Morgunblaðið - 10.08.2019, Side 35

Morgunblaðið - 10.08.2019, Side 35
MINNINGAR 35 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 10. ÁGÚST 2019 stein og öllu sem hann fjallaði um gerði hann góð og eftirminni- leg skil. Kynni okkur hófust þegar við komum bæði inn í óformlegan gönguklúbb nokkurra kunningja sem kölluðu sig „Labb-rabb“. Hópurinn hittist reglulega á léttum gönguferðum um bæinn og settist að þeim loknum að veitingum á nálægu kaffihúsi þar sem mál voru brotin til mergjar, fjallað um listir og menningu, pólitík og hvaðeina. Þegar fram í sótti var heitinu breytt í „Skref fyrir skref“ enda voru göngutúrarnir þá orðnir aukaatriði en þess meira lagt upp úr upplífgandi samræðum. Seinna varð til annar fé- lagsskapur sem við tilheyrðum líka. Það var „desemberhópur- inn“ svokallaði sem frá 1999 hef- ur komið saman á heimili vina okkar, Baldurs og Möggu. Þrátt fyrir fráfall Baldurs 2013 héldu vinirnir áfram að hittast í hans minningu og vináttuböndin styrktust enn frekar. Frey- steinn lét sig aldrei vanta meðan heilsa hans leyfði. Hann var hrókur alls fagnaðar í þessum félagsskap og góðs nutum við alltaf af nærveru hans. En öllu er afmörkuð stund. Nú hefur á verið stemmd að ósi, þaðan sem vinur okkar ýtir frá landi út á eilífðarsæinn. Við hin horfum á eftir honum í anda, minnumst góðra stunda þegar glatt var á hjalla og andinn fór á flug. Megi þýðvindar hlýrra hugsana og þakklætis okkar greiða hans för. Fyrir hönd „desember- hópsins“, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Freysteinn Jóhannsson hefur lagt frá sér pennann. Við það hefur blaðamannastéttin misst úr sínum röðum einn sinn besta liðsmann því hann var meistari hins ritaða orðs. Það kom engin froða úr penna Freysteins held- ur heilsteyptur og vel ígrundað- ur texti; grjótharðar fréttir, um- fjöllun um menningu og listir og viðtöl – sem voru hans aðal. Vegna sinna góðu eiginleika var hann valinn snemma til fréttastjórnar því hann var fag- legur fréttamaður, sanngjarn yf- irmaður og góður leiðbeinandi. Hugur hans stóð þó ekki til ver- aldlegra metorða, hann vildi bara fá að gera það sem hann gerði best – að skrifa – og baðst undan stjórnunarstörfum þótt hann gripi í þau af og til síðustu árin af tómri greiðasemi og tryggð við sinn gamla vinnustað. Freysteinn var heill í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Ekki var til í honum fals eða undir- ferli, hann fyrirleit allt slíkt. Hann fór ekki í manngreinarálit. Eitt sinn, þegar hann var frétta- stjóri menningar- og lista, tók hann í hnakkadrambið á þekkt- um listamanni og bókstaflega henti honum út úr Morgunblaðs- húsinu fyrir að hafa verið dóna- legur við samstarfskonu. Hann var hreinskilinn með afbrigðum, jafnvel svo sumum þótti nóg um, og hann lá ekki á skoðunum sínum. Hann gat reytt af sér brandara og lagði iðulega tölu- verða vinnu í að undirbúa góða hrekki. Stundum heppnuðust þeir fullkomlega og þá tók hann bakföll og hló rosalega. Aðrir hrekkir náðu ekki út af teikni- borðinu en það spillti ekki gleðinni því hann gat skemmt sér lengi við tilhugsunina um hugsanleg viðbrögð þess sem átti að hrekkja. Í eðli sínu var hann þó enginn galgopi. Hann hafði sterka rétt- lætiskennd, var ósérhlífinn en mjúkur og djúpt hugsandi. Hin einlægu og myndrænu ljóð hans bera vitni um það. Hann elskaði bókmenntir, ljóðlist, tónlist, hann mátti ekkert aumt sjá án þess að bregðast við. Hann elsk- aði fjölskyldu sína, afaljósin, starfið sitt og hesta. En mest af öllu elskaði hann elsku Gústu sem var hans sól, tungl og stjörnur. Fyrir hana lifði hann og í hennar örmum dó hann. Lífsbók Freysteins er ekki fullskrifuð þó að hann sé búinn að skila sínu framlagi. Ástvinir hans og samferðafólk munu halda áfram að bæta í hana köfl- um með því að tala um hann, læra af