Skessuhorn - 13.05.2015, Blaðsíða 24
24 MIÐVIKUDAGUR 13. MAÍ 2015
„Ég tók við starfinu 20. apríl, það
er ekki lengra síðan,“ sagði Guðrún
S. Hilmisdóttir, nýr sviðsstjóri um-
hverfis- og skipulagssviðs Borgar-
byggðar, þegar blaðamaður heim-
sótti hana í síðustu viku. „Hér er
vant og reynslumikið starfsfólk, mér
líst vel á starfið og vonandi gengur
allt vel. Ég er bara mjög jákvæð fyrir
þessu og er líka mjög spennt að flytja
hingað í Borgarnes. Við erum búin
að fá leiguíbúð á Sæunnargötu. Þar
er útsýni yfir Hafnarfjall og fjörð-
inn,“ bætir hún við.
Guðrún er gift Gunnari Sigur-
jónssyni sem er fulltrúi hjá Einka-
leyfastofu en kennari að mennt.
Saman eiga þau tvö börn, Elín-
borgu Huldu hálfþrítuga og Jóhann
Hilmi sem stendur á tvítugu. Þau
munu búa áfram í höfuðborginni en
Gunnar ætlar að elta Guðrúnu upp
í Borgarnes, á Sæunnargötuna. En
þetta verður ekki í fyrsta skipti sem
hún býr í bænum þar sem Hvítá fell-
ur í sæ. „Foreldrar mínir eru Þingey-
ingar, við bjuggum á Húsavík þang-
að til ég var átta ára og svo fluttum
við hingað í Borgarnes og ég bjó þar
þangað til ég var 16 ára,“ segir Guð-
rún. „Foreldrar mínir flytja síðan á
Sauðárkrók 1972 þegar ég er 16 ára
og ég fylgdi hálfpartinn með. Hóf
nám í Menntaskólanum við Hamra-
hlíð það árið og vann á Króknum á
sumrin. Þetta hefur verið árið 1972.
Ég fór í MH af því mér þótti áfanga-
kerfið svo spennandi, það var þá ný-
tilkomið,“ segir Guðrún, en MH var
einmitt fyrsti skólinn sem tók upp
áfangakerfi til stúdentsprófs og hef-
ur árgangur Guðrúnar verið sá fyrsti
sem það bauðst.
„Ég útskrifast svo með stúdents-
próf af tveimur brautum, náttúru- og
eðlisfræðibraut. Það var svolítil vinna
en mér fannst þetta mjög spennandi.
Það var mikil gerjun í MH á þess-
um tíma og mjög gaman. Örnólfur
Thorlacius var þarna og fleiri mjög
flottir kennarar,“ segir Guðrún.
Meistarapróf frá DTU
Úr MH lá leiðin í Háskóla Íslands
þar sem hún hóf nám í bygginga-
verkfræði og lauk BS prófi þaðan
árið 1980. Við tók vinna á verkfræði-
stofum og eitt fyrsta verkefni Guð-
rúnar var lagning hitaveitu á Hólum
í Hjaltadal. „Síðan fór ég í mennta-
málaráðuneytið í nokkur ár. Þá var
ráðuneytið að gera samninga við
sveitafélögin vegna skólabygginga.
Þá var það þannig að ef til stóð að
byggja skóla lagði ríkið til helm-
ing byggingarkostnaðar til móts við
sveitarfélagið. Það var allt gert eft-
ir ákveðnum viðmiðum og þurfti
að fylgja ströngustu reglugerðum,“
segir Guðrún. „Síðan flyt ég til
Danmerkur árið 1984 og hef nám í
DTH, sem núna heitir DTU [Dan-
marks Tekniske Universitet]. Ég var
þar í tvö ár og útskrifast árið 1986
með meistarapróf í byggingaverk-
fræði. Það var góður tími, í Kaup-
mannahöfn,“ bætir hún við.
Að Danmerkurdvölinni lokinni
snýr Guðrún heim til Íslands og hef-
ur aftur störf hjá menntamálaráðu-
neytinu og svo hjá Sambandi ís-
lenskra sveitarfélaga, þar sem hún
starfaði mest að umhverfismálum.
Við taka nokkur ár á verkfræðistof-
um, meðal annars hjá Hönnun og
Eski. „Ég enda síðan hjá Reykjavík-
urborg hjá embætti Borgarverkfræð-
ings, sem síðar varð að umhverf-
is- og skipulagssviði. Þar var ég frá
árinu 2000 og þangað til 17. apríl
síðastliðinn þegar ég segi upp og
ákveð að koma hingað,“ segir Guð-
rún og brosir.
Syngur og málar
Guðrún er listhneigð og áhugamál
hennar endurspegla það. Hún hefur
gaman af söng og hefur sungið með
Kvennakór Reykjavíkur í 15 ár, þar
syngur hún nú rödd fyrsta sóprans.
„Ég mála líka dálítið,“ segir Guðrún.
„Hef mikið málað vatnslitamyndir
og er bara nokkuð flink með vatns-
litina. Ég mála þá helst landslag og
landslagstengt. Ég hef líka gaman
af því að ferðast og fattaði einhvern
tímann að ég fer alltaf á söfn þegar
ég ferðast. Þetta eru alls konar söfn
en ég myndi segja að ég væri nokk-
uð nútímaleg, hef mest gaman af nú-
tímalist,“ segir Guðrún og nefnir
Tate safnið í London í því samhengi,
safn nú- og samtímalistar.
