Skessuhorn


Skessuhorn - 26.10.2016, Blaðsíða 22

Skessuhorn - 26.10.2016, Blaðsíða 22
MIÐVIKUDAGUR 26. OKTÓBER 201622 Guðríður Sigurðardóttir er fædd að Stóru-Giljá 19. júní árið 1935. Bær- inn er í þjóðbraut rétt við austanvert mynni Vatnsdals í Húnavatnssýslu. Þaðan var fyrsti kristniboðinn á Ís- landi, Þorvaldur Koðránsson hinn víðförli, sem ferðaðist um landið nokkru fyrir árið 1000 með saxnesk- um biskupi, sem Friðrik hét, og boð- aði kristna trú. Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði. Margir sem aka norður í land þekkja bæjarhúsin því þar er há- reist grænmálað hús á vinstri hönd þegar skammt er eftir til Blönduóss. Guðríður var fimm ára þegar hún missti föður sinn og átta ára þegar hún var send í fóstur á nágrannabæ. Á lífsleiðinni átti hún sjö börn. Hún missti tvö þeirra af slysförum og lét auk þess óviljug frá sér eitt barn. En þrátt fyrir margan missinn á lífsleið- inni er hún glaðlynd og brosmild eldri kona og býr nú á Akranesi. Hún er virk í starfi eldri borgara og er mjög flink í höndunum. Hún málar postulínsbolla, skálar og glös og hefur selt nokkuð af því á mörk- uðum. „Ég get ekki séð neitt í friði,“ segir hún og tekur niður mynd af gömlum íslenskum burstabæ sem hún hefur málað á flatan stein og sett í ramma. Hún er listræn og hefur nú á efri árum tækifæri til að rækta þann hæfileika. Blaðamaður Skessuhorns settist niður með Guðríði og fékk að heyra hluta af viðburðaríku og um margt erfiðu lífshlaupi hennar. Föðurmissirinn markaði lífið Guðríður segir stolt að hún sé mjög lík föður sínum en minningin um hann er mörkuð af sorg. „Ég missti pabba þegar ég var fimm ára. Þá missti ég mitt hálfa líf,“ segir Guð- ríður eða Didda, eins og hún er jafnan kölluð. Faðir hennar dó úr lungnabólgu í nóvember 1940. Hún hefur eingöngu góðar minningar af föður sínum, sem var mjög annt um hross og áhuginn fyrir hestum hefur smitast yfir til Guðríðar. Það sést á heimili hennar þar sem hestamyndir og styttur eru áberandi. „Ég hef alla tíð elskað hesta, þeir eru miklu betri vinir en mannfólkið.“ Mamma hennar var Klara Bjarna- dóttir og faðir hennar var Sigurður Laxdal. Þau voru bæði í vinnu að bænum Stóru-Giljá en tveir ógiftir eldri menn áttu bæinn í þá tíð. Guð- ríður á þrjú alsystkini en mamma hennar gekk enn með fjórða barnið þegar faðir hennar féll frá. „Mamma var vandalaus þarna og pabbi hafði verið vinnumaður.“ Svo virðist sem móðir hennar hafi ekki séð fram á að geta séð öllum börnunum farboða að Stóru-Giljá, því hún gaf systur hennar þriggja daga gamla til ætt- ingja sem ólu hana upp. Guðríður var sjálf send í fóstur þremur árum eftir að faðir hennar dó. Ein í fóstri „Ég var svo lítil og vitlaus að ég gerði mér enga grein fyrir því þegar mamma fór með mig. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að bræður mín- ir voru heima á Giljá,“ segir hún. Mamma hennar fór um kvöldið og skildi Guðríði eftir í fóstri á Akri hjá Jóni Pálmasyni og Jónínu Ólafsdótt- ur. „Ég man eftir því að ég var grenj- andi frammi í gangi. Það kom eng- inn að sækja mig nema fóstri minn. Hann söng aldrei, hann kvað allt- af. Hann fór með mig inn og settist með mig og kvað.“ Hún segir að lífið hafi verið erf- itt á Akri en fóstri hennar hafi verið henni mjög góður. „Ég fékk ekki að fara að hitta mitt fólk á Stóru-Giljá í heilt ár af þeirri einföldu ástæðu að það hefði orðið að taka mig til baka með valdi.“ Í þá tíð þótti heldur ekki tiltökumál að láta börnin vinna og Guðríður rifjar upp sögu af því hvernig hún var látin fara með mjólk á lítilli kerru, allt að 50 lítra brúsa. Hún lyfti brúsunum upp á kerruna, dró kerruna nokkra leið, stundum í myrkri og þurfti svo að koma brús- unum á brúsapallinn sjálf. Oft hafi hún orðið myrkfælin á leiðinni og þurft að hemja sig til að hlaupa ekki. „Þetta var svolítið strangt uppeldið að mörgu leyti. En ég er þakklát fyr- ir það, því ég er sjálfstæð manneskja. Það þýddi lítið sem krakki að segja ég kann það ekki, ég get það ekki. Þú komst ekkert inn fyrr en verkinu var lokið.