honum, velta fyrir sér hvernig hann hefði brugðist við aðstæðum, því hans stóra nær- vera lifir enn góðu lífi í sál þeirra er hann þekktu. Við Gústa eig- um eftir að skrifa nokkra kafla saman. Þá verður Freysteinn með okkur og það verður gaman. Ég ætla því ekki að kveðja minn kæra vin og lærimeistara hinstu kveðju, hann er ekki horf- inn mér. Hann er bara staddur í öðrum kafla í lífsbókinni. Ég get alltaf flett í henni og hitt hann í einhverjum kafla sem hann skrifaði sjálfur – því það eru bestu kaflarnir. Guðlaug Sigrún Sigurðardóttir (Lauga). Góður drengur og kær vinur er kvaddur, endalausar myndir og minningar. Samstarf í áratugi sem aldrei bar skugga á. Frey- steinn í essinu sínu á stórum fréttadögum, sveifla á okkar manni. Flinkur blaðamaður og sterkur hlekkur í ótrúlega sam- hentum hópi á miklum vel- mektarárum Morgunblaðsins. Á heimavelli á lendum íslensk- unnar. Lifandi í hverju sem hann tók sér fyrir hendur. Endalaust spjall að loknum vinnudegi, stundum skeggrætt um blaðsins gagn og nauðsynjar, stundum skrafað um allt og ekk- ert. Bakföll af hlátri yfir góðri sögu, ekki verra ef koníak var í glasi. Gustmikill ef því var að skipta, raungóður og mjúkur ef verkefni æxluðust þannig. Elsk- aði lífið, sem úthlutaði honum þó óendanlega mörgum brekkum. Síðustu ár erfið og gott að eiga klettinn Gústu þá að bakhjarli. Við leiðarlok er þakkað fyrir samfylgd, samvinnu og vináttu. Blessuð sé minning Freysteins Jóhannssonar. Ágúst Ingi Jónsson, Sigtr. Sigtryggsson. Freysteinn Jóhannsson var blaðamaður fram í fingurgóma. Mín fyrstu kynni af honum voru snemma á níunda áratugnum. Ég var að stíga mín fyrstu skref í blaðamennsku og hann var í öflugu liði fréttastjóra á Morgunblaðinu. Ég átti að vinna frétt upp úr fréttatilkynningu og var sendur öfugur til baka með afraksturinn með þeim orðum að ég skyldi ekki koma aftur fyrr en ég hefði fundið almennilega fyrirsögn á skrifin. Freysteinn var mikill á velli, kraftmikill og með sterka rödd. Hann var fljótur að sjá í gegnum froðu og snakk og komast að kjarna málsins og vildi að blaða- menn hans gerðu slíkt hið sama. Hann lá ekki á skoðunum sínum og sagði bæði kost og löst. Betra uppeldi gat reynslulaus glanni í blaðamennsku ekki fengið. Morgunblaðið veður ekki inn á skítugum skónum, sagði hann einhvern tímann og þagði augnablik áður en hann bætti við: Við förum fyrst úr skónum og síðan förum við inn. Þessi orð eru í raun kjarni þeirrar blaðamennsku sem hann vildi að stunduð væri. Morgun- blaðið kynni sig og færi ekki fram með yfirgangi og látum, en héldi hins vegar áfram að knýja á um svör þar til þau væru fengin. Og svörin vildi hann fá, hvort sem hann var sjálfur á höttum eftir fréttinni eða var í hlutverki fréttastjóra. „Það er einn mikil- vægasti eiginleiki blaðamanns að vera úrræðagóður og missa aldrei sjónar á fréttinni. Reyna alveg í drep,“ sagði hann í við- talsbókinni Í hörðum slag. En Freysteinn var ekki bara fréttahaukur. Hann var slyngur á öllum sviðum blaðamennsk- unnar eins og kom berlega í ljós þegar hann lét af fréttastjórn og tók til við skrif á ný. Þá varð helgarútgáfa blaðsins hans vettvangur og skrifaði hann mörg frábær viðtöl. Hann átti auðvelt með að nálgast við- mælendur sína og þeir voru fúsir til að opna sig fyrir honum. Freysteinn hafði snemma til- einkað sér hraðritun. Honum fannst lítið til upptökutækn- innar koma og skrifaði allt hjá sér. Þegar viðtalinu var lokið varð að hafa hraðar hendur við að skrifa glósurnar upp. Sú gáfa að geta þetta er ekki öllum gefin og ráðgáta þeim, sem ekki hafa hana. Það voru forréttindi að fá að vinna með og kynnast Frey- steini. Hann kann að hafa virst hrjúfur við fyrstu viðkynningu, en undir yfirborðinu leyndist einstakt ljúfmenni. Hann kunni vel að meta góðar sögur og hafði ekki síður