Skessuhorn


Skessuhorn - 06.01.2016, Blaðsíða 24

Skessuhorn - 06.01.2016, Blaðsíða 24
MIÐVIKUDAGUR 6. JANÚAR 201624 Horft yfir liðið ár og litið til þess nýja Sigríður Júlía Brynleifsdóttir framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga: Toppurinn að baða sig í heitri á sem rennur undan Holuhrauni „Það var mjög gaman og eftirminnilegt þegar hald- ið var upp á 35 ára kosn- ingaafmæli Vigdísar Finn- bogadóttur með táknræn- um hætti um allt land, þar sem börn gróðursettu birki- tré. Vigdís tók þátt þessum viðburði með okkur í Borg- arnesi þar sem gróðursett var við íþróttasvæðið,“ segir Sigríður Júlía Brynleifsdótt- ir framkvæmdastjóri Vest- urlandsskóga þegar hún var spurð um hvað ánægjulegast var á árinu 2015. Hún bæt- ir því við að ánægjulegt hafi verið að sjá ferðaþjónustuna blómstra á árinu. „Hér á Vesturlandi var gífurleg aukning, auk þess að unnið var að uppbyggingu staða til afþreyingar og þjón- ustu, svo sem Hótel Húsafelli og ísgöng í Langjökli. Það var líka gaman að sjá frábær afrek íþróttafólks á árinu en þegar vel gengur á þeim vettvangi þá sameinast allir í að styðja við sínar konur eða menn.“ Aðspurð um vonbrigði ársins nefnir hún að það hafi orðið henni mikil vonbrigði hvernig brugðist var við umræðunni um björgun Jóns Hákonar BA 60. „Þá fannst mér ég upplifa að ör- yggismál sjómanna væru ekki í góðum farvegi. Ég verð alltaf meyr þegar mannslífum er ekki sýnd virðing og slys eru ekki rannsökuð til hlítar. Það hvernig málefnum eldri borgara er ýtt út í horn þykir mér einnig sorglegt að verða vitni að. Getum við ekki gefið þeim áhyggjulaust ævikvöld?“ Auk þess segir hún það hafa verið mikil vonbrigði að ekki skildi nást sátt um skólamál í Borgarbyggð. „Ég held að allir sem að því máli hafa komið hafi virkilega lagt sitt af mörkum. Þar geri ég ekki greinarmun á meirihluta, minnihluta eða íbúum. Það eru vonbrigði.“ Sigríður Júlía segir árið hafa verið gott persónulega, marg- ar áskoranir og að nóg hafi verið að gera í leik og starfi. „Við fjölskyldan ferðuðumst heilmikið innanlands, í gegnum fjöll og firnindi. Ég held að toppurinn hafi verið að baða sig í heitri á sem rennur undan Holuhrauni. Ég tók þátt í nokkrum hlaupum og á vordögum fór ég í skemmtilega afslöppunarferð til Spánar með góðum konum. Einnig fór ég í skemmtilega vinnutengda ferð til Álandseyja og Finnlands. Vesturlandsskógar voru að- alskipuleggjandinn að ráðstefnu sem haldin var í Borgarnesi í mars, þar kom fagfólk úr skógargeiranum saman, Íslendingar og útlendingar. Það var lærdómsríkt,“ segir hún. Sigríður seg- ir einnig standa upp úr að ákvörðun hafi verið tekin um sam- einingu stofnana skógræktar á landinu en sú sameining kemur til framkvæmda 2016. „Ég sótti um starf, embætti skógræktar- stjóra, sem var lærdómsríkt ferli. Og síðast en ekki síst þá fest- um við kaup á einbýlishúsi í Borgarnesi, það stendur uppúr.“ Sigríður segist hafa miklar væntingar til fyrirhugaðra breytinga á stofnanaumhverfi skógræktar á nýju ári. „Það skiptir mig máli persónulega og auk þess held ég að allt skógræktarstarf verði mun skilvirkara og betra. Sameinuð erum við mun sterkari ein- ing, auk þess sem fagleg breidd mannauðsins nýtist mun betur en áður.“ Að endingu segist Sigríður hlakka til að fylgjast með aðdraganda forsetakosninganna og úrslitanna. „Auk þess get ég ekki leynt því að það verði spennandi að sjá hvernig Íslending- um muni vegna á hinum ýmsu sviðum íþrótta á árinu. Þá vona ég að sátt náist um skólamál í Borgarbyggð og að vinna við skólastefnu sveitarfélagsins fleyti okkur í rétta átt.