Morgunblaðið - 21.11.2019, Page 36
36 FRÉTTIRErlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. NÓVEMBER 2019
Bagdad. AFP. | Hamza, sextán ára
Íraki, tók þátt í mótmælum í höfuð-
borg Íraks til að krefjast betri lífs-
kjara en það varð til þess að líf hans
versnaði: Hann fékk gat á hrygginn
og varð fyrir mænuskaða sem varð
til þess að hann lamaðist á öðrum
fæti.
„Þetta er fórn mín fyrir Írak,“
sagði Hamza og röddin var svo veik
að hún heyrðist varla. „Gæti ég
gengið væri ég að mótmæla núna.“
Hamza er einn af a.m.k. 3.000
manns sem hafa örkumlast í Bag-
dad og borgum í sunnanverðu land-
inu frá því að götumótmæli hófust
þar 1. október, að sögn samtaka
fatlaðra í Írak. Fyrir var þetta
stríðshrjáða land ofarlega á lista
Sameinuðu þjóðanna yfir lönd þar
sem hlutfall fatlaðra og lamaðra er
hæst.
„Læknarnir lífguðu hann við“
Alls hafa rúmlega 300 manns beð-
ið bana og 15.000 særst í mótmæl-
unum. Öryggissveitir hafa beitt
táragasi, hvellsprengjum og skot-
vopnum, jafnvel vélbyssum, til að
dreifa mótmælendunum. Öll þessi
vopn geta valdið dauða eða örkuml-
un fyrir lífstíð, eins og Hamza fékk
að reyna á eigin skinni. Hann var á
meðal um tuttugu manna sem særð-
ust þegar öryggissveitir hleyptu af
byssum á mótmælendur í Bagdad 4.
nóvember. Hamza fékk byssukúlu
gegnum magann og út um bakið,
þannig að stórt gat myndaðist.
Hann fékk einnig tvær byssukúlur í
fæturna.
Þegar Hamza var kominn á ná-
lægt sjúkrahús hafði hann misst
mikið blóð og hjartað var að gefa
sig, að sögn föður hans, Abu Layth.
Faðirinn sagði að læknar hefðu
endurlífgað unglinginn með stuð-
tæki, dælt í hann fjórum einingum
af blóði og sett hann í skurðaðgerð
þegar í stað. „Hann var eiginlega
dáinn. Læknarnir lífguðu hann við,“
sagði faðirinn. Samkvæmt sjúkra-
skýrslum, sem byggðust m.a. á
sneiðmyndum, varð unglingurinn
fyrir mænuskaða sem olli lömun á
hægri fæti.
Eftir að hafa legið á sjúkrahúsinu
í rúma viku er Hamza kominn til
fjölskyldu sinnar og hann fær enn
stöðugan skammt af deyfilyfjum.
„Stundum æpir hann af sársauka á
næturnar,“ sagði faðir hans.
Muwafaq al-Khafaji, formaður
samtaka fatlaðra í Írak, segir að
þeim teljist til að um það bil 3.000
manns hafi örkumlast í mótmæl-
unum frá 1. október og það byggist
á mati samtakanna sjálfra því að
yfirvöldin skrái ekki öll tilvikin eða
birti ekki nákvæmar tölur. Sam-
tökin fylltu upp í eyðurnar með því
að afla upplýsinga frá sjúkrahúsum
og fjölskyldum mótmælenda sem
særðust í Bagdad og sunnanverðu
landinu.
Þótt Írak hafi fullgilt samning
Sameinuðu þjóðanna um réttindi
fatlaðs fólks hafa fatlaðir og lamaðir
Írakar fengið litla heilbrigðisþjón-
ustu og orðið útundan á vinnumark-
aðnum og í samfélaginu. Þeir hafa
skipulagt eigin mótmæli á götum
Bagdad til að krefjast meiri stuðn-
ings frá hinu opinbera.
Heilbrigðiskerfinu hefur hnignað
mjög vegna skorts á tækjum og
starfsfólki. Starfsmenn sjúkrahúsa
hafa ekki farið varhluta af ofsóknum
vegna pólitískra skoðana eða deilna
milli þjóðarbrota. Mannréttinda-
hreyfingar segja að á meðal þeirra
sem hafa verið handteknir í
tengslum við mótmælin séu starfs-
menn sjúkrahúsa, m.a. læknar sem
hafa hlynnt að mótmælendum sem
sjálfboðaliðar.
„Verðum enn fastari fyrir“
Aukið álag á starfsfólkið hefur
orðið til þess að særðir mótmæl-
endur fá ekki fullnægjandi aðhlynn-
ingu nógu fljótt, með þeim afleið-
ingum að þeir geta fengið alvarlegar
sýkingar í sár. Læknar hafa þurft
að aflima mótmælendur til að
bjarga lífi þeirra, að sögn Farah,
nítján ára læknanema á meðal sjálf-
boðaliða í stærstu búðum mótmæl-
enda á Tahrir-torgi í Bagdad.
