Skessuhorn - 06.01.2016, Blaðsíða 16
MIÐVIKUDAGUR 6. JANÚAR 201616
Fjallgönguhópurinn Skaginn á topp-
inn hefur starfað á Akranesi frá því
í ársbyrjun 2010. Hefur hann síðan
farið hátt í 80 ferðir og gengið á rúm-
lega 50 mismunandi fjöll og tinda.
Fer hópurinn fjölda ferða á fjöll og
tinda hvern einasta vetur, en hlé er
gert yfir hásumarið. Hjörtur Hróð-
marsson hefur frá upphafi haldið
utan um fjallgönguhópinn, skipulagt
ferðirnar og miðlað sinni þekkingu af
fjallamennsku.
„Minn bakgrunnur er úr skátun-
um og síðar hjálparsveitum skáta og
einnig úr starfi Íslenska Alpaklúbbs-
ins (ÍSALP). Þar var töluvert geng-
ið á fjöll auk klifurs í ís og klettum.
Ég var virkur í því starfi sem ung-
lingur og fram yfir tvítugt. Síðan
tók ég pásu en byrjaði aftur af full-
um krafti árið 2008, eftir gott hlé,“
segir Hjörtur. „Árið 2009 tók ég að
mér hóp í Mosfellsbæ og fór af stað
með prógramm sem hafði það loka-
markmið að ganga á Hvannadals-
hnúk. Mér datt í hug að gera slíkt hið
sama hér á Akranesi árið eftir svo ég
auglýsti og þátttakan var mjög góð,“
bætir hann við.
Kynningarfundur
framundan
Fimmtudaginn 14. janúar næst-
komandi verður Skaginn á toppinn
með kynningarfund á Jaðarsbökkum
þar sem kynnt verður dagskrá árs-
ins 2016. Fundurinn er opinn öllum
áhugasömum, bæði vönum og óvön-
um fjallagörpum. „Dagskráin er allt-
af þannig upp byggð að það er gert
ráð fyrir einni stórri ferð á vorin. Maí
er kjörinn mánuður fyrir jöklaferðir.
Bæði vegna veðurs og einnig vegna
aðstæðna á jöklinum sjálfum, snjóa-
laga og sprungna. Auðvitað er hægt
að ganga á jökla allan ársins hring en
það er mun erfiðara að vetri til,“ seg-
ir Hjörtur.
Styttri ferðir eru farnar frá hausti
og fram á vorið, sem undirbúningur
fyrir stóru ferðina að vori. „Það eru
farnar margar styttri ferðir til byggja
upp færni, þrek og þol. Eins til að
fræða fólk um og leyfa því að kynn-
ast því hvernig er að vera á fjöllum
á veturna,“ segir hann og vonast eft-
ir áframhaldandi góðri þátttöku. „Ég
reyni auðvitað að draga sem flest fólk
með mér í þetta því það er algjör-
lega frábært að leyfa fólki að takast á
við veðrið, fjöllin og sjálft sig. Maður
sér hvað fólk eflist með hverju skipt-
inu.“
Á marga fjölmarga
tinda eftir
En hvað fær Hjörtur út úr því að
ganga á fjöll? „Að sjálfsögðu má
nefna líkamlega þáttinn, þetta er í
vissum skilningi mín líkamsrækt.
Aftur á móti er ég ekki í þessu út
af því,“ segir hann og hugsar sig
stuttlega um. „Það er líka mjög
skemmtilegt að skoða landið, fara á
nýja staði og sigra nýja tinda,“ seg-
ir hann en bætir því við að erfitt sé
að setja fingurinn á hvað nákvæm-
lega togi hann til fjalla. „Ég er bara
með þessa margumtöluðu fjalla-
bakteríu.“
Aðspurður hvort hann eigi sér
einhvern draumatind nefnir hann
nokkra. „Fyrir það fyrsta eru marg-
ir tindar hér á Íslandi sem ég á eft-
ir að sigrast á. Þar má til dæmis nefna
Sveinstind í Öræfajökli, Þverártind-
segg í Suðursveit og að klára alla fjóra
Hrútfjallstindana. Svo væri auðvitað
gaman að ganga á einhverja tinda í
Ölpunum en þó eru engar áætlanir
uppi um það,“ segir Hjörtur.
