Skessuhorn


Skessuhorn - 19.06.2019, Blaðsíða 18

Skessuhorn - 19.06.2019, Blaðsíða 18
MIÐVIKUDAGUR 19. jÚnÍ 201918 Á hákarlasafninu í Bjarnarhöfn í Helgafellssveit geta gestir fengið persónulega leiðsögn og fræðslu um hákarla og hákarlaverkun, en fjöl- skyldan í Bjarnarhöfn hefur stundað hákarlaverkun í nokkrar kynslóðir. Síðustu ár hafa margir gestir feng- ið leiðsögn frá Mariu Stellu Faccin sem flutti fyrst til Íslands árið 2016 til að vinna í Bjarnarhöfn. „Í byrj- un var ég bara forvitin um Ísland, helst var það samt kuldinn. Ég var komin með nóg af hitanum á Ítalíu og langaði að fara þangað sem væri kaldara. Það er engin sérstök fal- leg saga um af hverju ég kom hing- að. Ég hafði áður búið í Rússlandi í eitt ár en langaði eitthvert annað og horfði þá helst til norðurlandanna og fékk fyrst vinnu hér. Það er í rauninni ástæðan fyrir að ég endaði á Íslandi,“ segir Maria. Líkar vel að vera einangruð Þegar Maria lenti fyrst á Íslandi í apríl var gróðurinn enn að koma undan vetri. „Það var allt appels- ínugult, gult, rautt og brúnt ennþá, mér fannst ég hafa lent á mars,“ seg- ir hún og hlær. „En svo fór grasið fljótlega að spretta og það var ótrú- lega gaman að fá að sjá svona augljós árstíðaskipti,“ bætir hún við. Maria er 24 ára, fædd og uppalin í bænum Savignano Sul Rubicone á Ítalíu. „Ég gekk í skóla þar sem áherslan var mest á kúltur eins og sögu, bók- menntir og tungumál. Ég hef allt- af átt auðvelt með tungumál svo ég fór inn á þá braut. Ég fór í eitt ár sem skiptinemi til Rússlands þegar ég var 17-18 ára en ég hafði alltaf heillast að Rússlandi, frá því ég var barn. Þar lærði ég að tala tungumál- ið og sá að við erum ekki öll eins,“ segir Maria. En hvað var það við Ísland sem fékk Mariu til að koma hingað fjög- ur sumur í röð? „Það er svo margt sem ég elska við Ísland. Ég varð strax ástfangin af staðnum, vinnunni minni og fólkinu sem ég vinn með. Fólkið hér í Bjarnarhöfn er fjöl- skyldan mín í dag og mér hefur allt- af liðið vel hér hjá þeim. Á Íslandi lærði ég svo enn betur að bera virð- ingu fyrir því hversu ólík við erum öll. Á Íslandi finnst mér ég geta ein- beitt mér betur að sjálfri mér og ég á auðveldara með að skilja við allar neikvæðar tilfinningar. Hér í Bjarn- arhöfn er ég frekar einangruð og mér líkar það vel. Það skilja það ekki allir, en Íslendingar skilja mig. Ég er oft spurð hvernig ég geti búið svona langt frá öllu, hvar ég kaupi í matinn og hvort við lokumst ekki inni á vet- urna út af snjó,“ segir Maria og hlær. „Við höfum ekki lokast inni og það tekur bara um 20 mínútur að keyra í Stykkishólm til að fara í búð eða sund. Ég fer oft í sund en ég man fyrst þegar ég kom hugsaði ég bara: Ó, Guð, sundlaugin, er úti og það er kalt úti. En núna elska ég að fara og slaka á í sundi,“ bætir hún við. Ekki ætlað að tjá sig með tungumáli Aðspurð segist Maria hafa lært að- eins íslensku þann tíma sem hún hefur verið hér en að hún skilji fyrst og fremst það sem tengist hákörlum og harðfiski. „Ég tala ítölsku, rúss- nesku, ensku og smá spænsku en svo skil ég aðeins málfræðina í frönsku og þýsku. Þegar ég fór að vinna hér í Bjarnarhöfn ákváðum við að ég myndi frekar einbeita mér að leið- sögn á þeim tungumálum sem ég kann, en að læra íslensku. En ég elska tungumál og ég elska málfræði og ég hef lært aðeins íslensku,“ seg- ir hún. En á hvaða tungumáli hugs- ar Maria? „Það er góð spurning. Ég held að ég hugsi eiginlega aldrei á tungumáli. Ég hugsa í myndum, lit- um, formum og tilfinningum. Það er kannski dálítið ítalskt, við Ítalir erum svo tilfinningaríkir,“ segir hún og hlær. „Mig hefur samt dreymt á öðrum tungumálum en ítölsku, ætli það fari ekki bara eftir því hvaða tungumál er ríkjandi í mínu lífi á hverjum tíma.“ Tungumálanám- ið var þó aldrei draumur Mariu og stefnir hún á að fara til Skotlands í listnám næsta haust. „Á Ítalíu, eins og örugglega í mörgum löndum, er áherslan alltaf á að læra það sem gef- ur pening. Þar sem ég átti auðvelt með tungumál ýtti samfélagið mér eiginlega út í þannig nám og ég átti að vera túlkur. En ég held að mér sé ekki ætlað að tjá mig á tungumáli. Ég held að litir, form, myndir og list sé það sem hentar mér best til að tjá mig, svo ég ákvað að fara í háskóla í Skotlandi að læra það,“ segir hún og brosir. Aðspurð segir hún listina alltaf hafa blundað í sér og að frí- tíma sínum eyði hún helst alltaf með bursta og málningu í hönd. „Ég held að við fæðumst öll listamenn en svo færumst við á aðrar brautir. Þegar við erum börn höfum við flest áhuga á að segja sögur, hvort sem er með að