Sjúkraliðar hlynna að særðum
mótmælendum í sjúkratjöldum á
torginu og á meðal þeirra sem hafa
fengið aðhlynningu er Ali, þrítugur
Íraki sem er með sáraumbúðir þar
sem hægra augað ætti að vera.
Hann var á nálægri brú 24. október
þegar hann heyrði skothvelli og sá
hundruð manna hlaupa í burtu í
dauðans ofboði. Hvellsprengja
sprakk við fætur hans og hann féll í
yfirlið, en komst til meðvitundar á
sjúkrahúsi um klukkustund síðar.
Hann gat aðeins opnað annað augað
vegna þess að hitt hafði orðið fyrir
sprengjuflísum.
„Þeir vilja hræða mótmælendur,
en við verðum enn fastari fyrir,“
sagði hann. „Íraska þjóðin hefur
þolað allt. Við erum fædd til að
deyja.“
„Þetta er fórn mín fyrir Írak“
Talið að minnst 3.000 manns hafi örkumlast í árásum öryggissveita á mótmælendur á götum
Bagdad og fleiri borga í Írak frá 1. október Rúmlega 300 manns hafa látið lífið og 15.000 særst
AFP
Mannskæðar árásir Sjálfboðaliðar hlynna að mótmælanda sem særðist þegar táragashylki var skotið á mótmæl-
endur í Bagdad. Talið er að a.m.k. 3.000 Írakar hafi örkumlast í árásum öryggissveita á mótmælendur í Írak.
Þrjár milljónir Íraka
sagðar búa við fötlun
» Ekkert lát er á blóðsúthell-
ingunum í Írak eftir stríð Íraka
og Írana á árunum 1980-1988,
innrás Bandaríkjanna og fleiri
landa árið 2003 þegar ein-
ræðisherranum Saddam Huss-
ein var steypt af stóli og síðan
stríðið gegn samtökunum Ríki
íslams sem náði hluta landsins
á sitt vald og lýsti yfir stofnun
íslamsks ríkis árið 2014.
» Hvert þessara stríða kostaði
tugi þúsunda Íraka lífið og
margir örkumluðust fyrir lífs-
tíð.
» Hagstofa Íraks segir að tvær
milljónir af 40 milljónum íbúa
landsins eigi rétt á aðstoð frá
ríkinu vegna fötlunar. Samtök
lamaðra og fatlaðra Íraka og
mannréttindahreyfingar telja
hins vegar að rúmlega þrjár
milljónir Íraka búi við fötlun og
þeim haldi áfram að fjölga
vegna árás öryggissveita á
mótmælendur.
Washington. AFP. | Gordon Sond-
land, sendiherra Bandaríkjanna hjá
Evrópusambandinu, sagðist í gær
hafa farið að fyrirmælum Donalds
Trumps Bandaríkjaforseta með því
að óska eftir „quid pro quo“, eða
endurgjaldi, frá Úkraínumönnum.
Hann kvaðst hafa talið að forsetinn
hefði verið að knýja Úkraínumenn til
að hefja rannsókn á pólitískum and-
stæðingi Trumps, Joe Biden.
„Við fórum að fyrirmælum forset-
ans,“ sagði Sondland í yfirlýsingu
sem hann las áður en hann svaraði
spurningum leyniþjónustunefndar
fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem
rannsakar meint embættisbrot for-
setans með það fyrir augum að
ákæra hann til embættismissis.
Fjölmiðlar og þingmenn fylgdust
grannt með vitnisburði Sondlands,
einkum vegna þess að hann var á
meðal bandamanna Trumps. Hann
sagði að forsetinn hefði knúið
stjórnarerindreka til að vinna með
Rudy Giuliani, einkalögfræðingi
Trumps, sem beitti sér fyrir því að
Úkraínumenn hæfu rannsóknir á Bi-
den og vefengdri samsæriskenningu
um að Úkraínumenn hefðu sett vís-
bendingar í netþjón demókrata-
flokksins til að sanna að Rússar
hefðu haft afskipti af forsetakosn-
ingunum í Bandaríkjunum 2016.
Sondland sagði að með beiðninni um
rannsóknirnar hefði Giuliani óskað
eftir endurgjaldi fyrir heimsókn for-
seta Úkraínu í Hvíta húsið í Wash-
ington. Hann kvaðst aldrei hafa
fengið skýrt svar við því hvers vegna
stjórn Trumps frestaði fjárhagsað-
stoð sem þingið hafði samþykkt að
veita Úkraínu vegna hernaðar
Rússa. Hann kvaðst því hafa dregið
þá ályktun að frestun aðstoðarinnar
tengdist einnig beiðninni um rann-
sóknirnar.
Hlýddi skipun-
um Trumps
AFP
Rannsókn Gordon Sondland sendi-
herra kom fyrir þingnefnd í gær.
Óskaði eftir
endurgjaldi frá
Úkraínumönnum