Morgunblaðið - 23.10.2019, Qupperneq 52
52 ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 23. OKTÓBER 2019
FRÉTTASKÝRING
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Niðurstöður umfangsmikillar rann-
sóknar í Skotlandi benda til þess að
endurtekin höfuðhögg í knattspyrnu
hafi alvarlegar afleiðingar. Niður-
stöðurnar eru í það minnsta þær að
knattspyrnumenn séu líklegri til að
fá taugasjúkdóma og líklegri til að
látast úr heilabilun, meira að segja
mun líklegri en þeir sem ekki stunda
knattspyrnu af kappi. Niðurstöð-
urnar eru ekki skemmtilegar fyrir
knattspyrnuheiminn en eru ekki ann-
að en vísbending að svo stöddu.
Rannsóknin kallar á fleiri rannsóknir
þar sem hægt væri að njörva hætt-
urnar betur niður.
Rannsóknin var viðamikil og þann-
ig að henni staðið að mark er á henni
takandi. Fram til þessa hafa ekki
verið gerðar margar umfangsmiklar
rannsóknir á knattspyrnufólki hvað
varðar hættuna á heilabilun. Algeng-
ara hefur verið að rannsakaðar séu
afleiðingar höfuðhögga í öðrum
íþróttagreinum, eins og í ameríska
fótboltanum vestan hafs eða í íshokkí
í Svíþjóð svo dæmi séu tekin.
Vel að verki staðið
Í rannsókninni voru sjúkraskrár
og dánarorsök 7.676 atvinnumanna í
knattspyrnu í Skotlandi, sem fæddir
eru frá árinu 1900 til 1976, skoðaðar
annars vegar og sambærilegar upp-
lýsingar um 23.028 almenna borgara
hins vegar. Í samanburðinum var
þess gætt að bera saman menn á
svipuðum aldri og úr svipuðum fé-
lagslegum aðstæðum. Dr. William
Stewart, sérfræðingur í taugasjúk-
dómum, stýrði rannsókninni en nöfn
fimm annarra fræðimanna og lækna
fylgja niðurstöðunum. Stewart þessi
sá um krufningu á líki Jeff Astle,
fyrrverandi landsliðsmanns Eng-
lands, í janúar 2002. Astle lést 59 ára
að aldri og hafði heilabilun þá hrjáð
hann um fimm ára skeið. Stewart
komst þá að þeirri niðurstöðu að
Astle hefði látist úr langvarandi
heilakvilla (CTE, chronic traumatic
encephalopathy). Segja má að málið
hafi þá komist á dagskrá í knatt-
spyrnuheiminum á Bretlandseyjum,
en ástvinir Astle tjáðu sig nokkuð um
örlög hans opinberlega.
Margar stofnanir og sjúkrahús í
Glasgow komu að rannsókninni og
var hún styrkt af knattspyrnu-
sambandinu í Skotlandi og leik-
mannasamtökunum þar í landi.
Aukin umræða um heilabilun
Hvað knattspyrnuna varðar bein-
ast spjótin að þeim þætti íþróttar-
innar þar sem leikmenn skalla
knötttinn. Einnig er vitaskuld hætta
á höfuðhöggum við samstuð. Hér í
blaðinu í fyrra var minnst á heimild-
armynd sem Alan Shearer, fyrrver-
andi landsliðsmiðherji Englendinga,
gerði um hættuna á heilabilun fyrir
knattspyrnufólk. Hann sagðist til að
mynda hafa verið látinn skalla knött-
inn oftar en hundrað sinnum á hverri
skallaæfingu.
Önnur hlið á málinu er svo niður-
stöður dr. Bennets Omalus fyrir
rúmum áratug. Hann komst að því að
síendurtekin högg á líkamann hjá at-
vinnumönnum í amerískum fótbolta
yrðu þess valdandi að heilinn hristist
í höfuðkúpunni, jafnvel þótt ein-
staklingurinn yrði ekki var við það og
væri einkennalaus. Þróuðu fyrrver-
andi leikmenn með sér skelfilega
heilabilun langt um aldur fram. Þar
var kominn nýr vinkill á vandamálið
því hættan er ekki eingöngu falin í
höggum á sjálft höfuðið, sérstaklega
ekki í íþróttum eins og amerískum
fótbolta, rúgbí og íshokkí. Auk þess
koma hjálmar ekki í veg fyrir heila-
hristing þótt þeir verji vel höfuðkúp-
una sjálfa.
Hér er um smá útúrdúr að ræða en
er nefnt vegna þess að uppgötvanir
Omalus höfðu svo mikil áhrif í
Bandaríkjunum að þar er börnum 11
ára og yngri meinað að skalla knött-
inn í knattspyrnu.
Kallar á frekari rannsóknir
Fyrstu viðbrögð við niðurstöðum
rannsóknarinnar eru komin í loftið ef
svo má segja. Dr. Carol Routledge,
sem stýrir Alzheimer-rannsóknar-
miðstöð í Cambridge, segir niður-
stöðurnar kalla á frekari rannsóknir
en skoða þurfi fleiri breytur til að fá
skýrari niðurstöður.
