Hugur og hönd - 01.06.1988, Blaðsíða 7

Hugur og hönd - 01.06.1988, Blaðsíða 7
Amma Theó Flestir einstaklingar, sem komnir eru yf- ir miðjan aldur eiga þær minningar um gamalt fólk bernsku sinnar, að því hafi aldrei fallið verk úr hendi. Þessu fólki var vinnusemi í blóð borin og helst að sinna tvennu í einu, ef mögulegt var. Amma mín Theodóra var þar engin und- antekning þó segja megi að hennar hlut- skipti hafi á engan hátt verið sambærilegt við líf alþýðukvenna fyrri tíma. Þegar ég kynnist ömmu Theó (en svo var hún kölluð af barnabörnunum) fyrst að ráði á hún heimili með foreldrum mínum árin 1940—1942. Síðar dvaldist hún hjá þeim flest sumur í sumarbústað austur í Ölvesi. Þessi tvö ár sátum við oft að spjalli, ég var spurull krakki og forvit- inn, og sagði hún mér ýmislegt frá bernskudögum sínum. Hún var yngst fimmtán barna hjónanna Katrínar Ólafs- dóttur úr Flatey og sr. Guðmundar Ein- arssonar úr Skáleyjum. Þegar hún fædd- ist 1. júlí 1863 voru aðeins tvö systkini hennar á lífi, Ásthildur sex ára og Ólafur á öðru ári. Hún hlaut nafnið Þeodóra (guðsgjöf) Friðrika, og sagði hún mér að faðir sinn hafi ávallt notað þ-hljóðið þeg- ar hann tók sér nafnið í munn. Frá sex ára aldri ólst hún upp að Breiðabólstað á Skógarströnd, sem þá þótti vildisjörð. Oft lýsti hún fyrir mér útsýni þaðan og landslagi, sagði mér örnefni og setti þá fornöfn með, t.d. hún Svínafossá, hann Háskerðingur. Hún sagði mér frá eyjum og eyjanytjum, skógi og skepnum og un- aði þess að ríða vökrum hesti. Þegar talið barst að hrossum og hlaupum við þau kom blik í augu henni og lýsingar hennar urðu svo lifandi, að ég á í hugskoti mínu mynd af stelpukrakka (orð ömmu) ríð- andi hart, berbakt, jafnvel við einteym- ing, yfir móa og mýrarsund, hár og svunta flaksandi. (Sjá þuluna: Ríðum, ríðum til Logalanda... og minningaþátt- inn Sveitaveislur í Ritsafni.) Ekki mun þetta hafa verið maddömu Katrínu að skapi, né þótt sæma prófasts- dóttur, en þá þegar hafði hún þor til að fara að einhverju eigin leiðir og mun sr. Guðmundur hafa haft gaman af (sjá for- mála Sig. Nordals að Ritsafni). Iðulega fylgdi hún föður sínum í húsvitjanir og kynntist þá bágum kjörum almennings. Heimilið að Breiðabólstað var talið mikið menningarheimili, auður í garði, góður viðurgerningur húsbænda og hjúa og vel hlúð að gestum og gangandi. Öll systkinin höfðu ríka samúð með lítil- magnanum og var það hvorutveggja eðl- islæg hjartahlýja og áhrif frá uppeldi. Það á svo margur maður bágt mig hefur furðað tíðum hvað þeir gátu grátið lágt í gaddi og krapahríðum. Eg á mér líka mynd af baðstofu og hjóna- húsi á Breiðabólstað og lífinu innanbæj- ar. Þar kepptist hver við sitt, húsbændur, börn og hjú. Amma hafði það eftir móð- ur sinni, að aldrei mætti fara frá hálf- loknum prjóni, því þá kæmist Skrattinn og árar hans í verkið og rugluðu lykkjun- um. (Mér dettur þetta í hug í hvert sinn sem ég legg frá mér prjóna.) Ásthildur eldri systirin beygði sig ljúf undir aga móður sinnar, sat við hannyrðir, en amma las fyrir fólkið eða lærði, ásamt Ólafi, hjá föður sínum. Sagt var að hann hafi haft gaman af að kenna þessari dótt- ur sinni ýmis fræði, m.a. undirstöðu í latínu. En amma brást ekki móður sinni að heldur. Hún nam það innanstokks, sem kallaðar voru kvenlegar dyggðir, prjón og hekl, saum og margslunginn listsaum og drakk í sig um leið hvers kyns frásagnir, ljóð og þjóðlegan fróð- leik. Þó var henni frelsið utanbæjar alltaf kærara, eins og þetta vísubrot gefur til kynna: Ég þráði að leika lausu við sem lamb um græna haga. Oft sagðist hún hafa vorkennt Ásthildi systur sinni, sem sat öllum stundum hlýðin inni á palli við hannyrðir. — Mér er nær að halda, að frelsið, sem amma naut í bernsku, hafi opnað augu hennar fyrir furðum náttúrunnar og fegurð, sem leynist í sérkennilegum og litríkum steinum. Hún varð á efri árum mikill steinasafnari og sá margvíslegar myndir, menn, tröll og skepnur í steinum og klettum. Gaman var að koma inn til ömmu og gramsa í pjötlupokum og garnkössum, perlu- og töluboxum og öskjum, sem höfðu að geyma alls konar hluti og lá engan veginn í augum uppi notagildi þeirra. Þarna voru lærisbein úr dilk, fuglsbein, vírar, steinvölur og fleira. Ekki var það vinsælt af hennar hálfu, en þegar hún var sjálf að dunda við þessar gersemar sínar, sá maður sér leik á borði uns hún rankaði við sér og sagði: ,,Æ hana láttu þetta nú vera og hættu þessu tæti,“ og varð ég þá misfljót að kippa til mín höndunum. — Amma Theó var föndrari af guðsnáð. Flestum hlutum ónýtum velti hún í höndum sér, hallaði undir flatt eins og hún væri að gaum- gæfa, hvort ekki mætti nú nýta þá til ein- hvers gagns eða gamans. Lærleggsbein voru notuð sem stoð undir blýanta, fuglsbein söguð í sundur, tekinn úr þeim bútur og þar með var komið nálhús, steinar gátu orðið fyrirtaks kertastjakar eða öskubakkar. Þegar amma var að 1. Theodóra Thoroddsen. HUGUR OG HÖND 7

x

Hugur og hönd

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hugur og hönd
https://timarit.is/publication/1414

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.