Skessuhorn


Skessuhorn - 29.07.2015, Blaðsíða 22

Skessuhorn - 29.07.2015, Blaðsíða 22
MIÐVIKUDAGUR 29. JÚLÍ 201522 „Ég fæddist hérna 5. apríl 1936 í torfbæ. Þannig að ég er búinn að búa hérna í 79 ár,“ sagði Trausti Bjarnason, bóndi á Á á Skarðsströnd þegar Skessuhorn heimsótti hann á dögunum. „Við fluttum í þetta hús ´45. Ég kaupi jörðina ´65. Pabbi átti húsin en Skarð átti jörðina,“ bætir hann við. Trausti er kvæntur Láru Hans- dóttur frá Orrahóli á Fellsströnd. „Ég fór ekki langt í leit að eigin- konu,“ segir Trausti og hlær við. „Við giftum okkur á jólunum 1961, á aðfangadag. Það var eitthvað sem okkur datt bara í hug, þótti það öðruvísi.“ Þau hjónin eiga tvær dæt- ur, Sigríði og Ingu Birnu. Barna- börnin eru fimm talsins og þrjú eru langafa- og ömmubörnin. „Þetta er mikil eign þó að dæturnar séu ekki fleiri,“ segir Trausti og brosir sínu breiðasta. Ekki hægt að opna glugga fyrir ryki Við setjumst niður í stofunni á Á og stingum okkur beint í djúpu laug- ina. Trausta hafa nefnilega lengi verið hugleikin samgöngumál í sinni heimasveit. Undanfarið sumar telur hann þau hafa verið í algjöru lama- sessi. Um Skarðsströnd og Fells- strönd raunar líka, liggur malar- vegur. Segir Trausti viðhald hans hafa verið heldur snautlegt, vegur- inn hafi hvorki verið heflaður né rykbundinn fyrr en um miðjan júlí- mánuð og sendir hann Vegagerð- inni tóninn. „Ég hringdi í Sigurð Mar, umdæmisstjóra Vegagerðar- innar, út af þessu og segi honum að rykið sé gersamlega að drepa okkur sem búum hérna við veginn og spyr hvort það eigi ekki að fara að hefla og rykbinda. Ég fæ þau svör að þetta eigi ekki að vera svona og hann vilji auðvitað ekki hafa þetta svona. Því spyr ég hvers vegna þetta sé svona og hann segir einfaldlega: „Ég veit það ekki.“ Mér brá heldur við og spurði hann því næst hvort hann gæti sagt mér hvað þeir væru að gera, Vega- gerðarmenn í Búðardal. „Ég veit það ekki,“ sagði hann aftur. Mér var farið að hitna aðeins í hamsi og spurði því hvort hann, sem yfirmað- ur Vegagerðarinnar í Búðardal vissi ekki hvað hans menn væru að gera? „Nei, ég veit það ekki,“ svaraði hann mér. Mér brá svo við þetta samtal okkar að þetta hefur eiginlega ekki farið úr huga mínum síðan,“ segir Trausti og hann heldur áfram. „Það á að gera þetta eins fljótt og auðið er, á vorin áður en vegirnir þorna upp. Hér var ekki hægt að opna glugga, hengja út þvott eða nokkurn skap- aðan hlut. Við erum að reyna að byggja hér upp tjaldsvæði og annað en það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það vegna rykmengunar,“ seg- ir hann. „Það á bara að leggja slitlag framhjá bæjum sem eru svona ná- lægt vegi.“ Vill einkavæða Vegagerðina „Þetta er óforsvaranlegt. Auðvitað er betra seint en aldrei, að hefla og ryk- binda, en að velja þá umferðarmestu vikurnar skil ég ekki. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það vantar pen- inga í Vegagerðina en menn verða þá að vanda sig við að eyða þeim pen- ingum sem þó eru til,“ segir Trausti ómyrkur í máli. „Það er mín skoð- un að það ætti að vera löngu búið að einkavæða Vegagerðina. Það myndi ekki nokkurt einkafyrirtæki haga sér svona. Einkafyrirtæki þurfa að reyna að hafa sem mest upp úr sínum við- skiptum. Það myndu þau aldrei gera með svona þjónustu,“ bætir hann við. „Ég hef séð eftirlitsbíla aka hér um í vegaeftirliti að morgni dags að vetri til. Svo sé ég snjóruðningstæki aka framhjá, sömu daga þegar það er kannski enginn snjór! Til hvers er þetta vegaeftirlit þá? Það myndi ekk- ert einkafyrirtæki haga sér svona.