Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 2019, Page 18

Náttúrufræðingurinn - 2019, Page 18
Náttúrufræðingurinn 18 Auk svæðisins þar sem flóðbylgjan skapar hættu er rétt að huga að hættu á upptakasvæðum og í farvegum hugsan- legra berghlaupa og loks í hlaupurðinni sjálfri frá 2014. Þar kann að skapast hætta af völdum óstöðugra jarðlaga eða grjóthruns og eru þessi svæði einnig afmörkuð á hættumatskortinu. ÖNNUR NÁTTÚRUVÁ Að lokum er rétt að fara hér nokkrum orðum um aðra náttúruvá á svæðinu við Öskjuvatn. Eldgos í Öskju er augljós ógn við þá sem þar eru staddir þegar gos hefst. Ummerki um gjóskuhlaup frá 1875 og heimildir um það gos47 benda til þess að allir sem staddir eru innan meginöskjunnar séu í bráðri lífshættu í upphafi slíks goss. Fólki gefst mjög lítill tími til þess að forða sér sökum þess hversu skyndilega gos af þessum toga geta hafist, nema menn geti brugð- ist við áður en gosið byrjar. Því skiptir miklu máli að unnt sé að vara við slíku gosi fyrirfram. Einungis eitt sprengi- gos er þekkt í Öskju á nútíma annað en gosið 187547 og því má gera ráð fyrir að áhætta fyrir ferðamenn af völdum stórs sprengigoss sé vel viðunandi, eins og í tilviki flóðbylgju. Einstaklingsáhætta fyrir starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs og aðra starfsmenn við rannsóknir eða ferðaþjónustu, sem stundum dveljast á svæðinu marga daga á hverju sumri, er líklega einnig viðunandi en þó ekki fjarri mörkunum sem miðað er við í ofanflóðahættumatinu. Útbreiðsla gjóskuflóðsins 1875 takmarkaðist við meginöskjuna með lítilsháttar flæði yfir öskjubrúnina til suðvesturs.47 Í slíku gosi nær hættan sem fólki er búin því ekki til bílastæðisins við Vikraborgir þar sem lagt er upp í gönguferðir inn í Öskju, né heldur til skálasvæðisins við Drekagil, en við enn meira gos gæti þurft að hafa áhyggjur af fólki þar líka. Líkur á slíku gosi eru væntanlega talsvert minni en á gosi af sömu stærð og 1875 og áhætta sem reiknast af völdum stórgoss af þeim toga fyrir menn er því hverfandi. Hætta á hópslysi af völdum sprengi- goss er líklega svipuð eða jafnvel meiri en við berghlaup og flóðbylgju af völdum þess, vegna þess að hættan nær til miklu stærra svæðis þar sem allir þeir dveljast sem um Öskju fara í allmargar klukkustundir í hverri heim- sókn. Því er jafnbrýnt að huga að hættu í tengslum við eldgos og berghlaup þegar gerð er áætlun um viðbúnað til þess að tryggja öryggi fólks sem fer um eða starfar í grennd við Öskju. Mikilvæg- asta öryggisráðstöfunin er eftirlitskerfi sem gerir kleift að greina forboða um að eldgos sé að hefjast ásamt áætlun um rýmingu svæðisins sem þá kann að vera í hættu. Líklegt er að eldgos í Öskju hafi nokkurn aðdraganda og að hans verði vart á jarðskjálftamælum og með ýmsum öðrum forboðum, þannig að forða megi fólki af svæðinu með góðum fyrirvara. Slíkur fyrirvari gefst að öllum líkindum ekki fyrir berghlaup og flóð- bylgju og því er dreifing upplýsinga og viðvarana til ferðafólks og annarra sem um Öskju fara mikilvægari í viðbúnaði vegna flóðbylgjunnar. UMRÆÐA Berghlaupið í Öskju í júlí 2014 er eitt mesta berghlaup á sögulegum tíma á Íslandi, að þeim undanteknum sem kunna að hafa fallið meðan á eldgosi stóð. Upptök hlaupsins voru í brún öskj- unnar suðaustanverðrar en mælingar á jarðskorpuhreyfingum sýna að askjan er enn að síga eftir gosið 1875 og veldur það spennubreytingum