Bændablaðið - 06.07.2017, Side 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. júlí 2017
Fyrirtækið í Hveragerði þvær og þurrkar plast til endurvinnslu:
Endurvinna heyrúlluplast með jarðvarma
- Umgengni bænda við heyrúlluplast virðist landsvæðaskipt
Heyrúlluplastið er þvegið og þurrkað hjá Pure North Recycle í Hveragerði og sent í 800 kg böggum til Bretlands
þar sem það er notað sem hráefni í framleiðslu á plastvörum.
Árlega fellur til um 2.500 tonn
af heyrúlluplasti hér á landi.
Þetta plast hefur hingað til verið
urðað eða sent óunnið úr landi,
að sögn Sigurðar Halldórssonar,
framkvæmdastjóra Pure North
Recycling, sem sérhæfir sig í
hreinsun og þurrkun á notuðu
heyrúlluplasti sem síðan er nýtt
í framleiðslu á endurunnum
plastvörum. Hann vill fá bændur
í lið með sér við að umgangast
heyrúlluplast sem hráefni.
Fyrirtækið Pure North Recycling
var stofnað árið 2015 en starfsstöð
þess er í Hveragerði, og ekki að
ástæðulausu. „Við leiðum jarðgufu
inn í húsið og nýtum það á tvenns
konar hátt. Annars vegar til að
þurrka efnið og hins vegar við
hreinsun á efninu. Við notum engin
kemísk efni og skiljum eftir okkur
lítil sem engin kolefnisspor sem
gerir okkur einstök í samanburði við
sambærilegar vinnslur erlendis,“
segir Sigurður.
Vinnsluferlið felur í sér að
hreinsa og þurrka og tæta niður
notað heyrúlluplast, pressa það í
bagga sem flutt er úr landi, mest
til Bretlands þar sem það fer í
áframframleiðslu. Gæði þess plasts
sem kemur úr vinnslunni er slík að
nú hefur fyrirtæki í Bretlandi hafið
framleiðslu á plastpokum sem
eru 100% úr endurunnu plasti frá
fyrirtækinu.
Skagfirðingar til fyrirmyndar
Heyrúlluplast kemur til vinnslu
til þeirra frá öllum landshlutum
gegnum stóru söfnunaraðila sorps.
Sigurður segir bændur umgangast
heyrúlluplast á æði ólíkan hátt.
„Þetta kemur í mjög misjöfnu
ásigkomulagi til okkar. Umgengnin
virðist einnig landsvæðaskipt.
Þannig fáum við alltaf mjög
hreint og velumgengið plast frá
Skagafirði. Annars staðar frá
fylgir því oft mikið af böndum og
jafnvel heimilissorp,“ segir hann
og hvetur bændur til að umgangast
heyrúlluplast sem vöru enda skiptir
það miklu máli upp á áframhaldandi
vinnslu á plastinu.
Safna plasti í fiskikör
„Margir bændur hafa notað gömul
fiskikör. Þeir leggja bönd í botninn
og safna svo plastinu í körin. Þeir
setja gjarnan farg ofan á það til að
halda því saman og koma í veg fyrir
að sandur og annað slíkt blandist
með. Svo er bundið um það þegar
karið fyllist. Þetta er ákjósanleg
lausn, bæði ódýr og hagkvæm.
Ekki væri verra ef plastið væri
litaflokkað því hér þurfum við að
skila því þannig af okkur,“ segir
Sigurður.
Verðmætasköpun og
náttúruvernd
Í fyrra, á fyrsta starfsári vinnslunnar,
fóru um 300 tonn af fullunnu
plasti frá fyrirtækinu. Afkastageta
vinnslunnar er nú upp undir tonn á
klukkutíma og gæti því annað öllu
því umbúðaplasti sem til fellur á
landinu og rúmlega það.
Sigurður segir að stefnt sé að
því að fyrirtækið endurvinni 3000–
5000 tonn af plasti á ári, þar á meðal
umbúðaplast, en fyrst um sinn mun
það einblína á heyrúlluplast.
„Með því að endurvinna það
heyrúlluplast sem til fellur hér á
landi er komið í veg fyrir augljósa
mengun og að plastinu sé fargað
með urðun, brennslu eða öðrum
minna vistvænum aðferðum.
Krafa um endurvinnslu er að
aukast á heimsvísu en Ísland er í
dag eftirbátur flestra Evrópulanda
þegar kemur að endurvinnslu og
endurnýtingu og því liggja mörg
tækifæri hjá þeim sem taka forystu
í þeim efnum,“ segir Sigurður.
/ghp
plastið og halda því hreinu svo hægt sé að endurvinna það.
Bylting fyrir hestamenn á Ísafirði:
Reiðhöll rís í Engidal
Fyrsta skóflustungan að nýrri
reiðhöll á félagssvæði hesta-
mannafélagsins Hendingar í
Engidal var tekin við hátíðlega
athöfn þann 28. júní.