“ En sér Trausti fyrir sér einhverja útfærslu á einkavæddri Vegagerð? „Tökum sem dæmi Dalina. Það yrði bara boðið út og samið við einhvern verktaka um viðhald og vegagerð í sveitarfélaginu. Verktakinn fengi bara fyrirmæli um verkefni sem fyrir liggja,“ segir hann og bætir því við að með því mætti losna við alla þá yfir- byggingu sem er á Vegagerðinni eins og hún er í dag. „Ég velti því fyrir mér hve stór hluti af framlögum til stofnunarinnar fer í yfirbygginguna. Sumir segja að það sé allt að fjórð- ungur. Ég veit ekki hversu mikið það er en ég veit að það er há tala. Þegar skorið hefur verið niður undanfar- in ár hefur það fyrst og fremst bitn- að á þjónustunni, það hefur lítið ver- ið skorið niður í mannafla í höfuð- stöðvum Vegagerðarinnar í Reykja- vík,“ segir Trausti. „Það er nefnilega þannig að allir vegir á Íslandi virðast vera í niðurníðslu. Slitlagið er meira og minna ónýtt. Ég fór til Reykjavík- ur í vetur og það var hræðilegt. Sum- ar göturnar voru eins og verstu mal- arvegir úti á landi, ekkert nema hol- ur.“ Slæmt netsamband ferðaþjónustu- aðilum til trafala Samskiptamál eru Trausta einnig hugleikin. Þar er internetið honum efst í huga og þá sérstaklega þráð- laust netsamband. Hann telur net- sambandið í sinni heimasveit og víðar vera slæmt og til trafala þegar kemur að þjónustu við ferðamenn og aðra gesti. „Sem dæmi þá kom hing- að fyrir skömmu hópur ferðamanna frá Kanada og Bandaríkjunum sem hugðist gista á tjaldsvæðinu. Ekki var hægt að láta þá greiða með korti því að netsambandið er svo vont að posinn virkaði ekki. Það varð úr að hópstjórinn særði út tékkhefti frá Arionbanka, sem hann fékk ekki fyrr en eftir miklar fortölur, til að gest- irnir gætu greitt fyrir gistinguna. Ég hélt reyndar að þessi hefti væru ekki gefin út lengur. Kannski létu þau mig bara fá eintóma gúmmítékka,“ segir Trausti og hlær við. En gamn- inu fylgir þónokkur alvara. „Þetta er ekki jafn mikið vandamál þegar Ís- lendingar eiga í hlut. Þeir geta milli- fært eftir á í heimabanka. En það er ekki bjóðandi að á meðan út um allt land eru menn sem reyna að efla at- vinnustarfsemi á landsbyggðinni séu hvorki almennilegir vegir né netsamband. Þetta stendur allri at- vinnuuppbyggingu fyrir þrifum.“ Trausti tekur þó fram að úrbætur séu væntanlegar með tilkomu ljós- leiðara. Hvenær hann verði lagður og ljósleiðaratenging komin í gagnið er hins vegar ekki vitað nákvæmlega. „Símafyrirtækin geta ekki skaffað þá þjónustu sem þau segjast geta skaff- að nema gegnum ljósleiðara. Þang- að til berjast þau bara um kúnna en 90% af því sem þau segja er lygi, ég hef það eftir manni sem starfar hjá fjarskiptafyrirtæki,“ segir Trausti og er ekkert að skafa af hlutunum. „Svo er það nú annað, útvarpsmál- in. Hér nær maður varla nokkurri stöð nema á langbylgjunni og hún er misnotuð af ráðamönnum hins svo- kallaða útvarps allra landsmanna,“ bætir hann við og telur útvarpssam- band hafa versnað á Skarðsströnd undanfarin ár. Hverju þar er um að kenna kveðst hann ekki vita. Hefur áhyggjur af framtíð byggðar á Skarðsströnd „Eins og ég sagði áðan þá tel ég að þetta standi atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum, net- málin og þessar vegleysur,“ seg- ir Trausti. Hann telur mikilvægt að þessir hlutir séu í lagi, sérstaklega þar sem hann hefur áhyggjur af því að heimasveitin sé hægt og rólega að leggjast í eyði. „Að minnsta kosti held ég að búskapur sé að leggjast af. Hér á Skarðsströnd eru enn þrjú myndarbú, Geirmundarstaðir, Klif- mýri og Ytri-Fagridalur. Fleiri eru þau ekki,“ segir hann og bætir við að mikið af húsunum í kring séu bara nýtt sem sumarhús. Það sé í sjálfu sér betra en að láta þau standa tóm, þá sé viðhaldi að minnsta kosti sinnt. „En ef byggð á ekki að leggjast algjörlega af og fólkið ætlar ekki að stunda bú- skap þá þurfa íbúar hér að geta starf- að við eitthvað annað, hvort sem það er ferðaþjónusta eða hvað. Til þess verða samgöngu- og fjarskiptamál að vera í lagi. Þess vegna er þetta mér hugleikið og það þýðir ekki annað en að láta heyra í sér, annars gerist ekk- ert. Maður verður kannski ekki hátt skrifaður hjá fólki fyrir vikið en mér er nákvæmlega sama um það.