í bergi og óstöð- ugleika á misgengjum. Hægfara hreyf- ing virðist hafa verið á berginu í brún öskjunnar að minnsta kosti frá árinu 2007. Berghlaupið gekk út í Öskjuvatn og kom af stað flóðbylgju sem skolað- ist tugi metra upp á bakkana í kringum vatnið. Líkanreikningar sýna flókið samspil í bylgjuhreyfingu á vatninu þar sem bylgjur sem endurkastast frá bökk- unum samliðast bylgjum sem berast frá ströndinni þar sem berghlaupið féll. Reikningarnir gera kleift að meta hættu- svæði við vatnið af völdum berghlaupa af mismunandi stærð frá nokkrum hugsanlegum upptakasvæðum í öskju- börmunum. Niðurstaða hættumats er að áhætta fyrir einstaklinga af völdum berghlaupa í Öskju sé ekki mikil en þó sé tilefni til ákveðinna aðgerða til þess að draga úr slysahættu fyrir þá sem oft eiga leið um svæðið við Öskjuvatn. Eðlilegt er að fólk sem fer um Öskju sé varað við hættu á skriðuföllum og flóðbylgjum með áberandi hætti þegar það kemur inn á svæðið og að mælt sé með því að það dveljist ekki langdvölum við vatnið. Einnig er rétt að beina þeim tilmælum til ferðaþjónustuaðila að þeir skipuleggi ferðir um svæðið þannig að ekki sé staldrað við niðri við vatnið til þess að matast eða koma á framfæri fræðslu um svæðið. Aðrir sem erindi eiga á svæðið, svo sem vísindamenn, geta einnig hagað störfum sínum þannig að viðdvöl við vatnið sjálft sé tiltölu- lega skömm. Jafnframt er mælt með því að stofnanir og fyrirtæki með starf- semi á svæðinu geri viðbragðsáætlun vegna starfsmanna sinna og að þeir séu upplýstir um þá hættu sem kann að vera fyrir hendi og hvernig eigi að bregðast við. Svæði við bakka Öskjuvatns þar sem flóðbylgjur geta skapað hættu hafa verið afmörkuð á hættumatskorti og jafnframt svæði sem talin eru varhuga- verð vegna óstöðugra jarðlaga. Berghlaupið í Öskju og nýfallið fram- hlaup úr Fagraskógarfjalli í Hítardal í júlí 2018, sem var svipað að stærð, eru nýlegar áminningar um hættuna sem felst í stórum berghlaupum og fram- hlaupum hér á landi. Þessi hlaup ollu sem betur fer ekki slysum og tiltölu- lega litlu tjóni. Þau féllu hins vegar bæði á svæðum sem ferðafólk fer oft um og ljóst er að illa hefði farið ef fólk hefði verið þar sem hlaupin féllu eða afleiðinga þeirra gætti. Hætta á stórum framhlaupum kann að fara vaxandi hér á landi með hlýnandi loftslagi, sérstak- lega þar sem sífreri í hlíðum þiðnar48 og þar sem skriðjöklar hopa hratt.49 Þar sem jöklar hopa og þynnast skilja þeir eftir brattar hlíðar sem eru ekki í jafnvægi við roföflin. Hlíðarnar geta hrunið niður á jöklana, eins og við Steinsholtsjökul í janúar 19674,5 og á Morsárjökul í mars 2007,50 í miklum berghlaupum sem ferð- ast jafnvel langt niður fyrir jökulsporð- ana. Hættulegar skriður geta einnig fallið úr bröttum jökulurðum við jökulsporða og jökullón þar sem jöklar hafa hopað. Nú fer miklu fleira fólk en áður um svæði í grennd við hlíðar sem geta af þessum ástæðum verið mun óstöðugri en áður. Huga þarf að vísbendingum um óstöð- ugleika í hlíðum við hörfandi jökla og þar sem sífreri kann að leynast í bröttu fjalllendi, og vara við skriðuföllum þar sem vísbendingar um yfirvofandi hættu er að finna. Einnig þarf að fylgjast með sprungumyndun og hreyfingu á þekktum sprungum við eldstöðvar og í brattlendi þar sem skriður geta fallið, sérstaklega í grennd við fjölsótta ferðamannastaði.

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.