Húsnæðið mun verða 900 fm að
stærð með 20x45 m reiðhöll ásamt
félagsaðstöðu fyrir hestamenn.
Húsnæðið verður fjármagnað
með bótum sem Ísafjarðarbær og
Vegagerðin greiða félaginu fyrir
aðstöðumissi hestamannafélagsins
á Búðartúni í Hnífsdal vegna
framkvæmda Bolungarvíkurganga.
„Þetta er niðurstaða sem kemur
upp úr áratugalöngum þrætum. Við
töpuðum öllum okkar völlum og
aðstöðu þegar Bolungarvíkurgöngin
voru gerð og höfum því verið
aðstöðulaus í 10 ár,“ segir Marinó
Hákonarson, formaður hestamanna-
félagsins Hendingar.
50 milljón króna uppbygging
Samkomulag Ísafjarðarbæjar og
hestamannafélagsins var undirrit-
að þann 19. júní sl. Í því felst að
Ísafjarðarbær og Hending stofna
með sér einkahlutafélag sem sér
um að reisa og reka reiðhöllina.
Ísafjarðarbær leggur 30 milljónir í
hlutafélagið og Vegagerðin greiðir
félaginu 20 milljónir í bætur. Marinó
segist vona að húsnæðið verði komið
í notkun næsta vetur.
„Þetta er algjör bylting og við
erum geysilega bjartsýn á fram-
haldið. Þetta gjörbreytir allri
æfingar- og kennsluaðstöðu okkar.
Hér gátum við ekki haldið nein
námskeið, nema á vorin og haustin,
en nú opnast möguleiki á að bjóða
upp á kennslu og viðburði allan
ársins hring,“ segir Marinó.
Hestamannafélagið Hending
telur um 50 manns, en þeim hefur
fækkað mikið á síðustu árum,
ekki síst vegna aðstöðuleysisins.
Samkvæmt Marinó halda kringum
30 manns um 110 hrossum á húsi í
Engidal á veturna. /ghp
Mæðgurnar Auður Björnsdóttir og
María Sigurðardóttir tóku fyrstu
Skógafoss. Mynd / HKr.
Umhverfisstofnun:
Skógafoss á rauðan lista
Umhverfisstofnun gefur árlega
út skýrslu um ástand friðlýstra
svæða á Íslandi. Á tveggja ára
fresti er gefinn út svokallaður
„rauði listinn – svæði í hættu“ sem
byggður er á ástandsskýrslunni.
Sú breyting hefur nú orðið að eitt
svæði, náttúruvættið Skógafoss,
færist af appelsínugulum lista á
rauðan lista.
Svæðið lætur mikið á sjá
vegna gríðarlegrar aukningar á
ferðamönnum sem heimsækja
svæðið allt árið um kring. Lítil
landvarsla er á svæðinu og
stýringu ferðamanna um svæðið
er ábótavant.
Eitt af markmiðum rauða listans
er að forgangsraða kröftum og
fjármunum til verndunar, að
auka meðvitund um ákveðna
hættu og efla samstarf meðal
umsjónaraðila, hagsmunaaðila og
stofnana sem koma að fjármögnun,
skipulagningu, vöktun og stjórnun
svæða. Þetta kemur fram á vefsíðu
Umhverfisstofnunar.
Ekki nægar aðgerðir
Friðlandið Fjallabak, Helgu-
staða náma, Verndarsvæði
Mývatns og Laxár, Geysir og
Reykjanesfólkvangur verða áfram
á rauða listanum að sinni. Þær
aðgerðir sem hafa verið gerðar á
svæðunum að undanförnu hafa
verið mikilvægar en duga ekki til að
þau fari af rauða listanum að þessu
sinni. Landvörslu þarf að bæta
umtalsvert á öllum þessum svæðum
til að auka vernd þeirra. Eitt nýtt
svæði kemur inn á appelsínugulan
lista, Dettifoss, vegna aukins
ágangs ferðamanna og lengingar
ferðamannatímabilsins.
Fjögur svæði fara af listanum
Fjögur svæði fara hins vegar alveg
af listanum. Þau eru Eldborg í
Bláfjöllum, Fossvogsbakkar og
Háubakkar vegna þess að þar
hafa aðgerðir Umhverfisstofnunar
og Reykjavíkurborgar í stýringu,
upprætingu framandi tegunda og
fræðslu bætt stöðu mála umtalsvert.
Nokkur svæði eins og
Surtarbrandsgil og Dynjandi eru á
batavegi en ekki farin af listanum,
þar sem flestar framkvæmdir sem
áætlaðar voru eru á lokametrunum
en ekki búnar. Eftirlit með svæðinu
hefur verið aukið, gestastofa
Surtarbrandsgils hefur verið
opnuð á Brjánslæk og vinna við
stjórnunar- og verndaráætlun er á
lokametrunum. /MÞÞ