Bændablaðið - 06.07.2017, Page 37
37Bændablaðið | Fimmtudagur 6. júlí 2017
vinnslu á þelinu eða geitafiðunni
hér heima. Fram til þessa hafa
íslenskir geitabændur einkum sent
fiðu í spunaverksmiðjur í Noregi,
en það er mjög dýrt og erfitt við
að eiga.
Nú eru hjónin Hulda
Brynjólfsdóttir og Tyrfingur
Sveinsson á Tyrfingsstöðum, rétt
austan Þjórsár á Suðurlandi, að
kaupa tæki og búnað til að setja
upp litla spunaverksmiðju. Vélarnar
eru af Belfast Mini Mill gerð og
koma frá Kanada. Hefur fjármagni
vegna kaupanna m.a. verið safn-
að í gegnum fjármögnunarsíðuna
indiegogo.com. Byrjað var að setja
vélbúnaðinn upp í síðustu viku með
aðstoð tæknimanns frá Kanada.
Hulda sagði í samtali við
Bændablaðið að allt væri þetta gert
í nafni fyrirtækis þeirra hjóna sem
heitir Sveitakallinn en reksturinn á
spunaverksmiðjunni verður undir
nafninu Uppspuni.
Fyrst og fremst verður stílað inn
á að framleiða band sem er með-
höndlað af meiri varúð en stærri
vélar ráða við og því verður bandið
mýkra. Hægt verður að koma með
ull til þeirra og fá hana unna í band
eftir óskum, eða í kembur sem hægt
verður að handspinna úr eða þæfa.
Er smám saman á læra á geitina
„Maður er smám saman að kynnast
geitinni og læra meira á hana,“
segir Helena. „Hún er talsvert
frábrugðin sauðfénu. Við vorum
líka með fé, en létum það allt frá
okkur og ákváðum að gerast bara
geitabændur.
Geitur eru mannelskar líkt og
hundar. Geiturnar sem ég er að
rækta eru frekar gæfar og það
dugar að flauta, þá elta þær mig
og koma á eftir mér inn í hús. Þær
vilja helst allar fá klór og klapp
og ég held að ef maður er góður
við þær þá strjúki þær ekkert frá
manni. Þær fá að éta og fá hlýju og
þar sem þær eru hjarðdýr þá halda
þær mjög hópinn. Það er því orðið
mjög vinsælt að koma í heimsókn
til okkar og skoða geiturnar. Þetta
er líka mjög skemmtilegt og gaman
að þróa vöru úr því sem geitin gefur
af sér.“
Margir hissa á geitaáhuganum
Helena segir að bændur í sveitinni
hafi svo sem ekki haft sérlega
mikið álit á hennar búskap og
undrist að hún skuli velja sér
geitur sem bústofn. Menn hafi
ekki haft sérlega mikla trú á að
það sé hægt að nýta geitur til
að framleiða boðlegar afurðir.
Þá segir hún að menn haldi að
erfitt sé að eiga við geiturnar
og að þær séu strokgjarnar og
stökkvi yfir girðingar. Helena
segir sína reynslu allt aðra og
þegar hún hafi verið að bjóða
upp á geitakjöt sé fólk oft búið
að dæma fyrirfram án þess að
hafa smakkað.
Geitakjöt er með hærra
próteinhlutfall og fituminna en
lambakjöt. Einnig er það þéttara,
með fínni kjöttrefjar og rauðara en
lambakjötið.
Hún segir að geitur hafi í
gegnum tíðina ekki þótt vænlegar
til að búa með. Þær hafi fyrst og
fremst verið dýr fátæka mannsins,
en séu verulega vanmetnar skepnur.
Það hafi m.a leitt til þess að íslenska
geitin er í útrýmingarhættu.
Stofninn var kominn niður í 222
dýr árið 1981, en geitum hefur hægt
og bítandi verið að fjölga á síðustu
áratugum. Þannig var stofninn
kominn í 1.188 skepnur á síðasta
ári, samkvæmt tölum Búnaðarstofu
MAST.
Þann 1. janúar 2017 tók gildi
reglugerð um geitfjárbúskap. Þar
er tekið fram að til að geta fengið
styrk til að viðhalda viðkvæmum
geitastofni, verði ræktendur að búa
á lögbýli. Helena segir að margir
geitabændur séu ósáttir við þessa
reglugerð, enda búi þeir ekki allir
á lögbýlum. Eigi að síður hyggjast
þessir bændur láta reyna á hvort þeir
muni njóta aðstoðar eins og áður.
„Það er verulega gaman að fá
að taka þátt í þessari uppbyggingu
og verndun stofnsins. Samt bý ég á
sýktu svæði og get því ekki selt frá
mér lífdýr. Að sama skapi verð ég
að fara yfir nokkrar varnarlínur til
að ná mér í dýr til að fjölga í mínum
stofni. Það má því segja að ég sé í
svolítilli klemmu að vera staðsett
hér,“ segir Helena Hólm. Hún er
þó afskaplega ánægð með að hafa
tekið þá ákvörðun að flytja austur
í Flóa. /HKr.