Seinni árin kveðst hann vera far-
inn að leggja stund á fjallaskíða-
mennsku í auknum mæli. „Það er
sá angi fjallasportsins sem mér þyk-
ir hvað skemmtilegastur,“ segir hann
og nefnir að Snæfellsjökull sé kjör-
inn til þeirrar iðkunar. „Aðgengi þar
er mjög gott. Maður þarf eiginlega
aldrei að bera skíðin. Brekkurnar
eru langar og rennsli alla leið niður,“
segir hann en bætir því við að mjög
víða sé hægt að renna sér á fjalla-
skíðum á Íslandi. „Til dæmis í Skála-
felli, Botnsúlum og svo bara Esj-
unni,“ segir hann og rifjar upp skíða-
sögu frá því hann renndi sér á sínum
yngri árum niður fjallið sem Reyk-
víkingum verður títt starsýnt á. „Ég
renndi mér frá Steininum ásamt fé-
laga mínum. Þetta er löngu fyrir tíma
GoPro-vélanna en hann hafði með-
ferðis gamla VHS myndbandstöku-
vél sem hann skellti milli lappanna
á sér og tók upp alla ferðina,“ seg-
ir Hjörtur og brosir. „Þetta er lang-
fyrsta skíðamyndbandið sem ég man
eftir að hafa tekið þátt í.“
Öryggið er fyrir öllu
Þegar Skaginn á toppinn fer sínar
ferðir hefur Hjörtur á stundum grip-
ið skíðin með sér. Slíkt heyrir þó
fremur til undantekninga, enda fyrst
og fremst um gönguferðir að ræða
og fæstir með fjallaskíði meðferð-
is. Hann þarf að mörgu að hyggja
sem leiðsögumaður og skipuleggj-
andi og þar leikur útbúnaður hóps-
ins og öryggi langstærsta hlutverk-
ið. Nokkur munur getur verið á því
að stunda fjallgöngur að vetri mið-
að við að sumri og því að ýmsu að
huga. „Til dæmis í jöklaferðum er
oft lagt af stað mjög snemma morg-
uns, löngu áður en sólin rís. Þetta
er kallað Alpastart og ástæðan fyr-
ir því er að maður vill ekki lenda í
sólbráð og sérstaklega ekki á leið-
inni upp. Þó að frost sé úti nær sól-
in að bræða snjóinn við yfirborðið
og þá verður færðin mjög þung,“
segir Hjörtur.
Að vetri til getur verið allra veðra
von og því vísast að vera vel undir
það búinn. „Það er ekki farið sama
hvernig viðrar. Sumir hópar fara á
fjöll sama hvað, en að mínu mati
verður veðrið að vera skaplegt því
öryggið er auðvitað númer eitt, tvö
og þrjú,“ segir hann. Auðvitað borg-
ar sig alltaf að vera vel búinn en að
vetrinum eykst mikilvægi búnaðar
enn frekar. „Góðir gönguskór eru
sérstaklega mikilvægir, einnig svo-
kallaðir hálkubroddar eða jökla-
broddar og svo þarf jafnvel að bæta
við ísöxi og fleiru slíku,“ segir hann.
„Maður þarf að vera viðbúinn öllu,
eins og dæmin sanna. Vel er farið
yfir útbúnaðinn fyrir hverja ferð,
sérstaklega með nýjum hópum.“
En útbúnaður fjallgöngumanna
er auðvitað einstaklingsbundinn.
Sem dæmi nefnir Hjörtur að felstir
göngumenn vilji hafa með sér heita
drykki, sem hann mæli vissulega
með, en aðrir þurfi þess ekki. „Það
er mjög misjafnt hvað hentar hverj-
um og menn læra það smám sam-
an. Reynslan kenni mönnum hvað
hentar þeim best,“ segir Hjörtur
Hróðmarsson að lokum.
kgk
Hjörtur Hróðmarsson, forsprakki gönguhópsins Skaginn á toppinn:
„Ég er með þessa margumtöluðu fjallabakteríu“
Hópurinn sem gekk á Hátind vorið 2014. Hátindur er einn Hrútfjallstinda og er í 1875 metra hæð yfir sjávarmáli. Hjörtur
lengst til hægri.
Hjörtur á toppi Snæfellsjökuls á sumarsólstöðum í júní sl. sumar. Fjallaskíðin voru
einmitt tekin með í þá ferð.
Hópurinn nálgast topp Hvannadalshnúks vorið 2013. Hvannadalshnúkur sigraður.
Í júní 2014 var gengið á Heklu. Varminn frá eldfjallinu heldur toppnum
snjólausum.