“ Laxveiði og ferðaþjónusta Ferðaþjónustan er hjónunum á Á ekki ókunn því þau hafa um nokk- urra ára skeið rekið tjaldsvæði, ann- ars vegar í bæjartúninu og hins vegar fyrir ofan bæinn, nær dalnum. Um- ferð ferðamanna segir Trausti stöð- ugt vera að aukast. „Í sumar hafa komið hingað miklu fleiri ferðamenn en verið hefur. Það tekur auðvitað sinn tíma að láta spyrjast út að hér sé tjaldsvæði og það kann að skýra aukninguna í sumar. Einnig hef ég tekið eftir því af samtölum við gesti að þeir eru sumir að forðast yfirfulla staði. Vilja frekar koma hingað og vera í ró og næði.“ Einnig leigir Trausti út sumarbú- staðalóðir á jörð sinni, einar sex tals- ins og nokkur fjöldi sumarbústaða- gesta heimsækir svæðið á hverju sumri. „Við leigjum sex lóðir. Þetta hefur aðeins farið niður á við eins og annað eftir hrunið. Virðist aðeins vera að glæðast aftur núna en það er voða lítið,“ segir hann. „Það er ekki síður fallegt að vera með sumarbú- stað hér en annars staðar við Breiða- fjörðinn, hér er mjög fallegt.“ Hjónin að Á eru ein af fimm aðil- um sem eiga í Krossá og þar er lax- veiði. Umferð veiðimanna er nokkur og aðspurður segir Trausti að veið- in hafi verið lítil í sumar. „Því mið- ur. Ég veit ekki hvað þetta er, ef ég vissi það þyrfti ekki að gera meira,“ segir hann og brosir. Áin er leigð veiðifélaginu Hreggnasa og að sögn Trausta er veiðin í ágætri leigu og vel hefur gengið að selja leyfi, þrátt fyrir dræma veiði það sem af er sumri. „Já, það eru allir dagar seldir. Veiðin er nú samt eitthvað að glæðast í Dölum og ég vona að þetta sé að koma til.“ Trausti kveðst hafa heyrt því fleygt fram að veiðimenn skapi bara vanda- mál og að sala veiðileyfa skili litlu sem engu til svæðisins í gegnum leigusölu, þegar á er leigð í gegnum veiðifélag. „Sumir sjá bara vanda- mál. Ég hef verið að telja saman hvað kemur í gegnum laxveiðiár hér í Döl- um og telst svo til að það séu á bilinu 130-150 milljónir króna, bara í þess- ari leigusölu eins og hún er stunduð núna. Svo versla veiðimennirnir auð- vitað og gera ýmislegt hér í sveitinni. Ég held að mörgum myndi bregða ef þeir misstu þessar tekjur allar,“ seg- ir hann. Möguleikar á Skarðsströnd „Það eru möguleikar hér, enginn vafi á því,“ segir Trausti. Utan þess sem fyrir er talið minnist hann á höfnina. „Nú er búin að vera mokveiði á grá- sleppu en allt of fáir bátar sem gera út frá Skarðsstöð. Ég þykist vita að það sé út af veginum. Þeir töluðu um það í fyrra veiðimennirnir að vegur- inn stæði í þrifum fyrir flutningum á fiski frá höfninni,“ bætir hann við. „En höfnin sjálf er fín. Forðum daga bjó á Geirmundarstöðum landnáms- maðurinn Geirmundur heljarskinn og réri út frá Geirmundarvogi. Ég hef sagt að hann hljóti að hafa ver- ið heimskur að lenda ekki í Skarðs- stöð þar sem er höfn frá náttúrunn- ar hendi,“ segir Trausti og glottir við tönn. Aðspurður um sýn sína á fram- tíðina segist hann vonast til þess að í framtíðinni fjölgi fólki á Skarðs- strönd og það geti byggt sér upp ein- hvers konar atvinnu og lífsviðurværi á svæðinu, hvort sem er í landbúnaði, ferðamennsku eða einhverju öðru. Til þess þurfi bæði kjark og þor, mögu- leikarnir séu alls staðar. Fólk þurfi hins vegar að fá hugmyndir og fram- kvæma þær, byrja smátt og vanda til verka. Síðan megi stækka við sig. „Ég vonast til að hér verði uppbygging í framtíðinni og fólki fjölgi. Ég á enga ósk heitari,“ segir Trausti Bjarnason að lokum. kgk Trausti Bjarnason, bóndi á Á Vonast til að fólki fjölgi og uppbygging verði á Skarðsströnd Trausti Bjarnason við Krossánna. Hann veiðir eitt holl í ánni á hverju sumri og alltaf á sama tíma, í lok júlímánaðar. Bærinn Á á Skarðsströnd í Dalasýslu. Aðspurður sagði Trausti fánann ekki dreginn að húni að neinu sérstöku tilefni en gantaðist með að hann væri sannarlega ekki að flagga í tilefni af komu blaðamanns. Samgöngumál hafa lengi verið Trausta hugleikin og sér í lagi viðhald malarvega í hans heimasveit. Myndin er tekin á Fellsströnd en malarvegir liggja einnig um Skarðsströndina þvera og endilanga.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.