Morgunblaðið - 31.12.2018, Side 35
MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31. 12. 2018 35
Viðfangsefni manneskjunnar er alltaf það
sama, þó að veröldin breytist; baráttan fyrir
brauðinu, draumurinn sem hún elur í brjósti
sér og leitin að fegurðinni. Um allt þetta
fjalla endurminningar Tryggva Emilssonar,
Fátækt fólk. Þar lýsir hann vel tilveru al-
þýðufólks á Íslandi í byrjun tuttugustu aldar,
um það bil sem Ísland var að búa sig undir
að verða fullvalda. Hann dregur jafnframt
upp stórbrotna mynd af náttúrunni og lýsir
undraverðri þrautseigju mannsandans, jafn-
vel við ömurlegustu aðstæður. Sem betur fer
hefur okkur miðað vel áfram síðan þessir at-
burðir áttu sér stað; Ísland hefur breyst úr
einu fátækasta ríki Evrópu í ellefta auð-
ugasta land í heimi. Þökk sé baráttu launa-
fólks, frjálslyndari hugmyndum og almennari
skilningi á hlutverki ríkisins til jöfnunar lífs-
kjara. Bókin er okkur þó holl áminning því
enn finnast alltof margir, í þessu allsnægta-
landi, sem njóta ekki sanngjarns hlutar af
gæðunum og lifa við óásættanlegar að-
stæður.
Hugmyndir okkar um hvað telst vera fá-
tækt breytast sífellt með betri tíð og í dag
eru sem betur fer gerðar ríkari kröfur en að
fólk eigi einungis til hnífs og skeiðar. Nú
teljum við að allt fólk eigi auk þess rétt á að
njóta þeirrar fjölbreytni sem lífið hefur upp
á að bjóða. Viðhorf okkar til verðmætra nátt-
úruauðlinda hefur líka tekið stakkaskiptum
og langstærstur hluti þjóðarinnar lítur svo á
að þær séu sameign okkar allra. Lítið barn
sem fæðist inn í þennan heim og fyrirséð er
að muni aldrei geta alið önn fyrir sér eða
barn sem fæðist inn í ómögulegar aðstæður
eru þar engar undantekningar. Þau eiga ekki
að þurfa að sætta sig við að fæðast til nauð-
þurfta alla ævi, hvað þá fátæktar. Aldrei fyrr
höfum við verið í betri færum til að tryggja
öllum mannsæmandi kjör. Og þó að við get-
um aldrei komið í veg fyrir að fólk veikist,
verði sorgmætt eða finni til getum við að
minnsta kosti hjálpað fólki að öðlast tilgang
með lífinu og lifa því með reisn.
Heimurinn er frændgarður
Síðustu hundrað ár eru hins vegar ekki bara
saga stórfelldra efnahagslegra framfara,
heldur ekki síður bylting hugarfars og við-
horfs okkar til einstaklingsins. Þó að um-
burðarlyndi og víðsýni hafi aukist er enn
langt í land að allt fólk njóti þeirra réttinda
sem eru viðtekin í samtímanum; jafnrétti
kynjanna er ekki náð og enn verður fólk fyr-
ir margvíslegum fordómum. Þá verðum við
að muna að þótt Ísland sé eyja úti í miðju
hafi verðum við ekki slitin úr samhengi við
umheiminn. Allra síst nú á dögum þegar
tæknin færir hversdag fjarlægra heimshluta
beint inn í stofu og gerir mannkynið að ein-
um stórum frændgarði. Þó að fæst íslensk
börn lifi sem betur fer við þá fátækt og harð-
ræði sem Tryggvi þurfti að þola á eigin
skinni eru alltof mörg börn í heiminum sem
búa við skilyrði sem ekkert barn ætti að
þurfa að glíma við. Auðvitað ættu gildi eins
og kærleikur og samhygð að nægja til að við
réttum út hjálparhönd eins og okkur framast
er unnt, en við bætist einnig sú staðreynd að
eina björg mannkyns andspænis sameig-
inlegum ógnum, af völdum misskiptingar,
ófriðar og ágengni gagnvart umhverfinu, er
samvinna allra jarðarbúa. Og fullveldi lands-
ins, þó að langt sé að mörkum þess næsta, er
best tryggt með náinni samvinnu við aðrar
þjóðir. Þörf fyrir nýja stjórnarskrá sem virð-
ir nýja tíma og breytt viðhorf er því knýj-
andi.
Sköpunin og listin
En maðurinn lifir ekki af brauði einu saman.