“ Eva Karen Þórðardóttir rekstrarstjóri í Borgarnesi: Of löt að fara í ræktina „Það sem var ánægjulegast á árinu var að við opnuðum Grill- húsið í Borgarnesi og ég byrjaði sem rekstrarstjóri þar. Þetta er skemmtilegt verkefni og það var ótrúlega gaman að sjá hvað sveitin tók vel í staðinn,“ segir Eva Karen Þórðardóttir í sam- tali við Skessuhorn. Hún er ánægð með nýliðið ár og segir það hafa verið mjög gott. „Við eigum litla eins árs stelpu og það var skemmtilegt að fylgjast með því þegar hún var að byrja að labba, tala og gera allt. Það er gaman að sjá hana þroskast og að sjá stóru bræður hennar taka þátt í þessu,“ segir Eva Karen. „Ég kynntist líka mörgu fólki í sambandi við nýtt starf og það var mjög skemmtilegt,“ bætir hún við. Aðspurð um von- brigði ársins stendur ekki á svörum: „Ég var allt of löt að fara í ræktina. 2015 var mjög slæmt ræktarár og ég ætla að laga það 2016, eins og allir hinir,“ segir hún og hlær. Hún er bjartsýn á nýja árinu. „Ég held að þetta verði gott og skemmtilegt ár, bæði vinnulega og pers- ónulega séð. Ég ætla að skella mér aftur í nám og ég held að þetta verði ótrúlega spennandi, ætla að klára masterinn minn og hugsa um heils- una,“ segir hún kát að endingu. Gísli Einarsson frétta- og dagskrárgerðarmaður: Verður það besta frá upphafi vega Gísli Einarsson fjölmiðla- maður í Borgarnesi segir að persónulega standi upp- úr frá liðnu ári sú reynslu að hafa verið í tvær vikur um páskana á Miðjarðarhafi um borð í varðskipinu Tý og miðlað þaðan fréttum til landsmanna. „Þarna fylgd- ist ég meðal annars með björgun 320 flóttamanna og var það ógleymanleg lífsreynsla. Flóttamanna- straumurinn var stórt mál á heimsvísu á liðnu ári og er enn þótt nýtt ár sé gengið í garð,“ segir Gísli. Aðspurður segir hann eftir dálitla umhugsun að gleðileg- ast á nýliðnu ári hafi verið árangur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem keppir á EM í París í júní. En ætlar hann þá að fylgja landsliðinu út og sjá leiki þess? „Nei, kvennakór sem ég tengist hafði áður en þetta varð ljóst tryggt sér ferð til Ír- lands á sama tíma og EM verður haldið. Ég verð því þar. Fór með þessum konum í utanlandsferð fyrir þremur árum og var hún ógleymanleg fyrir ýmsar sakir.“ Aðspurður um helstu von- brigði liðins árs verður Gísli hugsi, en svarar svo. „Líklega olli það mér mestum vonbrigðum að aðstandendur Áramóta- skaupsins hafi ekki getað fundið herðabreiðari og stæltari mann til að leika mig í Skaupinu en Góa. Allavega hefðu þeir þurft að bæta á hann herðapúðum og öðrum útbúnaði til að láta hann líta meira út svona eins og fullorðinn og þroskaðan mann. En svona án gríns er ég náttúrlega bara stoltur af að vera tekinn fyrir í Skaupinu og ekki síður að Gói fékkst til verksins, enda frábær leikari.“ En hvernig leggst árið 2016 í Gísla? „Þetta verður ofboðs- lega stórfenglegt ár. Það besta frá upphafi vega.“ Halldór Kristján Jónsson á Þverá í Eyja- og Miklaholtshreppi: Hræringar í heiminum draga úr væntingum Halldór Kristján Jóns- son nautgriparæktandi og bóndi á Þverá segir árið 2015 hafa verið frekar tíð- indalítið. „Það sem var ánægjulegast á árinu var að barnabörnunum fjölgaði um eitt og eru nú orðin átta talsins. Við hjónin áttum líka stórafmæli á árinu og urðum samtals 120 ára. En annars var þetta ár ósköp venjulegt. Reyndar var kalt framan af vori og sumri. Það voru mestu viðbrigð- in milli ára og svo miklar rigningar á stundum,“ segir Hall- dór í samtali við Skessuhorn. Aðspurður um vonbrigði árs- ins nefnir Halldór flóttamannavandann. „Það eru mestu von- brigðin, að fólk þurfi að flýja heilu heimshlutana. Það er það sem stendur mest upp úr á liðnu ári að því leytinu til.