“ Að Akri fór hún líka í skóla. Þá var farskóli, kennslukona fór um sveitina og börn fengu tveggja vikna skóla og tveggja vikna frí. Guðríður var góð- ur námsmaður og hún rifjar upp hvernig hún las allt sem hún kom höndum yfir og lærði það utan að, líka skólabækur eldri fósturbróður síns. „Ég man einu sinni í dýrafræð- inni. Þá áttum við að ræða um apa og ég gat blaðrað út úr mér fleiri stykkj- um,“ segir hún og skellihlær. Strákur í eldhúsinu Guðríður var í fóstri að Akri til sautj- án ára aldurs, eða í níu ár. Þá hélt hún „út í heim“ og réð hún sig í vist að Másstöðum í Vatnsdal hjá Stein- grími Guðjónssyni og Jónu konu hans sem vinnukona. Síðar fór hún sem ráðskona til Hallgríms Guðjóns- sonar í Hvammi, í tímabundna vist. „Ég kunni ekki að elda matinn, því ég hafði oft verið notuð sem strákur í fóstri,“ segir hún og skellihlær. En hún lét það ekki á sig fá, lærði að elda og sá um fjögurra ára strák á sama tíma. Fyrstu vikuna í Hvammi þurfti hún að elda fyrir fyrrum húsbónda sinn, en Jóna var þekkt fyrir að vera góður kokkur. „Mér fannst ekki gaman að fá hann í heimsókn akkúr- at á matartíma. Mér fannst þetta svo mikill hryllingur,“ segir hún og hlær að minningunni. Máltíðin heppn- aðist þó vel, nema sagógrjónagraut- urinn sem var í eftirrétt brann við. Hún bar hann engu að síður fram. Sagógrjónagrauturinn sló í gegn hjá gestinum eftir allt saman. „Þetta var það allra besta sem hann hafði feng- ið,“ segir hún og skellihlær. Stein- grímur hafði þá sérstakt dálæti á við- brunnum sagógrjónagraut og skóf upp úr pottinum. Á Keflavíkurflugvelli Eftir tvö ár sem vinnukona í Vatns- dalnum var ferðinni heitið suður. Guðríður réð sig í vist í Njarðvík sem vinnukona og vann þar í nokk- urn tíma. Launin á Keflavíkurflug- velli voru þó mikið betri svo Guð- ríður ákvað að sækja um vinnu þar og fékk inn á hóteli á herstöðinni. Þar vann hún í eldhúsinu eða í kaffi- teríunni. Hún kunni litla sem enga ensku þegar hún byrjaði að vinna fyrir Bandaríkjamennina, en var fljót að ná henni. „Ég kunni enga ensku en maður lærði þetta mjög fljótt. Það var ekki um annað að ræða. Maður varð að tala við þá sem voru í kaffiteríunni.“ Guðríður verður þögul í smástund og segir svo: „Ég á hálf-ameríska dóttur.“ Eftir tvö til þrjú ár á her- stöðinni fékk Guðríður vinnu við að þrífa íbúðir á svæðinu. Þar kynnist hún fyrsta barnsföður sínum. Hann hafði lítið um barnið að segja, fór til Bandaríkjanna aftur áður en Guð- ríður átti stúlkuna. Guðríður sjálf var komin aftur að Stóru-Giljá áður en hún átti stúlkuna og fæddi hana þar árið 1957. Það tekur á Guðríði að halda áfram að segja söguna. „Ég var neydd til að gefa hana frá mér,“ seg- ir hún hugsandi. Hún segir að hún hafi aldrei skilið alveg hvers vegna hún var látin gefa stúlkuna frá sér, en hún fékk góða foreldra í Reykjavík. „Þetta er sár sem aldrei grær, þó hún sé núna komin yfir fimmtugt,“ seg- ir Guðríður og bætir við að framan af hafi hún ekki átt gott samband við stúlkuna. Það var ekki fyrr en Guð- ríður útskýrði fyrir henni að hún hefði ekki gefið hana frá sér sjálf- viljug að samband þeirra varð gott. Í dag eiga þær í góðu sambandi. Á yngri árum hafi stúlkan alltaf vitað hver kynmóðir hennar var. Gift og skilin Eftir að stúlkan er ættleidd í burtu fór Guðríður í húsmæðraskóla á Löngu- mýri, kostuð af ráðskonunni á Stóru- Giljá. „Ég hafði engan áhuga fyrir þessu bóklega því maður notar aldrei næringarefnafræði og svona þegar maður fer að búa,“ segir hún og fuss- ar lítillega. Á meðan hún var í skól- anum kynntist hún fyrri eiginmanni sínum. „Ég kynnist þarna strák sem var eiginlega ekki þess virði,“ seg- ir hún og nefnir hann aldrei á nafn. Þau byrjuðu búskap sinn á Akureyri, en stuttu síðar flytja þau til foreldra hans í Skagafirði. Maðurinn hennar fer þá á vertíð í Vestmannaeyjum yfir veturinn á meðan Guðríður sá ein um 50 kindur, tvö trippi og eina kú og son þeirra sem var þá á fyrsta ald- ursári. Tengdaforeldrar hennar voru orðnir aldraðir og því féllu flest verk í hennar hendur. Líkt og hennar var Er sjálfstæð manneskja og þakklát fyrir ákveðið uppeldi sem hún hlaut -Rætt við Húnvetninginn Guðríði Sigurðardóttur sem lengst bjó á Iðunnarstöðum í Borgarfirði Guðríður Sigurðardóttir í elhúsinu sínu. Hún segir að hún hafi alltaf sungið mikið. Guðríður með leirskál sem hún bjó til sjálf og málaði. Guðríður heldur hér á mynd af Hannesi syni sínum, sem lést í bílslysi tvítugur að aldri. Postulíns skálar, diskar og glös sem Guðríður málar.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.