Bændablaðið - 06.07.2017, Side 39

Bændablaðið - 06.07.2017, Side 39
39Bændablaðið | Fimmtudagur 6. júlí 2017 SKÓGRÆKT&LANDGRÆÐSLA Skógræktarfélag Eyfirðinga: 70 rósakirsitré gróðursett á 70 ára afmælisári Gróðursett voru 70 rósakirsitré og ýmsar fleiri blómstrandi tegund- ir trjáa, runna og fjölæringa á árlegum gróðursetningardegi Skógræktarfélags Eyfirðinga á dögunum, en það var stjórn félagsins, starfsmenn þess og fjölskyldur sem komu saman og gerðu sér glaðan dag í tilefni af því að 70 ár eru liðin frá því starfsemi gróðrarstöðvar hófst í Kjarnaskógi. Tímamótanna verður minnst með ýmsum hætti í sumar og 19. ágúst verður skógardagur Norðurlands haldinn á Birkivelli, nýju grill- og leiksvæði sem þá verður formlega tekið í notkun í Kjarnaskógi. Þar hefur uppbygging staðið yfir undan- farin misseri og eru þar nú strandbla- kvellir, völundarhús, grillhús, margs konar leiktæki, borðtennisborð, hjólastólaróla og snyrtingar. Leitast hefur verið við að hafa gróður sem fjölbreytilegastan og trjátegundir sem flestar að því er fram kemur á vef Skógræktarinnar. Bleikt blómahaf á vorin Sólskógar reka nú gróðrarstöð- ina í Kjarna sem Skógræktarfélag Eyfirðinga rak áður en félagið sér áfram um viðhald og uppbyggingu í Kjarnaskógi og Naustaborgum. Gott samstarf er þarna á milli og til dæmis gefa Sólskógar rósakirsitrén 70 sem nú eru komin í jörð skammt neðan við Birkivöll, á skjólgóðu svæði þar sem komið verður upp minigolfvelli. Þar má búast við að verði bleikt blómahaf á vorin sem verður æ tilkomumeira með hverju árinu sem líður. Auk rósakirsitrjánna voru gróðursettir heggir, blóðheggir, gullregn, sírenur, álmar, lyngrósir og fjölmargar fleiri tegundir sem prýða munu svæðið og blómstra á mismunandi tímum sumarsins. /MÞÞ - Myndir / Pétur Halldórsson Húnaþing vestra: Ráðist í sjö búskaparskógræktarverkefni – Markmið að bæta búsetuskilyrði og laga skógrækt að þörfum bænda Unnið verður að sjö verkefnum í Húnaþingi vestra undir merkjum átaksverkefnis í búskaparskóg- rækt sem efnt var til á síðasta ári. Skjólbeltakerfi verður ræktað á tveimur jörðum, snjófangari á einni jörð og hagaskógur á tveimur. Auk þess verða gerð- ar tilraunir með skógarbeit og klónatilraun með ösp í skjólbelti. Á síðasta ári tilkynnti Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, um eins árs þró- unar- og átaksverkefni um búskap- arskógrækt í Húnaþingi vestra. Veittar voru sjö milljónir króna til verkefnisins og Skógræktinni falið að stýra því í samvinnu við Húnvetninga. Sæmundi Kr. Þorvaldssyni skógfræðingi var falið að stýra ver- kefninu fyrir hönd Skógræktarinnar og ásamt honum sér Johan Holst skógræktarráðgjafi um faglegu hliðina. Efnt var til samráðs við Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda og Sveitarfélagið Húnaþing vestra. Þetta kemur fram á vef Skógræktarinnar. Skógrækt til bættra búsetuskilyrða Þegar stofnað var til verkefnisins lagði ráðherra áherslu á að hugað yrði að ræktun skjólbeltakerfa, skjóllunda fyrir búfé, hagaskóga, landgræðsluskóga, skjólskóga, akurskóga og fjölnytjaskóga þar sem timburvinnsla yrði til viðbótar við önnur