gaman af að segja frá. Ef sagan var sérstaklega góð kom skelmislegur kímniglampi í augun á honum og breitt bros birtist í skegginu. Freysteinn og Morgunblaðið áttu samleið í fjóra farsæla ára- tugi. Hann var einn af mörgum sem settu mark sitt á blaðið á þessum tíma og stuðluðu að vexti þess og viðgangi. Sam- starfsmenn Freysteins og fé- lagar á Morgunblaðinu minnast hans með söknuði og hlýju og senda fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur. Karl Blöndal aðstoðarritstjóri. Einn minn kærasti vinur í áratugi er fallinn frá, Freysteinn Jóhannsson, fyrrverandi frétta- stjóri á Morgunblaðinu. Margir myndu segja að Freysteinn hafi dáið langt um aldur fram og dauði hans hafi því verið ótíma- bær. Ég er ekki í þeim hópi, enda veit ég að síðustu æviár vinar míns voru honum erfið og raunar mikil þrautaganga, vegna mikilla og nánast síendur- tekinna heilsuáfalla. Ég trúi því að vinur minn hafi verið hvíld- inni feginn. Okkar kynni hófust 1. apríl 1984, daginn sem ég hóf störf á Morgunblaðinu. Styrmir Gunn- arsson ritstjóri fylgdi mér inn á fréttafund, sem Freysteinn, vakthafandi fréttastjóri, stýrði. Styrmir kynnti mig og sagði að ég væri nýr liðsauki á innlendu fréttadeildinni. Blaðamenn Morgunblaðsins ættu þó að þekkja upphafsstafi mína, AB, sem ósjaldan hefðu birst undir forsíðufréttum Tímans. Þar með hvarf Styrmir a braut, en frétta- stjórinn Freysteinn bauð mig hjartanlega velkomna til starfa. Mér fannst hann gera það af hlýju og einlægni og frá þeirri stundu þótti mér vænt um hann. Við urðum fljótt vinir og aldrei bar skugga á þá vináttu. Ekki þann rúma aldarfjórðung sem við unnum saman og ekki þau tíu ár sem liðin eru frá því að Frey- steinn hætti á Morgunblaðinu. Einn blaðamaður sem þá starfaði á Mogga hafði ekki sömu sýn á liðsaukann og rit- stjórinn og fréttastjórinn, því hann sagði einfaldlega: „Ég ætla rétt að vona að þetta hafi verið aprílgabb ritstjórans!“ Þessi orð blaðamannsins vöktu hlátur ein- hverra blaðamannanna, en Freysteinn þaggaði snöfur- mannlega niður í þeim. Enginn leit á mig sem aprílgabb eftir þennan fund. Þetta var upphafið að sam- vinnu og vináttu okkar Frey- steins. Hann var augljóslega alltaf í hlutverki mentorsins og ég fróðleiksfúsi nemandinn hans. Freysteinn var afburða blaða- maður, víðlesinn, skrifaði lit- ríkan og frábæran texta og alltaf tilbúinn að leiðbeina okkur sem reynsluminni vorum á uppbyggi- legan hátt. Hann kunni að gagn- rýna án þess að særa og þegar hann taldi að við, undirmenn hans, hefðum gert vel, jafnvel frábærlega, þá lá hann ekki heldur á þeirri skoðun. Oft hugs- aði ég, eftir að ég var komin í fréttastjórastöðu á blaðinu, hví- lík fyrirmynd hann væri og hversu langt ég ætti í land að geta stýrt mínu liði eins og hann gerði, hvort sem var á menning- ardeild, innlendri fréttadeild eða viðskiptafréttadeild Morgun- blaðsins. En alltaf mátti ég í ofangreindum störfum leita í smiðju til hans og kom aldrei að tómum kofunum. Freysteinn fékk að kynnast ómældum erfiðleikum og sorg þegar Siddý heitin, fyrri eigin- kona hans, greindist með MND- sjúkdóminn, sem eftir áralanga baráttu þeirra beggja dró hana til dauða árið 1993. Því var það okkur vinum hans og félögum á Mogga mikið gleði- efni þegar hann fann hamingj- una á ný, með henni elsku Gústu sinni, og gamalkunni glettnis- glampinn varð aftur reglulegur fylgifiskur augna hans. Mér hlotnaðist sá heiður að fá að vera í gullfallegu, fámennu, hjartnæmu og ógleymanlegu brúðkaupi þeirra Freysteins og Gústu árið 1996. Þau voru ekki bara einstak- lega fallega ástfangin, heldur svo miklir félagar og vinir, að ég hugsaði oft þvílík gæfa það væri að þau skyldu finna hvort annað. Gústa hefur undanfarin ár verið klettur Freysteins í hafinu, enda dó hann í örmum hennar og ég veit að hvergi annars