Einnig kveðst hún lesa mikið og
þá séu glæpasögur í uppáhaldi. „Það
eru íslensku og norrænu krimmarnir
sem ég les mest, finnst margir flott-
ir höfundar þar,“ segir hún og verð-
ur hugsað til jólanna sem einkennast
af bókalestri. „Ég fæ oft glæpasögur
í jólagjöf og les ég þær oftast bara í
beit. Það er voða gaman að týna sér
í bók og átta sig síðan á að klukkan
er allt í einu orðin kannski fjögur um
nótt,“ segir Guðrún.
Að lokum minnist hún ferðar
sem hún fór síðastliðið haust ásamt
gömlum félögum. „Gamli grunn-
skólabekkurinn minn hittist í ágúst í
fyrra. Það var farið um Borgarfjörð-
inn og meðal annars komið hingað í
Borgarnes. Mér datt ekki í hug þá að
hálfu ári síðar myndi ég flytja hing-
að. Skrítið hvernig lífið fer stundum
í hringi,“ segir Guðrún að lokum og
brosir.
kgk
„Lífið fer stundum í hringi“
Segir Guðrún S. Hilmisdóttir sem nýverið tók við sviðsstjórastarfi hjá Borgarbyggð
Guðrún S. Hilmisdóttir, nýr sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Borgarbyggðar.
„Samtök ferðaþjónustunnar (SAF)
lýsa yfir ánægju sinni með að ráð-
herra ferðamála hafi nú tekið þá
ákvörðun að draga allar hugmynd-
ir um náttúrupassa til baka. Eft-
ir stendur hins vegar það brýna
verkefni að byggja upp við fjölsótta
ferðamannastaði. Margar náttúru-
perlur í landinu eru komnar að þol-
mörkum og því ljóst að aðgerða er
þörf. SAF taka heilshugar undir til-
lögu ráðherra ferðamála þess efnis
að uppbyggingin verði fjármögn-
uð í gegnum fjárlög. Slíkt fyrir-
komulag er í samræmi við þá um-
sögn sem samtökin sendu frá sér í
tengslum við frumvarp um náttúru-
passa,“ segir í tilkynningu.
Þá segir að ljóst sé að ferðaþjón-
ustan er orðin leiðandi atvinnugrein
hér á landi. „Greinin aflar þjóðar-
búinu gríðarlegra tekna, skapar at-
vinnu, eflir byggðarlög um allt land
og styður svo um munar við aðrar
atvinnugreinar. Rétt er að geta þess
að um næstu áramót mun ferða-
þjónustan öll fara inn í virðisauka-
skattskerfið og þannig tryggja rík-
issjóði enn frekari tekjur af grein-
inni. Í ljósi mikils tekjuauka ríkis-
sjóðs er eðlilegt að uppbygging og
viðhald ferðamannastaða sé sett í
forgang og stjórnvöld tryggi strax
opinbert fjármagn til nauðsynlegr-
ar uppbyggingar grunnþjónustu
ferðamannastaða. Framkvæmda-
sjóður ferðamannastaða er best
til þess fallinn að stuðla að þessari
nauðsynlegu uppbyggingu. Tryggja
þarf sjóðnum nægjanleg fjárfram-
lög á þessu ári og því næsta þann-
ig að hann geti sinnt hlutverki sínu
með sóma.“
mm
Á laugardaginn næsta klukkan 15
verður opnuð sýning sumarsins
í Leir7 í Stykkishólmi. Sýning-
in nefnist Snúningur- Núningur.
„Átta listamenn sem aðallega fást
við málverk í sinni myndlist sýna
þar myndir af keramiki. Hver og
einn hefur valið einn keramikhlut
sem fyrirmynd og túlkar hann á
sinn veg. Forvitnilegt er að skoða
hvernig listamennirnir nálgast bil-
ið á milli tvívíddar og þrívíddar,
hvernig hið jarðbundna keramik
fer á flug í málverkinu eftir sýn
hvers og eins,“ segir í tilkynningu
vegna fyrirhugaðrar sýningar.
Helgi Þorgils Friðjónsson er sýn-
ingastjóri og verður einnig með
verk á sýningunni. Hann hefur val-
ið og boðið til þátttöku fjölbreytt-
um hópi myndlistarmanna en auk
hans er þau Jóhanna Kristbjörg
Sigurðardóttir, Valgerður Guð-
laugsdóttir, Erla Þórarinsdóttir,
Lisa Milroy, Helgi Már Kristins-
son, Birgir Snæbjörn Birgisson og
Guðjón Ketilsson.
Í hugleiðingum Helga Þorgils
um sýninguna segir meðal annars:
„Ég velti fyrir mér persónulegri
frásögn eða sögulegri og þar með
hugmyndinni um hringrásina og
snúninginn. Hvernig snúningur-
inn dregur upp formið og hvern-
ig rásirnar í bollanum eða krúsinni
draga mann inn í djúpið. Það er
eins konar líflína handar og krús-
ar. Hugmyndin um það hvernig
formið verður til og hvernig það
er handleikið og notað verður líka
til með notandanum. Allt þetta
er dregið saman í tvívíða mynd.
Þannig valdist þessi hópur lista-
manna saman.“
Sumarsýning Leir7 stendur
fram í september. Þetta er fjórða
sumarið sem efnt er til sýninga, en
þær hafa verið afar fjölbreyttar og
flestar snúist um keramik eða önn-
ur efni sem sýnendur hafa unnið
með eigin höndum með aðferðum
sem þeim er tamt að vinna með.
Opið er í Leir7 alla virka daga
milli kl. 14 og 17, laugardaga frá
kl. 14-16. „Velkomið er að líta inn
á öðrum tíma eða þegar einhver er
á verkstæðinu,“ segir í tilkynning-
unni.
mm
Segja nauðsynlegt að tryggja
Framkvæmdasjóði ferða-
mannastaða peninga
Við Snæfellsjökul. Ljósm. mm.
Sumarsýning Leir7 nefnist
„Snúningur – Núningur“