markmið. Bændur skyldu fá ráðgjöf um hvernig nýta mætti framantalda kosti til að bæta skil- yrði til búsetu á jörðum sínum og kanna skyldi hvers konar breytingar væri æskilegt að gera á núverandi stuðningi við skógrækt á lögbýl- um svo að skógræktarverkefni yrðu áhugaverðari fyrir bændur. Með þessu verkefni er í raun verið að styrkja í sessi fyrirbrigði sem ráðherra kaus að kalla búskap- arskógrækt en hefur líka verið nefnt skógarlandbúnaður, og er skipulagður út frá þeirri hugmynd að saman fléttist í eina heild skóg- rækt og annar búskapur. Markmiðið er sjálfbær landnýting þar sem trjárækt er á sama svæði og annar búskapur og framleiðsla búsins fæst bæði af ökrum, búfé og trjám. Með þessu fáist sterkari vistkerfi á bújörðinni og meiri líffjölbreytni. Að flétta trjá- og skógrækt saman við hefðbundnar búgrein- ar á íslenskum búum hefur marg- víslegan ávinning fyrir bóndann. Skjólbelti draga úr áföllum vegna tíðarfars og þau geta minnkað ágang gæsa og álfta á túnum. Búast má við meiri grósku og þar með uppskeru í skjólinu. Trjágróðurinn grípur næringarefnin sem ekki nýt- ast á túninu eða akrinum og koma í veg fyrir að þau skolist út í vatna- svið. Skjól- eða skógarbelti má líka nota til að stýra því hvar snjór safn- ast fyrir eða til að skýla lambfé á vorin, skýla íbúðar- og útihúsum, búa til umhverfi til útivistar, o.s.frv. Svo má nefna teinungs¬skóg með t.d. ösp þar sem markmiðið getur t.d. verið að uppskera reglu¬lega iðnvið, enn fremur hagaskóg þar sem megintilgangurinn er að skapa gjöfult beitiland fyrir búfé en timburtekja getur verið aukageta og margt fleira. Verkefni á sjö jörðum Fjórtán umsóknir bárust um þátttöku í slíkum verkefnum. Sæmundur og Johan skoðuðu við- komandi jarðir í marsmánuði og nú er stefnt að því að ráðast í verkefni á alls sjö jörðum. Á Lækjamóti í Víðidal verður ræktað skjólbelta- kerfi en snjófangari á Gauksmýri í Línakradal. Á Mýrum 3 í Hrútafirði verður ræktað öflugt skjólbeltakerfi um tún og bæjarhús. Í tilraunaskyni er líka efnt til nokkurs konar auka- verkefnis á Brekkulæk í Miðfirði þar sem rýrt holt með eldri haga- skógi hjá skógar- og sauðfjárbónda verður varið fyrir hrossabeit en ekki sauðfjárbeit. Tilraunir með hagaskóg- rækt verða enn fremur gerðar á tveimur stöðum, annars vegar á Fjarðarhorni í Hrútafirði á rúmlega 26 hekturum og hins vegar á 5,4 hekturum á Kolugili í Víðidal. Með hagaskógi er átt við gisinn skóg með góðum bithögum. Í þessum tilraunum verður þess freistað að koma upp lerkiskógi án friðunar fyrstu árin. Sé þetta hægt sparast miklir fjármunir sem ella færu í girðingar. Loks skal nefna að á Bakka í Víðidal verður líka gerð áhugaverð tilraun. Þar verða gróð- ursettir nokkrir sérvaldir asparklón- ar í skjólbelti við tún í um 200 metra hæð yfir sjó. Framkvæmdir eru hafnar við jarðvinnslu vegna skjólbelta á Gauksmýri og gróð- ursetning í snjófangara. Einnig er gróðursetning í hagaskóginn í Fjarðarhorni vel á veg komin. Vart hefur orðið mikils áhuga meðal bænda um allt land á þessum ver- kefnum í Húnaþingi vestra. /MÞÞ

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.