Morgunblaðið - 31.12.2018, Side 70

Morgunblaðið - 31.12.2018, Side 70
70 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12. 2018 Maðurinn má sín lítils andspænis íslensku jökl- unum, eins og myndin á opnunni hér að framan vitnar glöggt um. Prentist myndin vel, eins og sagt var í gamla daga, má greina fjóra fjallagarpa á göngu á Hvannadalshnúk fyrr á þessu ári. En verð- ur það alltaf með þeim hætti? Fyrir liggur að jökl- arnir eru að bráðna og það hraðar en menn sáu fyr- ir. Og með þeim mikil saga, lands og þjóðar. Þar með talin eru tröll og vættir en flettir þú, les- andi góður, yfir á næstu opnu sérð þú tröllkarl mik- inn hvíla við jökulröndina. Andlitið er greinilegt ut- arlega á hægri síðunni. Svei mér ef yfir honum er ekki reisn í þokkabót. Hvenær tröllið sofnaði svefn- inum langa, rann í ís, er ómögulegt að segja en þau ár hlaupa að líkindum á hundruðum. Nú er sú saga senn á enda – ásamt óteljandi öðrum. Ekkert hægt að gera „Undanfarnir tveir áratugir hafa verið mjög þungir jöklunum. Rýrnun þeirra það sem af er þessari öld er örari en við þekkjum áður í Íslandssögunni,“ seg- ir Oddur Sigurðsson, sérfræðingur á sviði jökla- rannsókna á Veðurstofu Íslands. Og það sem verra er; of seint er að grípa til að- gerða til að stöðva þessa þróun. „Ég óttast og tel raunar líklegast að ekki sé hægt að gera neitt til að koma í veg fyrir að allir íslenskir jöklar hverfi á næstu tvöhundruð árum,“ heldur Oddur áfram. „Það er ekki á færi mannkynsins að koma í veg fyr- ir þetta úr því sem komið er.“ Spurður hvað þetta þýði fyrir Ísland segir Oddur hvarf jöklanna breyta óhemju mörgu. „Það er kannski ekki hægt að tala um það í hlutfallinu gott og illt. Það verður mikill sjónarsviptir af jöklunum. Flestum þykir þeir fallegir á að horfa, auk þess sem þeir eru auðvitað fróðleg náttúrufyrirbrigði sem geyma sögu sem hvergi er geymd annars staðar. Þegar jöklarnir verða horfnir verður sagan það einnig – hún verður runnin til sjávar og finnst aldrei aftur.“ Og hversu löng er sú saga? „Um það bil þúsund ár,“ svarar Oddur. „Elsti ís- inn í íslenskum jöklum er allt að þúsund ára gamall. Það er Íslandssagan nánast í heilu lagi sem hverfur á tvö hundruð árum. Það fara á hverju ári fimm ár af þessari sögu.“ Hefur séð marga jökla hverfa Spurður hvort Íslendingar geri sér almennt grein fyrir þessari þróun, þessari stöðu, svarar Oddur: „Nei, ekki finnst mér það almennt. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hvað þetta er brátt. Ég lifi það vitaskuld ekki að sjá alla jöklana hverfa og ekkert okkar sem uppi er í dag. Ég hef þó horft upp á myndarlega jökla hverfa ótrúlega hratt, eins og Okjökul. Sá hann bókstaflega hverfa fyrir augunum á mér. Það á við um marga fleiri, ég tók saman jöklatal Íslands um aldamótin síðustu og fór yfir þetta aftur í fyrra og taldist þá til að á milli fimmtíu og sextíu jöklar hefðu horfið á þessum sautján ár- um. Það er hátt hlutfall af þeim þrjú hundruð jökl- um sem til voru um aldamótin. Flestir voru þeir litl- ir, innan við einn ferkílómetri, en allt upp í rúmlega þrír ferkílómetrar, eins og Okjökull var um alda- mótin. Og hann hvarf á einum og hálfum áratug sem er býsna merkilegt.“ Jöklarnir munu hverfa hver á fætur öðrum en, að sögn Odds, mun þeim til skemmri tíma ekki fækka mikið, þar sem sumir jöklar klofna upp við það að rýrna og verða fyrst í stað að nokkrum jöklum. „Svo verða þeir horfnir innan tveggja alda.“ Öskulög hvergi eins áberandi Öskulögin í jöklunum eru áberandi í myndum Ragnars Axelssonar hér á opnunni og geyma ýms- ar kynjamyndir. Ef vel er gáð má greina risaauga kolkrabba og gyðju sem hallar sér aftur á þokka- fullan hátt. Annars les auðvitað hver myndirnar með sínu lagi og sér mögulega eitthvað allt annað. Oddur staðfestir að öskulög þekkist í meira mæli í jöklum hér en annars staðar í heiminum. Auðvitað séu öskulög víðar í jöklum, eins og til dæmis í Alaska, Suður-Ameríku og á Suðurskautslandinu, en hvergi sé þetta þó eins áberandi og hér. „Það kemur berlega fram í nýrri bók Ragnars, Jökull, og á sýningunni sem hann hélt í Ásmundarsafni fyrir skemmstu. Hann gerir mjög mikið úr þessum rönd- um, sem eru öskulögin, og forvitnilegt er að vita að á tilteknu öskulagi er ísinn jafn gamall. Öskulagið féll nánast á einum degi eða svo á allan jökulinn og fyrir vikið markar hvert öskulag tímaskil.“ Það er svo merkilegt að í hverju tilviki er hægt að finna út hvaða ár öskulagið féll og þar af leiðandi aldursgreina íslensku jöklana mjög nákvæmlega og ísinn í þeim. Og eitt korn nægir til að greina hvar eldgosið átti sér stað. „Það er rétt,“ segir Oddur. „Með því að efnagreina eitt korn úr öskulaginu má finna út frá hvaða eldstöð það er og hvaða ár askan féll. Guðrún Larsen og félagar á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hafa greint þessi öskulög mjög skilmerkilega í nokkrum jöklum, Tungnárjökli, Brúarjökli og víðar, og þannig aldursgreint ísinn ít- arlega. Þetta öskulagatímatal er mjög nýtileg arf- leifð frá Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi en hann tók hana upp eftir ábendingu frá Hákoni Bjarna- syni skógræktarstjóra, sem benti líklega fyrstur manna á þennan möguleika. Til að byrja með voru þeir í samstarfi um þessar rannsóknir en Sigurður hélt svo áfram og gerði þetta að vísindagrein. Dokt- orsritgerð hans frá 1944 fjallaði um þetta og hefur öskulagatímatal verið mikið notað, bæði hér heima og erlendis, sérstaklega í Japan.“ Veitir til almennings Íslenskir jöklar hafa lengi verið skráðir í myndum og á Oddur sjálfur þar hlut að máli. „RAX færir þetta hins vegar upp á annað stig; gerir þetta að listaverkum. Listamannsaugað gerir honum kleift að veita til almennings sérkennum og fegurð jökl- anna.“ Þessi orð kallast á við pælingar Ragnars sjálfs en þegar þeir Einar Geir, hönnuður bókarinnar og sýningarinnar, lögðu upp með bókina þá hugsuðu þeir hana sem óð til íslensku jöklanna, eins konar abstrakt ljóðabók þar sem ljóðið er myndin sjálf með sínum sögum í öskulögum aldanna sem tala til okkar. Það eru að vísu fáir sem sjá landið frá þessu sjónarhorni og upplifa því ekki andlitin og fígúrurn- ar í ísnum sem hverfa til hafs með tíð og tíma.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.