Í bitru amstri dagsins sá fátæklingurinn
Tryggvi fegurðina allt í kringum sig og sótti
hugarfró í umhverfi sitt, sem hann lýsti af
næmni og ást. Hann áttaði sig líka á þeirri
takmarkalitlu orku sem býr í mannshug-
anum: „Mér var sagt að til væru menn sem
betur væru af guði gerðir en annað fólk og
hefðu til þess hendur að móta hugsanir sínar
í hart bergið, þeirra listaverk stæðu næst
sköpunarverkinu, en ég hafði aldrei séð neitt
slíkt. En þau höggverk sem blöstu mér við
augum dag hvern voru í klettum og klungr-
um, mótuð af veðrum, og gljúfragilin stand-
bröttu, brotin til brjóstvirkja af fallvötnum
og fossum.“ Þar sem mörg okkar sjá bara
fjöll sá Tryggvi undraheim og það sem mörg-
um virðist grátt er í augum listamannsins
skrýtt öllum litum heimsins og líklega á
Kjarval, öðrum fremur, stóran þátt í því að
þegar við horfum á hraunið fyrir fótum okk-
ar blasir við litróf veraldar. Sköpunin og list-
in eru ekki tilgangslítið dútl fólks sem hentar
illa til erfiðisvinnu, heldur mikilvægur drif-
kraftur framþróunar og okkur jafn nauðsyn-
legur hluti lífsins og súrefnið. Listin er auð-
vitað mikilvæg í sjálfri sér en hún er líka
spegill á samtímann, getur opnað óvænt
sjónarhorn á umheiminn og verið okkur dýr-
mætur vegvísir inn í óræða framtíð. Það var
ekki síst ímyndunaraflið sem gerði Tryggva
kleift að lyfta huganum yfir há fjöll úr þröng-
um dal og hjálpaði fátækum dreng að eygja
von: „Sjálfur var ég altekinn af ljúfum
draumum.“ Líklega hafa þó ekki hvarflað að
honum þær risabreytingar sem voru fram-
undan í samfélaginu og draumar hans sjálfs
mest verið tengdir góðum aðbúnaði, nægum
mat og ást.
Fjölbreytt tækifæri og hættur
Unglingar í dag eru fæstir færir um að
teikna upp jafn litríka og nákvæma mynd af
nærumhverfi sínu. Til þess hefur heimur
þeirra stækkað of mikið. Þau búa hins vegar
yfir miklu fjölbreyttari reynslu og þekkingu
en nokkur gengin kynslóð; eru vel að sér um
alla mögulega og ómögulega hluti, um alla
veröld. En það gerir líka líf þeirra flókið og
vandasamt. Á tímum gríðarlegra tæknibreyt-
inga opnast þeim stöðugt nýjar dyr. Handan
þeirra leynast vissulega ótal tækifæri og æv-
intýri en líka ógnir og hættur. Ekki endilega
í formi matarskorts og óblíðrar náttúru eins
og hjá Tryggva, heldur í stöðugu, óreiðu-
kenndu áreiti sem erfitt getur verið að henda
reiður á. Á flöktandi símaskjánum fá þau sí-
fellt skilaboð um hvernig þau eiga að líta út
og haga þér til að vera gjaldgeng í sam-
keppnisdrifnum heimi. Þessar kröfur geta
verið miskunnarlausar og þegar við bætast
krafa um hraðari námsframvindu og efna-
hagslega velgengni er ekki skrítið að þau
verði mörg kvíðin, ráðvillt og óviss um til-
gang sinn. Nýlegar rannsóknir á líðan og
geðheilbrigði barna og ungmenna gefa fullt
tilefni til að bregðast betur við. Það þarf að
búa betur að börnum og unglingum. Finna
jafnvægi milli leiks og starfs og hjálpa þeim
að eygja tilgang í því sem þau eru að fást við.
Sýna áhuga hvers og eins skilning og örva
hann. Gera þeim kleift að vaxa á styrkleikum
sínum í stað þess að hamra á veikleikum.
Auðvitað skiptir atlæti ástvina miklu en mikil
ábyrgð hvílir líka á skólunum. Augljósasta
leiðin til að búa okkur undir framtíð gríð-
arlegra breytinga, þar sem börn og ungling-
ar samtímans munu leika lykilhlutverk, er að
fjárfesta enn meira í menntun. Þar verður
markmiðið að vera að styrkja eiginleika eins
og frumleika, skapandi hugsun og tæknigetu
en einnig kennslu í dyggðum eins og sam-
hygð, virðingu og víðsýni.
Á hundrað ára fullveldisafmæli er full
ástæða til bjartsýni. Ísland er ríkt land og ef
við berum gæfu til þess að skipta gæðunum
jafnar og tryggja öllum aðgengi að gæða-
námi ævina út geta allir búið við viðunandi
aðstæður, upplifað fegurð og margbreyti-
leika lífsins og átt sér raunhæfa, fagra
drauma. Ef við temjum okkur meiri virðingu
fyrir hvert öðru, gleðjumst yfir fjölbreyti-
leika mannlífsins og tökumst á við stærstu
ógnir mannkyns í samvinnu við aðrar þjóðir
á Ísland sér góða framtíð og mannkynið fær-
ist enn eitt skrefið nær betri heimi. Gleðilegt
nýtt ár.
Morgunblaðið/Kristinn Magnúss
Með skapandi hugsun að vopni
Augljósasta leiðin til að búa okkur undir
framtíð gríðarlegra breytinga, þar sem börn
og unglingar samtímans munu leika lyk-
ilhlutverk, er að fjárfesta enn meira í menntun.
LOGI EINARSSON, FORMAÐUR SAMFYLKINGARINNAR
’’