handknattleik snemma í febrúar á þessu
ári fór bjartsýnisbylgja um íslenska hand-
boltaheiminn. Fáir íslenskir þjálfarar njóta jafn
almennrar hylli meðal landsmanna og þessi lág-
vaxni og eldfljóti fyrrverandi hornamaður lands-
liðsins sem vann ólympíusilfur og Evrópubrons
með landsliðinu árin 2008 og 2012, og er nú
mættur til starfa í þriðja sinn. Hans markmið er
að byggja upp á þremur árum landslið sem á ný
getur haldið sér í hópi átta bestu liða heims.
Til þessa hefur Guðmundur aðeins stýrt lið-
inu í vináttuleikjum, sem og í umspilsleikj-
unum gegn Litháen í júnímánuði þar sem liðið
var ekki í teljandi vandræðum með að tryggja
sér farseðlana á HM sem hefst í Þýskalandi og
Danmörku eftir aðeins tíu daga. Margir telja
sig hinsvegar sjá batamerki á leik liðsins frá
því Guðmundur tók við því, með sitt alkunna
skipulag og nákvæmni að leiðarljósi.
Á sama tíma hefur orðið talsverð uppsveifla í
handboltanum hér innanlands, í það minnsta
hjá körlunum, og gæðin í úrvalsdeildinni hafa
tvímælalaust aukist talsvert á undanförnum
tveimur árum. Ný kynslóð ungra og bráð-
efnilegra handboltamanna er smám saman að
taka völdin í íslenska landsliðinu og útlit er fyr-
ir að Íslendingum í sterkum félagsliðum í Evr-
ópu muni fjölga á ný á næstunni.
Kvennalandsliðið í handbolta er líka að rétta
úr kútnum eftir nokkur mögur ár og markvissa
uppbyggingu undir stjórn Axels Stefánssonar.
Það er komið í umspil fyrir HM 2019 og mun
leika gegn Spánverjum í sumarbyrjun um að
komast þangað.
Sara Björk Gunnarsdóttir hefur sópað að sér titlum með þýska stórliðinu Wolfsburg og lék með
því úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu gegn Lyon í maímánuði 2018.
Ljósmynd/Wolfsburg
Alfreð Finnbogason jafnaði gegn Argentínu í fyrsta leik Íslands í lokakeppni heimsmeist-
aramóts og íslenska liðið náði óvæntu jafntefli gegn einu sigursælasta landsliði heims.
Morgunblaðið/Eggert
Guðmundur Þórður Guðmundsson er tekinn við íslenska karlalandsliðinu í handbolta í þriðja
sinn og hann er á leið með liðið í lokakeppni HM í München í janúar.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Reynsluna mun ekki skorta
Karlalandsliðið í fótbolta er á leið í undankeppni EM 2020 með svipaðan mannskap og komst með því í lokakeppni EM og
HM. Karlalandsliðið í handbolta er ungt og efnilegt og Guðmundur Þ. Guðmundsson ætlar að koma því í fremstu röð á ný
VÍÐIR SIGURÐSSON
er umsjónarmaður íþróttadeildar Morgunblaðsins
og mbl.is, hefur starfað sem íþróttafréttamaður frá
árinu 1981 og skrifað bækur árlega um íslenska-
knattspyrnu.
Framhaldið mun velta á því hversu vel
gengur að fylla í skörðin þegar þau fara að
myndast. Ekki síður á því hvort Hamrén
takist að ná því sama út úr þessum hópi og Heimir
Hallgrímsson og Lars Lagerbäck voru færir um.
KEMST ÍSLAND AFTUR Á STÓRMÓT Í FÓTBOLTA?
’’