“ Hann segir árið hafa verið rólegt hjá þeim hjónum og að lít- ið hafi verið um ferðalög. „Við höfðum hægt um okkur þetta árið vegna þess að við tókum þetta út árið þar áður, þegar sonur okkar gifti sig í Litháen. Sú ferð á eftir að lifa lengi í minningunni.“ Væntingunum til þessa árs er stillt í hóf hjá Halldóri. „Ég hef engar sérstakar væntingar til þessa árs. Ég held að þetta verði meðalár, ég vona það allavega. Það eru svo miklar hræringar í heiminum, það er ekki hægt að neita því,“ segir Halldór Kristján Jónsson nautgripabóndi. María Maack, verkefnastjóri sem býr á Reykhólum: Ætlar að klára doktorsverkefnið „Ánægjulegast þykir mér að nást skyldi alþjóðlegt samkomulag um að draga úr loftslagseyðileggjandi útblæstri,“ segir María Maack á Reykhólum. „En það sem stendur upp úr hjá mér persónulega er að hafa fengið þessa skemmtilegu vinnu hjá Atvinnuþróun- arfélagi Vestfjarða. Hún snýst um að ýta fólki af stað með nýjar atvinnu- hugmyndir, menningar- hugmyndir, rekstur og allt sem getur komið sér vel fyrir uppbyggingu Vestfjarða. Mér finnst fólk alveg rosalega áhugasamt um þetta og duglegt,“ segir María og bætir því við að henni þyki einnig ánægjulegt að hafa kynnst nýju fólki, betur þeim sem hún þekkti fyrir og kynnst betur háttum í litlu samfélagi. „Krakkarnir koma stundum og bjóða mér út að leika, það finnst mér yndislegt,“ segir María. En öllum árum fylgir eitthvað sem fólki þykir betur hafa mátt fara. „Vonbrigði ársins, að mínu mati, eru að það sé verið draga máttinn úr Ríkisútvarpinu. Mér er það afar mik- ilvægt, sérstaklega þar sem ég fluttist úr borginni og út á land. Ég er ein þeirra sem vil fylgjast með því sem er á döf- inni í menningunni og mér finnst Ríkisútvarpið miklu betra en annað útvarp, bæði Rás 1 og 2,“ segir hún. Aðspurð um væntingar til ársins 2016 er svar Maríu af- dráttalaust og markmiðið skýrt. „Ég ætla að klára doktors- verkefnið mitt,“ segir hún og hlær við. „Það fjallar um hvaða heildaráhrif það hefði á íslenskt samfélag að nota eingöngu íslenska orku til samgangna. Mér sýnist það sem muni hafa mest áhrif sé í fyrsta lagi geysilegur sparnaður í olíuinnflutn- ingi og hins vegar sá lærdómur sem fengist af orkuskiptun- um, að skipta úr olíu yfir í rafmagn og vetni. Rafmagn yrði þá notað á alla minni bíla en vetni á stærri bíla og jafnvel skip.“ Unnur Ýr Haraldsdóttir, fyrirliði kvennaliðs ÍA í knattspyrnu: Fyrstu deildar titillinn stendur algjörlega upp úr „Ég er frekar jákvæð að eðlisfari, það þarf mikið til að ég verði fyrir vonbrigð- um og ég man ekki eft- ir að hafa orðið fyrir nein- um slíkum á árinu,“ segir Unnur. Hún nemur lyfja- fræði við Háskóla Íslands, er hálfnuð með sitt ann- að ár og kveðst ánægð með að vel gangi í náminu. „Svo gekk mér persónulega mjög vel í fótboltanum í sumar. Ég átti alveg klárlega mitt besta tímabil hingað til,“ segir Unnur. Hún er fyrirliði og var fastamaður í liði ÍA sem tryggði sér Íslandsmeistaratitil fyrstu deildar kvenna í knatt- spyrnu síðastliðið sumar og sæti í Pepsídeildinni á komandi keppnistímabili. „Fyrstu deildar titillinn stendur algjörlega upp úr á árinu,“ segir Unnur og kveðst bera miklar vænting- ar til ársins 2016. „Ég er mjög spennt að takast á við nýtt ár, bæði í fótboltanum og skólanum. Við ætlum okkur að koma á óvart í deildinni í sumar, fólk má ekki vanmeta okkur þar,“ segir Unnur að lokum.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.