skrifa, nota liti eða eitthvað ann- að til að skapa. Ég hef allavega alltaf elskað að segja sögur og mín leið til þess er í gegnum list,“ segir Maria. Lyktin angrar ekki Aðspurð segist hún ekki hafa vitað neitt um hákarla áður en hún kom fyrst í Bjarnarhöfn. „En ég á mjög auðvelt með að læra. Það er al- veg nóg fyrir mig að heyra sögurn- ar einu sinni og svo segi ég þær sjálf bara oft og þá festast þær í minninu. Og í vinnunni minni segi ég sög- urnar aftur og aftur og þannig eru þær bara fastar þar núna,“ segir hún og hlær. Hún heillaðist strax af há- körlum, sögu Íslendinga um há- karlaveiðar og hákarlaát og hvern- ig fjölskyldan í Bjarnarhöfn, sem kemur af Ströndum, tengist þeirri sögu sterkum böndum. „Mig langar núna að læra meira um hvað gerð- ist milli þess sem Íslendingar hættu að veiða hákarl og þar til þeir fóru að borða hákarl aftur, en ég held að það sé mikið Hildibrandi að þakka. Þetta er allt svo heillandi og ég elska að sjá hvernig hákarlinn er verkaður hér í Bjarnarhöfn. Ég elska líka sjálf að fara út og skera hákarlinn,“ segir Maria og brosir. En borðar hún há- karlinn sjálf? „Ég hef elskað hákarl frá því ég smakkaði hann fyrst. Það trúa því ekki allir en þannig er það samt og ég var ekki sú eina í fjöl- skyldunni minni. Mamma er ekkert svo hrifin en pabbi elskar þetta og ég fer stundum með smávegis há- karl fyrir hann þegar ég fer heim,“ segir hún. „Lyktin hefur heldur aldrei angrað mig neitt og angr- ar ekki heldur foreldra mína þegar þau hafa komið í heimsókn. Ég veit ekki af hverju það er, kannski því við erum vön mjög sterkum ostum með sterkri lykt,“ segir Maria. Mikill menningarmunur Maria segir menninguna á Íslandi og Ítalíu mjög ólíka. Á Ítalíu lærir fólk að það sé í lagi að líða ekki allt- af vel og vera ekki alltaf hamingju- samur með lífið og að það sé í lagi að sýna allar tilfinningar. „Ítalir hafa miklar tilfinningar og það þykir til dæmis alveg í lagi að öskra á fólk, það er ekki alltaf kurteisi en samt í lagi og alveg samþykkt. Þegar fjöl- skyldan mín hittist eru oft mikil læti og fólk öskrar mikið, líka bara af gleði. Ég elska að hafa þetta svona en stundum getur þetta orðið mjög mikið og maður orðið þreyttur. Ís- lendingar hafa mikið meiri stjórn á tilfinningum sínum og ég hef lært að hafa það líka, sem mér þykir gott. Það sem ég hef lært um lífið hér á Íslandi er mjög jákvætt, eins og að hér þykir það meira í lagi að vilja bara vera einn. Það dæmir mig eng- inn á Íslandi fyrir að vilja bara vera heima með penslana mína frekar en að hitta fólk. Ég er mikill ein- fari og ég held að margir Íslening- ar séu það líka,“ segir Maria. „Ítal- ir eru líka mikið meira með reglur á meðan Íslendingar eru frjálslegri og eiga auðveldara með breyting- ar, eru afslappaðri og mikið óskipu- lagðari en Ítalir,“ segir hún og hlær. Þá segir Maria matinn á Íslandi líka ólíkan ítalska matnum en jafnframt að henni líki vel við íslenska matinn. „Ég er kjötæta og elska kjöt. Á Ítalíu borðum við mikið grænmeti og ít- alskur matur er almennt mjög holl- ur. En á Íslandi fæ ég að borða eins mikið kjöt og ég vil, sem ég elska. Við borðum til dæmis mikið lamba- kjöt hér en það er hefðbundinn há- tíðarmatur um páskana á Ítalíu. Ég elska ítalskan mat en ég elska líka íslenskan mat svo það er bara bæði gott,“ segir Maria. Í ár er síðasta sumarið sem Maria mun taka á móti gestum í Bjarnar- höfn en næsta vetur verður hún í Skotlandi við nám. „Ég fæ örugglega bara svona mánuð í sumarfrí svo ég held ég geti ekki komið til Íslands þá, langar samt ekki að segja að ég muni ekki koma. Ég elska Ísland og ég mun pottþétt koma hingað aftur einn daginn. Ísland hefur kennt mér svo margt og ég elska fjölskylduna mína hér á Íslandi.“ arg Á Hákarlasafninu í Bjarnarhöfn kennir margra grasa. Mikið safn fugla og muna úr eigu fjölskyldunnar frá Asparvík og síðar Bjarnarhöfn. Ljósm. mm. Hefur elskað hákarl frá fyrsta smakki Tungumálakonan Maria leiðbeinir gestum á hákarlasafninu í Bjarnarhöfn Maria Stella Faccin, leiðsögumaður í Bjarnarhöfn, segir lyktina af hákarlinum aldrei hafa angrað sig. Hér er hún að sýna blaðamanni hákarlinn sem hangir og bíður þess að verða verkaður. Ljósm. arg. Hér má sjá hákarlinn hanga. Fyrst eru stykkin stór og hanga langt niður en á meðan þau hanga lekur úr þeim vökvi og þau minnka hægt og rólega. Stykkin næst í mynd eru búin að minnka um helming og eiga enn töluvert eftir. Ljósm. arg. Maria að segja gestum frá öllu sem viðkemur hákarli í heimshöfum og til matar á þorradiski.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.