staðar hefur hann viljað fá hinstu hvíld- ina. Elsku Gústa og fjölskylda. Ég bið góðan guð að styrkja ykkur í því sorgarferli sem þið nú gang- ið í gegnum. Geymið alltaf í minningunni allar gleðistundirn- ar frá þeim árum sem allt lék í lyndi. Það mun ég gera og mun rifja upp þau óteljandi skipti sem Freysteinn með sínum leiftrandi gáfum og óborganlega húmor kom mér til að hlæja. Ég verð alltaf þakklát fyrir meira en 35 ára vináttu Freysteins. Agnes Bragadóttir. Á síðustu áratugum 20. aldar- innar varð til á ritstjórn Morgunblaðsins mjög öflugur og samstæður hópur ungs fólks, sem smátt og smátt varð burðar- ásinn í útgáfu blaðsins. Eitt sinn komum við Haraldur Sveinsson, framkvæmdastjóri blaðsins og einn af helztu eigendum Ár- vakurs hf. á þeim tíma, fram saman í útvarpsþætti, sem sennilega hefur tengzt einhverju afmæli blaðsins. Haraldur var spurður hver væri lykillinn að velgengni Morgunblaðsins á þeim tíma og svar hans var: Að ná í gott fólk. Freysteinn Jóhannsson, sem nú er látinn, var einn af því góða fólki sem á þeim tíma kom við sögu Morgunblaðsins. Hann hóf starf sem blaðamaður en varð síðar einn af stjórnendum á ritstjórninni. Hann var fjöl- hæfur starfsmaður og jafnvígur á mörgum sviðum blaða- mennsku. Eitt af þeim sviðum blaða- mennskunnar sem hentuðu ekki öllum var umfjöllun um menn- ingarmál. Það viðmót sem skáld og rithöfundar, listmálarar og tónlistarmenn fengu á ritstjórn- inni skipti miklu máli fyrir blaðið sjálft. Freysteinn hafði ríkan skilning á þeim málefnum sem að þessum hópum sneru. Sumarið 1978 er mér eftir- minnilegt frá þeim árum vegna þess að þá urðu ákveðin þátta- skil í starfsemi ritstjórnar Morgunblaðsins. Sjálfstæðis- flokkurinn hafði beðið mikið af- hroð í tvennum kosningum þá um vorið og sumarið. Fyrst hafði flokkurinn tapað meirihluta sín- um í borgarstjórn Reykjavíkur, svo fékk hann eina verstu út- komu sögu sinnar í þingkosning- um nokkrum vikum síðar. Okkur Matthíasi Johannessen varð ljóst að þeir tímar væru liðnir að Morgunblaðið setti á sig silkihanzka í umfjöllun um Sjálfstæðisflokkinn. Ég átti samtal við Geir Hallgrímsson, sem þá var bæði formaður Sjálf- stæðisflokksins og formaður út- gáfustjórnar Morgunblaðsins, og lýsti fyrir honum þeim sjónarmiðum okkar að nú væri kominn tími á að blaðið fjallaði með sama hætti um Sjálfstæðis- flokkinn og aðra flokka. Geir kvaðst vera sammála þeim sjónarmiðum. Eftir það samtal má segja að þúsund blóm hafi blómstrað á síðum Morgunblaðsins það sum- ar í umfjöllun um þær breyting- ar sem þá voru að verða í pólitík- inni. Hópi hæfileikamikilla blaða- manna – og Freysteinn var einn af þeim – voru nánast gefnar frjálsar hendur í umfjöllun um breytta stöðu í umfjöllun um stjórnmálaflokkana og þar með Sjálfstæðisflokkinn líka. Sumar þeirra fréttaskýringa voru eins konar hópvinna þeirra tveggja og þriggja saman. Það var eins og blaðið hefði fengið nýtt líf og svo opin og frjáls umfjöllun um Sjálfstæðisflokkinn mæltist vel fyrir meðal lesenda blaðsins. Og það sem skipti ekki minna máli var að hæfileikar blaðamann- anna nutu sín til hins ýtrasta. Einn af beztu kostum Frey- steins Jóhannssonar sem sam- starfsmanns á Morgunblaði þeirra ára var að hann sagði rit- stjórum blaðsins alltaf hug sinn allan, og var reyndar ekki einn um það. Það opna samfélag sem varð til á Morgunblaðinu náði inn á síður blaðsins. Samstarfskonu minni á Morgunblaðinu til margra ára, Jónu Ágústu, eiginkonu Frey- steins, votta ég samúð mína. Styrmir Gunnarsson. Stjórnmálaskrif voru sérgrein Freysteins á fyrri hluta blaðamannaferils hans. Hér ræðir hann við stjórnmálamennina Steingrím Hermannsson, Benedikt Gröndal og Tómas Árnason. Líklegt má telja að viðtalið tengist stjórnarmyndunarviðræðum.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.