Morgunblaðið - 21.02.2019, Blaðsíða 20
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. FEBRÚAR 2019
Panodil filmuhúðaðar töflur, Panodil Zapp filmuhúðaðar töflur, Panodil Junior mixtúra, dreifa, Panodil Hot mixtúruduft, lausn til inntöku, Panodil Brus
freyðitöflur. Inniheldur paracetamól. Við vægum verkjum. Hitalækkandi. Til inntöku. Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og fylgiseðli fyrir notkun lyfsins.
Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is.
Veldu Panodil
sem hentar þér!
Verkjastillandi og
hitalækkandi
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Strax eftir komandi mánaðamót
munu fyrstu íbúarnir flytja inn í
fjölbýlishúsið við Urriðaholtsstræti í
Garðabæ sem reist hefur verið að
undirlagi IKEA á Íslandi. Alls eru
34 íbúðir í byggingunni og þessa
dagana eru iðnaðarmenn að setja
upp innréttingar og ýmsan hús-
búnað. Öryggisúttekt verður gerð í
næstu viku og komi ekkert óvænt
upp á ætti fólk að geta farið að koma
sér þarna fyrir. Fyrst verður í röð-
inni fjögurra manna fjölskylda,
starfsfólk IKEA, sem hefur verið á
hrakhólum. Þórarinn Ævarsson,
framkvæmdastjóri IKEA, segir
ánægjulegt að geta komið til móts
við þarfir fólksins. Húsnæðisvand-
inn á höfuðborgarsvæðinu komi í
ýmsu tilliti niður á atvinnulífinu og
því sé fyrirtækið nú að bregðast við.
Velvild bæjaryfirvalda
Af alls 34 íbúðum í húsinu eru
tuttugu á bilinu 25-35 fermetrar;
það er alrými með eldunaraðstöðu,
forstofugangur og baðherbergi.
Hinar íbúðirnar eru stærri eða í
kringum 65 fermetrar og svefn-
herbergin þar eru tvö. Hver íbúð
hefur sinn sérstaka stíl hvað varðar
innréttingar, gólfefni og liti. Engar
tvær eru alveg eins þó að stíllinn í
heild sé áþekkur. Húsið er alls fimm
hæðir og snúa stofugluggar og sval-
ir mót sólríku suðri. Svalainngangur
snýr til norðurs og þaðan sést vel yf-
ir Vífilsstaðahraun og að Garðabæ.
Þá er þetta fyrsta fjölbýlishúsið á
Íslandi sem byggt er eftir stöðlum
Svansins, sem er opinbert umhverf-
ismerki Norðurlandanna. Er allt
byggingarefni í húsið sérvalið sam-
kvæmt því.
Um tvö ár eru síðan framkvæmd-
irnar í Urriðaholti hófust en allt
ferlið segir Þórarinn hafa verið
mjög lærdómsríkt. „Frá upphafi
hefur útgangspunktur okkar verið
sá að íbúðirnar væru litlar en vel
skipulagðar og þar með notadrjúg-
ar. Það hefur okkur tekist. Hins
vegar er því ekki að leyna að miklar
kröfur eru í byggingareglugerð svo
sem um rými fyrir hjólastóla á bað-
herbergi, brunavarnir og fleira. Allt
þetta hefur hækkað ýmsan kostnað
og breytingar sem þurft hefur að
gera hafa tafið okkur, segir Þór-
arinn um verkefnið. Það segir hann
hafa notið mikillar velvildar bæj-
arstjórnar í Garðabæ og sú jákvæða
afstaða gert hlutina kleifa.
Kostar um 800 milljónir kr.
Það er Skip ehf., systurfélag
IKEA, sem á og rekur bygginguna
en samanlagður kostnaður við fram-
kvæmdir er um 800 milljónir króna.
Allar íbúðirnar fara í útleigu, 20
verður ráðstafað til starfsmanna
IKEA, en verslun fyrirtækisins er
þarna skammt frá. Hugsast getur að
fleiri fyrirtæki á þessum slóðum taki
einnig íbúðir og leigi áfram til sinna
starfsmanna. Ef ekki fara íbúðirnar
í almenna útleigu þar sem margir
eru um hituna. Leiguverðið er líka
hagstætt; um 135 þúsund kr. á mán-
uði fyrir minnstu íbúðirnar en um
220 þúsund fyrir þær stærri. Er þá
innifalinn hússjóður og gjald fyrir
háhraðanet.
„Þetta eru nokkru hærri upp-
hæðir en ég hafði væntingar um og
þar kemur til að lóða- og innviða-
gjöldin hér eru há og framkvæmda-
tíminn á þensluskeiði í byggingar-
iðnaði. Meðan á þessu hefur staðið
hefur svo ýmsu þurft að breyta til
að mæta nýjum áherslum í bygg-
ingareglugerðinni, en allt þetta fer
beint út í leiguverðið. Við höfum
hins vegar lært mikið á þessu verk-
efni og höfum það til hliðsjónar ef
við höldum áfram á þessari braut, “
segir Þórarinn.
Viljum ungt barnafólk
Við val á leigjendum í fjölbýlis-
húsið verður sérstaklega hugað að
félagslegri blöndun; það er jafnvægi
milli kynja og aldurs og annarra
slíkra þátta. „Hér viljum við sér-
staklega fá inn ungt barnafólk. Jú,
auðvitað eru þessar íbúðir pínulitlar
en sé horft til þess hvað fasteigna-
verð hér á höfuðborgarsvæðinu er
orðið hátt er í sjálfu sér ekkert
annað í boði fyrir ungt fólk sem er
að byrja búskap. Svo getur fólk
alltaf fært sig þegar hagur þess
vænkast eða fjölskyldan stækkar.
Og þó að starfsfólk okkar hjá
IKEA fái hér íbúðir á hagstæðu
verði er það alls ekki í vistar-
böndum. Það verður enginn settur
út á Guð og gaddinn,“ segir fram-
kvæmdastjóri IKEA að síðustu.
IKEA-blokkin í Garðabæ í gagnið
Morgunblaðið/Eggert
Samstarfsmenn Stefán R. Dagsson verslunarstjóri og Þórarinn Ævarsson framkvæmdastjóri fyrir utan fjölbýlishúsið sem er við Urriðaholtsstræti.
Eldhús Hugsað er fyrir öllu og hver fermetri er gjörnýttur. Tékk Engar tvær íbúðir eru nákvæmlega eins þótt svipurinn sé líkur.
34 notadrjúgar íbúðir og félagsleg blöndun Brugðist við húsnæðisvandanum Miklar kröfur í
reglugerð hækka leiguverðið Fyrsta Svansvottaða fjölbýlishúsið Enginn verður í vistarböndum