„Þessi vel unna rannsókn er sú
umfangsmesta sinnar tegundar og
fyllir upp í vissar eyður í þekkingu
okkar um tengslin á milli knatt-
spyrnuiðkunar og heilabilunar. Fyrr-
verandi atvinnumenn í knattspyrnu
njóta þess á ýmsan hátt líkamlega að
hafa stundað íþróttina en sterk fylgni
við heilabilun réttlætir frekari rann-
sóknir á alþjóðavísu til að átta okkur
betur á henni. Rannsóknin horfir
ekki til þess hvort fleiri þættir í lífi
leikmanna geti ýtt undir hættuna á
heilabilun en nú er mikil þörf fyrir
frekari hágæða rannsóknir til að
svara því,“ er haft eftir dr. Routledge
á heimasíðu rannsóknarmiðstöðv-
arinnar. Hún nefnir einnig að nið-
urstöður þessarar rannsóknar segi
okkur ekki hvernig bregðast megi við
vandanum eða hvort hann sé sá sami
hjá áhugamönnum eða fólki sem
stundar knattspyrnu sér til heilsu-
bótar.
Skipta knettirnir máli?
Eitt þeirra atriða sem verða vænt-
anlega til umfjöllunar varðandi rann-
sóknina er munurinn á þeim knött-
um sem notaðir voru fyrir nokkrum
áratugum og þeim sem síðar hafa
verið notaðir í íþróttinni. Í gamla
daga voru notaðir leðurboltar sem
ekki voru mjög þungir við kjör-
aðstæður en urðu grjótharðir og
þungir þegar þeir blotnuðu, sam-
kvæmt lýsingum knattspyrnu-
manna. Slíkar aðstæður fóru sjálf-
sagt illa með góða skallamenn eins
og Jeff Astle. En þess ber að geta að
rannsóknin nær til atvinnumanna
sem fæddust allt til ársins 1976 og á
þeirra leikmannaferli voru gömlu
tuðrurnar á bak og burt.
Knettirnir sem notaðir eru í meist-
araflokki í dag eru þó ekki beinlínis
mjúkir og er auðvelt að gefa sér að
einhver áhrif hljóti það að hafa að
skalla knöttinn daglega í mörg ár
eins og í tilfelli atvinnumanna. Ef til
vill hjálpar sú þróun eitthvað að
knattspyrnan er í auknum mæli leik-
in með jörðinni en minna í loftinu
eins og var algengt á Bretlands-
eyjum á árum áður.
Hvað sem tíminn kann að leiða í
ljós um áhrif knattspyrnuiðkunar á
heilabilun gætir nú þegar reiði hjá
aðstandendum knattspyrnumanna
sem glíma við heilabilun. Þykir
mörgum sem knattspyrnuheimurinn
hafi sofið á verðinum.
Var sofið á verðinum?
Niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar í Skotlandi benda til þess að at-
vinnumenn í knattspyrnu séu mun líklegri til að deyja úr heilabilun en aðrir
Rannsóknin
» Umfangsmikill samanburður
á fyrrverandi atvinnumönnum í
knattspyrnu og karlmönnum
sem ekki stunduðu knatt-
spyrnu.
» Sjúkraskýrslur og dánar-
orsakir skoðaðar.
» Knattspyrnumennirnir lifa
gjarnan lengur og fá síður
hjartasjúkóma og lungna-
krabbamein.
» Eru hins vegar mun líklegri
til að deyja úr heilabilun og fá
taugasjúkdóma.
AFP
Skallaeinvígi Lucas Ocampos leikmaður Sevilla og Tono leikmaður Levante í leik liðanna á dögunum.
Íslenska U17 ára landslið pilta í
knattspyrnu tapaði fyrir Króötum
3:2 í fyrsta leik sínum í undankeppni
EM, en riðillinn er spilaður í Skot-
landi. Íslendingar lentu undir 2:0 og
3:1. Orri Steinn Óskarsson úr Gróttu
og Danijel Dejan Djuric, leikmaður
danska liðsins Midtjylland, skoruðu
mörk íslenska liðsins, sem mætir
Skotum á föstudaginn og Armenum
á mánudaginn.
Egyptinn Mohamed Salah var
mættur aftur á æfingu hjá Liverpool
í gær, en vegna meiðsla í ökkla gat
hann ekki tekið þátt í leiknum á
móti Manchester United á Old Traf-
ford á sunnudaginn. Salah verður
væntanlega í byrjunarliði Evr-
ópumeistaranna í kvöld þegar liðið
sækir belgíska liðið Genk heim í
þriðju umferð riðlakeppni Meist-
aradeildarinnar.
Knattspyrnudeild Fram hefur
samið við markvörðinn Ólaf Íshólm
Ólafsson til næstu tveggja ára eða
út keppnistímabilið 2021. Ólafur
þekkir vel til hjá Fram því hann lék
þrettán leiki með liðinu á síðustu
leiktíð er hann var að láni frá
Breiðabliki. Breiðablik kallaði hann
aftur til sín í byrjun júní. Ólafur hef-
ur leikið 30 leiki í efstu deild með
Fylki og Breiðabliki.
Eitt
ogannað
KÖRFUKNATTLEIKUR
Dominos-deild kvenna:
Borgarnes: Skallagrímur – KR............19.15
Mustad-höllin: Grindavík – Snæfell.....19.15
Origo-höllin: Valur – Keflavík..............19.15
Ásvellir: Haukar – Breiðablik ..............19.15
Í KVÖLD!
ÞURR AUGU?
Rakagjöf er ekki fullnægjandi lausn
Einstök samsetning af
frumuvörn og smurningu
fyrir augun
Inniheldur
trehalósa
úr náttúrunni
Án rotvarnarefna
Tvöföld
virkni- sex sinnumlengri ending
Fæst í öllum helstu apótekum og Eyesland gleraugnaverslun Grandagarði og Glæsibæ, 5. hæð